mán 30.jan 2023
Hvernig fékk Fabinho ekki að líta rauða spjaldið fyrir þessa tæklingu?
Fabinho.
Það er óhætt að segja að brasilíski miðjumaðurinn Fabinho hafi verið stálheppinn að fá ekki rautt spjald í bikarleik Liverpool gegn Brighton í gær, sunnudag.

Fabinho sjálfur virtist búast við rauðu spjaldi en það fór ekki á loft, meira að segja ekki eftir VAR-skoðun.

Evan Ferguson, ungur sóknarmaður Brighton, varð fyrir tæklingunni og hann þurfti að fara af velli. Eftir leik sást hann yfirgefa leikvanginn á hækjum.

Það myndaðist mikil umræða um tæklinguna og þá ákvörðun að gefa Fabinho ekki rauða spjaldið í því tilviki. Margir eru sammála um að það hafi verið glórulaus ákvörðun að taka ekki upp rauða spjaldið.

Fréttamaðurinn Tom Young gengur svo langt að segja að þetta sé mögulega versta VAR-ákvörðun sem hann hefur séð. „Það er skelfilegt að dómarinn hafi tekið vitlausa ákvörðun á meðan leiknum stóð en enn verra að VAR hafi ekki breytt þeirri ákvörðun."

„Fabinho veit líka að þetta var rautt spjald," skrifar Young.

Ally McCoist, fyrrum landsliðsmaður Skotlands, ræddi um atvikið í morgunútvarpinu í Bretlandi og sagði þar að hann hefði verið sjokkeraður að sjá ekki rauða spjaldið fara á loft. Hér fyrir neðan má sjá myndband af atvikinu.