lau 18.mar 2023
Conte hefur trú á því að Kane verði áfram nái Spurs topp fjórum

Antonio Conte, stjóri Tottenham Hotspur, hefur trú á því að Harry Kane verði hjá félaginu út ferilinn.Kane verður þrítugur í sumar en hann mun eiga eitt tímabil eftir á samningi sínum þegar þessu tímabili lýkur. Conte reyndi að fá félagið í að framlengja samning hans síðasta sumar en Kane sagði í janúar mánuði að það væru ekki miklar viðræður í gangi.

Conte hefur trú á því að ef Tottenham nái topp fjórum og komist í Meistaradeild Evrópu á næstu leiktíð þá verði Kane áfram. Tottenham mætir fallbaráttuliði Southampton í mikilvægum leik í deildinni í dag.

„Það er mikilvægt fyrir alla að ná topp fjórum. Fyrir félagið, leikmennina, þjálfarana, stuðningsmennina, starfsliðið. Það verður allt auðveldara og einfaldara ef félagið kemst í Meistaradeildina á ný," sagði Ítalinn.

„Bestu leikmennirnir vilja spila í þessari keppni. Við sjáum hvað gerist eftir tímabilið."

Framtíð Conte hjá Tottenham er í óvissu en margir halda að hann muni yfirgefa félagið þegar samningur hans rennur út í sumar.