fim 09.feb 2023
Iraola hafnaði Leeds

Spænskir fjölmiðlar greina frá því að Andoni Iraola, eftirsóttur þjálfari Rayo Vallecano, hafi hafnað því að hefja samningsviðræður um knattspyrnustjórastarfið hjá Leeds United.Andrea Radrizzani, eigandi Leeds, er í leit að næsta knattspyrnustjóra eftir að Jesse Marsch var rekinn á dögunum.

Iraola, sem lék meðal annars undir stjórn Marcelo Bielsa sem atvinnumaður, hefur gert frábæra hluti við stjórn hjá Rayo Vallecano sem er óvænt í fimmta sæti spænsku deildarinnar, með 32 stig eftir 20 umferðir.

Leeds gat keypt Iraola frá Vallecano fyrir 10 milljónir evra og sendi menn til að kynna hann fyrir hugmynd félagsins. Iraola hafnaði því að fara í samningsviðræður og ákvað að halda áfram hjá Vallecano.

Iraola hefur verið við stjórnvölinn í tvö og hálft ár hjá félaginu og gert frábæra hluti. Hann stýrði Vallecano upp í efstu deild á sínu fyrsta tímabili og bjargaði félaginu svo nokkuð örugglega frá falli í fyrra. Núna getur félagið hins vegar látið sig dreyma um Evrópusæti.