mán 06.feb 2023
Gunnhildur Yrsa: Vonandi vinnur hann aldrei aftur í kvennaboltanum
Gunnhildur Yrsa Jónsdóttir.
Á landsliðsæfingu.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð

Í landsleik.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð

Landsliðskonan Gunnhildur Yrsa Jónsdóttir skoraði fyrsta markið í sögu Utah Royals í mars 2018 í leik gegn Orlando Pride, félagi sem hún átti eftir að spila með síðar meira.

Gunnhildur var á mála hjá Utah frá 2018 til 2020 en félagið var leyst upp í kjölfarið á leiðinlegum málum sem komu upp.

Málin tengdust Dell Loy Hansen, eiganda félagsins, og viðskiptastjóranum, Andy Carroll. Þeir voru með ýmsar ljótar skoðanir og var Gunnhildur nefnd í fréttaflutningi um þeirra mál.

Roscoe Myrick, fyrrum liðsljósmyndari hjá Royals, sagði að Carroll hefði beðið um að leikmenn myndu stilla sér þannig upp fyrir myndatöku að þær væru „sexý". Starfsliðið neitaði að mynda leikmennina á þann hátt, en annar starfsmaður staðfesti þessa frásögn.

Carroll vildi þá einnig að það yrðu bara notaðar myndir af Christen Press, Amy Rodriguez og Kelley O’Hara á auglýsingaskiltum. Honum fannst þær sætastar í liðinu og hann hafi ekki viljað leikmenn eins og Gunnhildi og Becky Sauerbrunn á auglýsingaskiltum.

„Ég og ein önnur stelpa lendum svolítið illa í þessu," sagði Gunnhildur í hlaðvarpi á Fótbolta.net í gær. „Hann vildi ekki auglýsa neinar stelpur sem væru samkynhneigðar og á þessum tíma var ég með stelpu og er gift konu í dag. Hann vildi ekki að við værum í neinum auglýsingum. Hann vildi heldur ekki sýna neinar stelpur með húðflúr og ég er þar."

„Svo sagði hann að ég og tvær aðrar værum ekki nægilega fallegar til að vera neins staðar."

„Mér er í raun alveg sama hvað honum finnst. Þetta var maður sem heilsaði ekki konum, vildi að búningarnir voru of þröngir svo fleiri myndu mæta á leiki... hvað honum finnst um mig, mér gæti ekki verið meira sama. Að kvennafótboltinn hafi verið þarna árið 2020 er hrikalegt. Það á enginn skilið að einhver karl ákveði hver fer upp á auglýsingarnar, hvort þær séu samkynhneiðar, með húðflúr eða hvernig þær líta út."

„Þessi hegðun var ekki í lagi. Hann gekk þarna um eins og hann væri betri en allir, hann heilsaði ekki stelpunum og lagði Porsche-inum sínum í stæði fyrir fatlaða. Vonandi vinnur hann aldrei aftur í kvennaboltanum," segir Gunnhildur.

„Svo kom það í ljós að þjálfarinn sem var seinasta tímabilið mitt hjá félaginu var rekinn af því að hann var með hegðun sem var ekki sæmileg. Hann fór í bann í okkar deild en ég held að hann hafi farið beint í að þjálfa annars staðar. Það þarf að taka á þessu og sem betur fer er byrjað að taka á þessu í Bandaríkjunum."

Gunnhildur segir að það sé svakalegt svona hegðun og svona menning sé enn að tíðkast, eiginlega sé það sorglegt. Það er þó verið að taka á þessu sem er gott. Hún bætir við að aðdáendurnir í Utah hafi verið frábærir.

Hægt er að hlusta á hlaðvarpið í heild sinni hér fyrir neðan en þar ræðir Gunnhildur meira um þetta mál og frekar um tímann sinn hjá Bandaríkjunum.

Sjá einnig:
Heimavöllurinn: Lífstíðarbönn eftir að viðbjóðurinn vall upp úr skýrslunni