fös 03.feb 2023
Dagný tilnefnd sem leikmaður ársins í Lundúnum
Dagný Brynjarsdóttir
Íslenska landsliðskonan Dagný Brynjarsdóttir er tilnefnd til verðlauna sem besti leikmaður ársins í Lundúnum fyrir árið 2022.

Dagný, sem er fyrirliði West Ham, hefur átt gott tímabil með liðinu en hún er með níu mörk í öllum keppnum og tryggði West Ham meðal annars í undanúrslit enska deildabikarsins á dögunum.

Mikilvægi hennar er gríðarlegt og hefur hún nú hlotið mikla viðurkenningu fyrir spilamennsku sína og verið tilnefnd sem besti leikmaður ársins í Lundúnum.

Beth Mead, leikmaður Arsenal og enska landsliðsins, þykir líklegust til að vinna verðlaunin.

Tilnefningarnar: Beth Mead (Arsenal), Kim Little (Arsenal), Sam Kerr (Chelsea), Millie Bright (Chelsea), Dagný Brynjarsdóttir (West Ham).

Í karlaflokki eru tveir leikmenn Arsenal tilnefndir en það eru þeir Bukayo Saka og Martin Ödegaard. Harry Kane, Ivan Toney og Aleksandar Mitrovic eru einnig tilnefndir.

Mikel Arteta, stjóri Arsenal, kemur til greina sem þjálfari ársins ásamt Thomas Frank, Marco Silva, Richie Wellens og Emmu Hayes.

Verðlaunahátíðin fer fram þann 13. mars.