fim 02.feb 2023
Amrabat baðst afsökunar á hegðun sinni á gluggadag
Sofyan Amrabat, leikmaður Fiorentina á Ítalíu, hefur beðið stjórn, þjálfara og leikmenn félagsins afsökunar á framferði sínu á gluggadag.

Amrabat, sem var einn besti leikmaður heimsmeistaramótsins í Katar, vildi komast frá Fiorentina á lokadegi gluggans.

Atlético Madríd og Barcelona sýndu honum mikinn áhuga og lagði Barcelona meðal annars fram tilboð á síðustu klukkutímunum en Fiorentina hafnaði því.

Amrabat reyndi sitt allra besta í að koma frá félaginu og neitaði að mæta á æfingu en það varð aldrei neitt úr skiptunum og mætti hann aftur á æfingu í dag með skottið á milli lappanna.

Marokkómaðurinn baðst afsökunar á framferði sínu og tók félagið afsökunarbeiðninni.

Hann kom svo inn í hópinn fyrir leikinn gegn Torino í bikarnum í gær og var settur inná í síðari hálfleik í 2-1 sigri.