mán 06.feb 2023
Daily Mail: Stig gætu verið dregin af Man City
Pep Guardiola, stjóri Manchester City.
Daily Mail segir að Manchester City sé sakað um að hafa brotið fjárhagsreglur ensku úrvalsdeildarinnar yfir 100 sinnum yfir níu leiktímabil.

Enska úrvalsdeildin hefur ákært City fyrir brot á fjárhagsreglum 2009-2018. Sjálfstæð nefnd skoðar málið.

Ásakanirnar á hendur ríkjandi Englandsmeisturum tengjast fjárhagsupplýsingum varðandi tekjur, upplýsingar um laun stjóra og leikmanna, reglugerðir UEFA, arðsemi og sjálfbærni.

Daily Mail segir að ýmsar refsingar komi til greina ef sekt sannast á Manchester City. Þar á meðal sé stigafrádráttur og möguleg brottvísun (fall niður úr deildinni). Félagið hefur enn ekki tjáð sig um tíðindin.

Sem dæmi voru 15 stig dregin af ítalska stórliðinu Juventus á þessari leiktíð þar sem félagið hafði brotið fjárhagsreglur ítölsku deildarinnar.

Árið 2020 var City dæmt í tveggja ára bann frá Evrópukeppnum en CAS, alþjóðlegi íþróttadómstóllinn, felldi bannið úr gildi. UEFA taldi að City hefði brotið Financial Fair Play reglurnar milli 2012 og 2016.

Á síðasta tímabili vann City sjötta enska úrvalsdeildartitil sinn síðan Abu Dhabi United Group eignaðist félagið 2008.