sun 05.feb 2023
Segir Mourinho aldrei hafa verið frábæran þjálfara - „Kann að plata fjölmiðla”
Cassano á sínum tíma hjá Roma.
Mynd: Getty Images

Ítalinn Antonio Cassano er þekktur fyrir það að láta í sér heyra í heimalandinu. Hann liggur ekki á skoðunum sínum og segir oft ýmsa hluti sem kunna að vera skrautlegir.Að þessu sinni hefur hann ákveðið að vaða í Jose Mourinho, stjóra AS Roma. Portúgalanum hefur verið hrósað fyrir verk sitt til þessa hjá Roma en Cassano hefur ekki verið hrifinn og alltaf talað gegn þjálfaranum og liðinu.

Eftir að Roma féll óvænt úr leik gegn Cremonese í ítalska bikarnum í vikunni þá ákvað Cassano að nýta tækifærið vel og láta Mourinho heyra það.

„Mourinho hefur aldrei verið frábær stjóri. Hann kunni að plata fjölmiðla og var góður í samskiptum við leikmenn. Hann er góður í að eiga við stóra karaktera, ekki þessa sem eru aðeins lakari. Það er mjög auðvelt að vera bara vingjarn við stóru leikmennina,” sagði Cassano.

„Þessi frammistaða Roma fékk mig til þess að æla. Hann veit ekki hvernig á að stilla upp liði. Þú átt að vinna Cremonese þó það sé með varaliðinu þínu.”

Þá sagði Cassano að Mourinho hafi gert mjög illa í málunum sem tengjast Rick Karsdorp og Nicolo Zaniolo.

Portúgalinn urðaði opinberlega yfir Karsdorp og henti honum úr hópnum á síðasta ári en sagt er að Hollendingurinn muni snúa aftur í leikmannahópinn fljótlega.

Roma vann 2-0 sigur á Empoli í gær og er liðið í þriðja sæti deildarinnar.