Varane, Diaz, Matip, Yamal, Davies og Rashford koma við sögu
   sun 04. maí 2008 09:00
Fótbolti.net
Spá fyrirliða og þjálfara í 1.deild karla: 7.sæti
Mynd: Fótbolti.net - Magnús Már Einarsson
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Mynd: Leiknir.com - Matthías Ægisson
Mynd: Leiknir.com - Matthías Ægisson
Mynd: Leiknir.com - Matthías Ægisson
Fótbolti.net ætlar að fjalla vel um fyrstu deildina í sumar eins og undanfarin ár og við ætlum að hita vel upp með því að birta spá fyrirliða og þjálfara í deildinni fram að móti.

Við fengum alla fyrirliða og þjálfara til að spá og fengu liðin því stig frá 1-11 eftir því en ekki var hægt að spá fyrir sínu eigin liði. Í sjöunda sætinu í þessari spá voru Leiknismenn sem fengu 117 stig af 242 mögulegum. Kíkjum á umfjöllun okkar um Leikni.

.
7.sæti: Leiknir R.
Búningar: Vínrauð treyja, bláar buxur, bláir og rauðir sokkar.
Heimasíða: http://www.leiknir.com

Leiknir náði besta árangri sínum frá upphafi þegar liðið hafnaði í sjötta sæti deildarinnar í fyrra. Stöðugur uppgangur hefur verið á liðinu og það hefur bætt árangur sinn á hverju ári frá árinu 2003. Ef spá þjálfara og fyrirliða gengur eftir mun þeim uppgangi ljúka í sumar. Liðinu gekk illa fyrri hluta tímabils í fyrra en stigin fóru að hrannast inn eftir þjálfaraskipti og undir stjórn hins danska Jespers Tollefsen náði liðið að hafna í sjötta sæti sem var markmið liðsins fyrir tímabilið.

Leiknisliðið er algjörlega óútreiknanlegt sem sést á því að á undirbúningstímabilinu hefur því tekist að leggja úrvalsdeildarlið en náðu ekki sigri gegn 3. deildarliði KV. Ef liðið lendir á góðum degi er það illviðráðanlegt en á slæmum degi stendur ekki steinn yfir steini.

Liðið hefur nokkra lykilmenn sem verða að haldast heilir. Einn af þeim er varnarmaðurinn sterki Elinbergur Sveinsson. Halldór Kristinn Halldórsson, varnarmaðurinn efnilegi, hefur verið lánaður í FH sem er mikil blóðtaka fyrir Leiknismenn. Við hlið Elinbergs í hjarta varnarinnar verður líklega nýr danskur leikmaður, Rune Koertz, en hann verður þó ekki með í fyrstu leikjum tímabilsins sem gæti reynst Leikni erfitt. Leiknir hefur virkilega öflugan vinstri bakvörð, Steinarr Guðmundsson, og er hann illviðráðanlegur.

Miðja Leiknis er gríðarlega sterk og þar stjórnar fyrirliðinn Vigfús Arnar Jósepsson spilinu. Liðið hefur einnig virkilega efnilegan leikmann, Fannar Þór Arnarsson, sem vert er að fylgjast með en hann hefur verið fastamaður í U19 landsliðinu. Sóknarleikurinn byggist að stærstum hluta á hinum danska Jakob Spangsberg sem er einn öflugasti sóknarmaður deildarinnar.

Þrír uppaldir Leiknismenn hættu knattspyrnuiðkun eftir síðasta tímabil en þeir hafa allir spilað stórt hlutverk í uppgangi liðsins undanfarin ár. Það eru varnarmennirnir Freyr Alexandersson og Gunnar Jarl Jónsson ásamt Helga Pjetri Jóhannssyni sem skorað hefur mörg mikilvæg mörk fyrir liðið síðustu ár.

Styrkleikar: Leiknir er fjölskylduklúbbur og andinn innan liðsins er ávallt góður. Mikil samheldni einkennir liðið og það getur spilað virkilega flottan fótbolta. Liðið hefur öfluga miðjumenn og með Jakob Spangsberg í fremstu víglínu geta þeir alltaf skorað mörk. Eru með sterkan heimavöll þar sem skapast oft virkilega góð stemning. Ef hugarfar leikmanna er rétt gæti liðið barist í efri hlutanum.

Veikleikar: Helsti veikleiki Leiknisliðsins er klárlega óstöðugleiki. Liðið getur hæglega unnið öll lið í þessari deild en virðist ekki vera í vandræðum með að tapa fyrir öllum líka. Ef liðið byrjar illa gæti reynst erfitt að vinna sig upp úr því. Breiddin í vörn og sókn er lítil og liðið má alls ekki við því að missa lykilmenn sína í meiðsli.

Þjálfari: Garðar Gunnar Ásgeirsson. Er að hefja sitt fjórða tímabil með Leikni en þessi ungi þjálfari hefur náð virkilega góðum árangri með liðið. Kom þeim upp úr 2. deildinni á sínu öðru tímabili og hélt því síðan í 1. deildinni. Hann hætti síðan með liðið eftir tímabilið 2006 en er nú mættur aftur til leiks.

Lykilmenn: Elinbergur Sveinsson, Vigfús Arnar Jósepsson og Jakob Spangsberg.

Komnir: Rune Koertz frá Danmörku, Kári Einarsson frá Víkingi Reykjavík, Sigþór Snorrason frá BÍ/Bolungarvík, Ólafur Jónsson frá KB, Albert Sölvi Óskarsson frá Tindastóli, Guðni Þorsteinn Guðjónsson frá KR.

Farnir: Halldór Kristinn Halldórsson í FH, Aðalsteinn Arnarson í Tindastól, Ásgeir Þór Magnússon í Val, Davíð Logi Gunnarsson í Gróttu, Freyr Alexandersson í KB, Gunnar Jarl Jónsson í KB, Helgi Pjetur Jóhannsson í KB, Kristján Páll Jónsson í KB, Sigurður Kristján Nikulásson í KB.



Spá fyrirliða og þjálfara:
1. ?
2. ?
3. ?
4. ?
5. ?
6. ?
7. Leiknir 117 stig
8. KA 115 stig
9. Þór 107 stig
10. Víkingur Ólafsvík 77 stig
11. Njarðvík 75 stig
12. KS/Leiftur 33 stig
Athugasemdir
banner
banner
banner