þri 31.jan 2023
[email protected]
Brandon Williams má fara frá United
Einhverjir leikmenn gætu farið frá Manchester United á láni í dag, ekki er þó talið að margir sem hafa verið viðloðnir aðalliðið séu á förum.
Erik ten Hag, stjóri United, er sagður vilja halda Facundo Pellistri og Anthony Elanga í hópnum út tímabilið og ólíklegt að þeir séu á förum. Zidane Iqbal er einnig sagður vera áfram þrátt fyrir takmarkaðan mínútufjölda með aðalliðinu.
Brandon Williams er því líklegast stærsta nafnið sem gæti verið á leið í burtu á láni. Williams er 22 ára Englendingur sem lék sinn fyrsta leik fyrir United tímabilið 2019-20.
Hann er líklega þriðji-fjórði kostur liðsins í bakvarðastöðurnar. Á síðasta tímabili var hann á láni hjá Norwich og á þessu tímabili hefur hann einungis komið við sögu í einum leik með aðalliði United á tímabilinu.
|