mán 30.jan 2023
[email protected]
Traore fer í læknisskoðun hjá Bournemouth á morgun
 |
Hamed Traore gæti sinnt lykilhlutverki fyrir Bournemouth í fallbaráttunni. |
Bournemouth er að ganga frá tveimur leikmannakaupum á lokametrum janúargluggans.
Úrúgvæski landsliðsbakvörðurinn Matias Vina er búinn að standast læknisskoðun en hann kemur á lánssamningi frá Roma með 15 milljón evru kaupmöguleika. Þá hefur ítalska félagið Sassuolo samþykkt tilboð í sóknartengilið sinn Hamed Traore, sem komst í fréttirnar fyrir nokkrum árum fyrir að þykjast vera bróðir Amad Diallo sem er í dag leikmaður Manchester United. Traore skoraði 7 mörk í 31 deildarleik á síðustu leiktíð en hefur verið að glíma við meiðsli og á aðeins þrjár stoðsendingar í ellefu leikjum á þessari leiktíð. Bournemouth hefur verið að leita sér að fjölhæfum sóknartengiliði og var næstum búið að krækja í Nicoló Zaniolo frá Roma fyrr í janúar, en leikmaðurinn neitaði að setjast niður fyrir samningsviðræður. Stjórnendur Bournemouth vonast til að Traore geti hjálpað félaginu í fallbaráttu ensku úrvalsdeildarinnar þar sem liðið er með 17 stig eftir 20 umferðir. Traore, sem verður 23 ára í febrúar, á fjóra landsleiki að baki fyrir Fílabeinsströndina. Bournemouth borgar 21 milljón punda fyrir leikmanninn sem flýgur til Engands á morgun til að gangast undir læknisskoðun.
|