mið 01.feb 2023
Geggjuð byrjun hjá Ounahi - Lék varnarmann Nantes grátt og skoraði
Azzedine Ounahi, einn besti leikmaður heimsmeistaramótsins í Katar, spilaði sinn fyrsta leik fyrir Marseille í frönsku deildinni í kvöld og kynnti hann sig svo sannarlega með stæl.

Marseille keypti Ounahi frá botnliði Angers í janúarglugganum en Ounahi var magnaður í liði Marokkó á HM í Katar er þjóðin komst alla leið í undanúrslit mótsins.

Margir stærstu miðlar heims völdu hann í úrvalslið mótsins en hann er þegar byrjaður að sýna skemmtilega takta með Marseille.

Hann kom inná á 74. mínútu og rúmum fimmtán mínútum síðar gerði hann annað mark Marseille og tryggði sigurinn.

Jonathan Clauss átti glæsilega utanfótarsendingu inn á Ounahi sem lék tvisvar á varnarmann Nantes áður en hann afgreiddi boltann í netið en hægt er að sjá mark hans hér fyrir neðan.

Sjáðu markið hjá Ounahi hér