mán 06.feb 2023
Isco, Vrsaljko og Jesé meðal samningslausra leikmanna
Mynd: Getty Images

Mynd: Getty Images

Búið er að loka félagaskiptaglugganum fyrir félög í stærstu deildum Evrópu en þau geta enn krækt sér í samningslausa leikmenn.

Það eru nokkrir öflugir fótboltamenn samningslausir þessa dagana og líklegt að þeir muni ganga í raðir nýs félags á næstu vikum. Þar á meðal er Isco, fyrrum leikmaður Real Madrid með 38 landsleiki að baki fyrir Spán.

Isco, sem hefur ekki spilað fyrir landsliðið síðan 2019, er 30 ára gamall og var næstum genginn til liðs við Union Berlin á lokadögum janúargluggans. Það samkomulag varð að engu þegar launakröfur Isco reyndust alltof háar fyrir Berlínarfélagið.

Isco varði fyrri hluta tímabilsins hjá Sevilla en rifti samningi sínum við félagið um áramót eftir að hafa aðeins gefið tvær stoðsendingar í tólf leikjum í La Liga. 

Annar samningslaus leikmaður er Sime Vrsaljko, fyrrum hægri bakvörður Atletico Madrid og Inter, sem var leystur undan samningi hjá Olympiakos í janúar. Hann er 31 árs gamall og með 52 leiki að baki fyrir Króatíu.

Jese Rodriguez, fyrrum leikmaður PSG og Real Madrid, er þá samningslaus eftir að hafa rift við Ankaragucu í Tyrklandi. Þar skoraði hann 4 mörk í síðustu 5 leikjum sínum fyrir félagið. Jese á þrítugsafmæli seinna í febrúar.

Þar að auki má finna Jordan Lukaku, yngri bróður Romelu og fyrrum leikmann Lazio, á lista yfir menn sem eru falir á frjálsri sölu.

Federico Fernandez, sem á 199 úrvalsdeildarleiki að baki með Newcastle og Swansea, verður 34 ára síðar í febrúar og er einnig á listanum. Ásamt honum má finna Bojan Krkic, fyrrum leikmann Barcelona og Ajax sem er 32 ára, og 29 ára gamlan Jurgen Locadia sem var á mála hjá Brighton þar til í fyrra.

Argentínski hægri bakvörðurinn Renzo Saravia, 29 ára með 9 A-landsleiki að baki, er einnig samningslaus rétt eins og Pape Cheikh Diop, 25 ára fyrrum leikmaður Celta og Lyon með þrjá landsleiki að baki fyrir Senegal.