mán 05. maí 2008 10:30
Magnús Már Einarsson
Spá fyrirliða og þjálfara í 1.deild karla: 6.sæti
Mynd: Fótbolti.net - Andri Janusson
Mynd: Guðmundur Karl
Mynd: Guðmundur Karl
Mynd: Guðmundur Karl
Fótbolti.net ætlar að fjalla vel um fyrstu deildina í sumar eins og undanfarin ár og við ætlum að hita vel upp með því að birta spá fyrirliða og þjálfara í deildinni fram að móti.

Við fengum alla fyrirliða og þjálfara til að spá og fengu liðin því stig frá 1-11 eftir því en ekki var hægt að spá fyrir sínu eigin liði. Í sjötta sætinu í þessari spá voru Selfyssingar sem fengu 119 stig af 242 mögulegum. Kíkjum á umfjöllun okkar um Selfyssinga,

.
6.sæti: Selfoss.
Búningar: Vínrauð treyja, hvítar buxur, hvítir sokkar.
Heimasíða: http://www.umfs.is

Það má búast við góðri stemningu á Selfossi í sumar enda er liðið loksins komið aftur í 1. deildina eftir 14 ára fjarveru. Síðustu ár hefur liðið verið ansi oft mjög nálægt því að komast upp en það tókst loksins í fyrra við mikinn fögnuð heimamanna. Liðið mun spjara sig ansi vel sem nýliði í deildinni í sumar ef marka má spá fyrirliða og þjálfara.

Það leynir sér ekki að mjög metnaðarfullt starf hefur verið unnið á Selfossi síðustu ár og vel haldið um böndin. Það hafa ekki verið mjög miklar breytingar á liðinu milli ára en það hefur þó styrkt sig jafnt og þétt. Meðal annars hafa gamlir Selfyssingar verið að koma heim reynslunni ríkari og eiga stóran þátt í því að liðið hefur nú komist upp í 1. deildina.

Endurkoma Sævars Þórs Gíslasonar í fyrra gerði mjög mikið fyrir liðið. Hann varð langmarkahæstur í 2. deildinni og var síðan valinn leikmaður ársins í deildinni. Ef hann heldur áfram í sumar þar sem frá var horfið er ljóst að varnarmenn 1. deildarinnar eiga erfitt verkefni fyrir höndum gegn Selfossi í sumar.

Henning Jónasson var á láni frá KR í fyrra en hann er nú alfarið genginn í raðir Selfyssinga. Er það mikill styrkur fyrir liðið. Þá er Dusan Ivkovic kominn í vörnina en þessi 27 ára serbneski leikmaður hefur verið frábær í vörn KS/Leifturs síðustu tvö ár og var valinn í lið ársins í 2. deildinni í fyrra. Ljóst er að Selfyssingar binda miklar vonir við hann. Einnig hefur liðið fengið Gunnar Borgþórsson sem bara fyrirliðabandið hjá Aftureldingu.

Selfoss verður hiklaust eitt athyglisverðasta lið deildarinnar enda gæti þetta orðið ansi skemmtilegt sumar fyrir bæjarfélagið ef stemningin og stuðningurinn við liðið verður á réttu róli. Þá verður athyglisvert að fylgjast með framgöngu reynsluboltans Zorans Miljkovic sem tók við þjálfun liðsins í fyrra og náði góðum árangri.

Styrkleikar: Varnarmenn andstæðingana þurfa að vera vel á verði þar sem liðið er ansi öflugt fram á við með Sævar Þór Gíslason fremstan í flokki. Umgjörðin kringum liðið er góð og ljóst að menn munu leggja sig alla fram á fyrsta ári þess í 1. deildinni í langan tíma. Selfoss hefur nokkra flinka fótboltamenn og geta spilað flottan fótbolta. Breiddin í hópnum er fín.

Veikleikar: Varnarleikurinn hefur ekki litið nægilega vel út á undirbúningstímabilinu. Liðið tapaði 7-0 í æfingaleik gegn Fylki fyrir skömmu og fékk á sig fjórtán mörk í fimm leikjum í Lengjubikarnum. Liðið hefur oft brugðist á ögurstundum síðustu ár og gengið illa að höndla pressu. Það hefur oft átt í erfiðleikum með að klára leikina á réttan hátt. Heimavöllur liðsins hefur mátt gefa fleiri stig síðustu ár.

Lykilmenn: Dusan Ivkovic, Henning Jónasson og Sævar Þór Gíslason.

Þjálfari: Zoran Miljkovic. Tók við lið Selfyssinga af Einari Jónssyni um miðjan júní í fyrra og stýrði liðinu upp í fyrstu deild. Þessi fyrrum varnarjaxl er sigursælasti erlendi leikmaðurinn sem hér hefur leikið. Hann lék hér á landi frá 1995-2000 og varð Íslandsmeistari með ÍA og síðan varð hann Íslands og bikarmeistari með ÍBV. Mjög skipulagður þjálfari.

Komnir: Dusan Ivkovic frá KS/Leiftri, Jóhann Ólafur Sigurðsson frá Fylki, Gunnar Borgþórsson frá Aftureldingu, Boban Jovic frá Völsungi, Hjalti Jóhannesson frá KFS, Samuel Ochieng Sewe úr Hamar.

Farnir: Ásgeir Börkur Ásgeirsson í Fylki, Hallgrímur Jóhannsson í Árborg.



Spá fyrirliða og þjálfara:
1. ?
2. ?
3. ?
4. ?
5. ?
6. Selfoss 119 stig
7. Leiknir 117 stig
8. KA 115 stig
9. Þór 107 stig
10. Víkingur Ólafsvík 77 stig
11. Njarðvík 75 stig
12. KS/Leiftur 33 stig
Athugasemdir
banner
banner