mán 06.feb 2023
Sjáðu fögnuðinn með Atsu í gær - Óttast um líf hans í dag
Hinn 31 árs gamli Atsu spilaði yfir 100 leiki fyrir Newcastle og gerði 9 mörk í 65 landsleikjum með Gana.

Það var svakaleg jarðskjálftahrina sem reið yfir Tyrkland síðustu nótt og mældist stærsti skjálftinn 7,8 á Richter.Christian Atsu, fyrrum leikmaður Chelsea og Newcastle, er fastur undir rústum eftir jarðskjálftann en í gær skoraði hann sigurmark Hatayspor í gífurlega mikilvægum fallbaráttuslag gegn Kasimpasa.

Sigurmarkið var laglegt og kom beint úr aukaspyrnu. Liðsfélagarnir fögnuðu dátt með Atsu, sem hafði komið inn af bekknum, eins og er hægt að sjá hér fyrir neðan.

Í dag var hins vegar óttast um líf leikmannsins en nokkur þúsund dauðsföll hafa þegar verið staðfest af yfirvöldum.

Margir af liðsfélögum Atsu festust undir húsarústum en var svo bjargað. Atsu er enn týndur rúmum 18 klukkustundum eftir fyrri jarðskjálftann.

Ýmsir fjölmiðlar greindu frá því í dag að Atsu hafi verið fundinn en þær fregnir eru rangar.

Sjá einnig:
Atsu fastur undir rústum eftir stóran jarðskjálfta