fim 09.feb 2023
Keys spáir því að Klopp hætti hjá Liverpool í sumar
Jurgen Klopp, stjóri Liverpool.
Íþróttafréttamaðurinn umdeildi Richard Keys spáir því að Jurgen Klopp muni ganga út í sumar og hætta sem stjóri Liverpool. Tímabilið hefur verið erfitt hjá Liverpool og liðið situr í tíunda sæti úrvalsdeildarinnar.

Endurnýjunar er þörf hjá Liverpool en Keys heldur að Klopp muni ekki stýra henni. Þá gagnrýnir hann þýska stjórann fyrir framkomu hans við fjölmiðlafólk.

„Það er bara einn sigurvegari þegar þjálfari fer í stríð við fjölmiðla, og það er ekki þjálfarinn," segir Keys.

„Ég spái því að Klopp muni hætta, ekki strax en ef Real Madrid slær Liverpool út í Meistaradeildinni held ég að hann muni fara í sumar. Liverpool hefur dregist langt aftur úr og það er Klopp að kenna. Hann byrjaði endurnýjunina of seint."

„Hvað var Liverpool að pæla með að halda Milner, Henderson og Firmino? Tiago er kominn yfir sitt besta, ég hef reyndar aldrei verið aðdáandi. Hann var rangur maður í röngu félagi á röngum tíma. Hann hægir Liverpool niður. Í rauninni er öll miðjan of gömul eða of léleg. Robertson er kominn yfir sitt besta."

„Hver sá sem stýrir Liverpool á næsta tímabili þá á hann erfitt verk fyrir höndum. Teljum við að Klopp sé rétti maðurinn í verkefnið? Ég geri það ekki."