mið 01.feb 2023
Ítalski bikarinn: Fiorentina í undanúrslit
Luka Jovic skoraði fyrra mark Fiorentina
Fiorentina 2 - 1 Torino
1-0 Luka Jovic ('64 )
2-0 Jonathan Ikone ('89 )
2-1 Yann Karamoh ('90 )

Fiorentina er búið að bóka sæti í undanúrslit ítalska bikarsins eftir að hafa lagt Torino að velli, 2-1, í Flórens í kvöld.

Gestirnir frá Torino voru ekki langt frá því að komast yfir strax á 2. mínútu en Pietro Terracciano varði frábærlega frá Samuele Ricci.

Rolando Mandragora átti skot í stöng fyrir Fiorentina stuttu síðar og Nikola Milenkovic átti þá skalla yfir undir lok fyrri hálfleiksins.

Luka Jovic kom Fiorentina yfir á 64. mínútu með skalla og þá gerði Jonathan Ikone annað markið á 89. mínútu.

Yann Karamoh minnkaði muninn á lokasekúndum leiksins en lengra komust Torino-menn ekki. Lokatölur 2-1 fyrir Fiorentina sem er komið í undanúrslit.