þri 06. maí 2008 09:00
Fótbolti.net
Spá fyrirliða og þjálfara í 1.deild karla: 5.sæti
Mynd: Fótbolti.net - Andri Janusson
Mynd: Fótbolti.net - Andri Janusson
Mynd: Fótbolti.net - Andri Janusson
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Mynd: Fótbolti.net - Magnús Már Einarsson
Fótbolti.net ætlar að fjalla vel um fyrstu deildina í sumar eins og undanfarin ár og við ætlum að hita vel upp með því að birta spá fyrirliða og þjálfara í deildinni fram að móti.

Við fengum alla fyrirliða og þjálfara til að spá og fengu liðin því stig frá 1-11 eftir því en ekki var hægt að spá fyrir sínu eigin liði. Í fimmta sætinu í þessari spá voru Haukar sem fengu 123 stig af 242 mögulegum. Kíkjum á umfjöllun okkar um Hauka.

.
5.sæti: Haukar.
Búningar: Rauð treyja, rauðar buxur, rauðir sokkar.
Heimasíða: http://www.haukar.is

Haukar eru mættir aftur í 1. deildina eftir eins árs heimsókn í deildina fyrir neðan. Liðið fór taplaust gegnum Íslandsmótið í fyrra og vann 2. deildina ansi sannfærandi. Ljóst er að andstæðingar sumarsins verða öllu sterkari en á síðasta tímabili en fyrirliðar og þjálfarar reikna þó með því að Haukar geti gert ansi fínt mót í sumar og sigli lygnan sjó.

Andri Marteinsson náði að koma Haukum beint upp úr 2. deildinni á sínu fyrsta tímabili með liðið. Haukar hafa verið með báða arma úti nú í vetur og hafa opnað veskið til að styrkja liðið. Tveir þýskir leikmenn munu leika með Haukum í sumar og einnig sóknarmaðurinn Denis Curic sem lék fantavel með Hetti í fyrra og var valinn í lið ársins í 2. deild. Ljóst er að þar er sterkur leikmaður á ferð sem styrkir Hauka talsvert.

Haukar halda nánast sama hópi fyrir utan að Kristján Ómar Björnsson er kominn í Þrótt og skilur skarð eftir sig. Kristján skoraði þrjú mörk í sextán leikjum fyrir Hauka í Íslandsmótinu í fyrra. Í Haukaliðinu má finna ansi reynda refi eins og Goran Lukic og Þórhall Dan Jóhannsson en báðir voru í liði ársins í 2. deild í fyrra. Þeir hafa þó ekki yngst síðan í fyrra og fróðlegt að sjá hvernig þeir mæta til leiks. Reynsla þeirra gæti reynst Haukaliðinu mjög dýrmæt í sumar.

Spilamennska Hauka á undirbúningstímabilinu hefur verið ansi misjöfn. Þeir unnu góðan sigur á Þrótti í æfingaleik sem fram fór fyrir nokkrum dögum en í Lengjubikarnum fékk liðið mörg mörk á sig og lék oft á tíðum nokkuð ósannfærandi. Liðið þarf þó alls ekki að hafa áhyggjur af markmannsmálum sínum með þá Amir Mehica og Atla Jónasson en sá síðarnefndi kom á lánssamningi frá KR í vetur vegna meiðsla hins fyrrnefnda.

Nokkrir athyglisverðir leikmenn sem vert er að fylgjast með í sumar leika með Haukum. Má þar nefna hinn efnilega Ásgeir Þór Ingólfsson sem valinn var efnilegasti leikmaður 2. deildar í fyrra. Virkilega skemmtilegur leikmaður sem gæti gert góða hluti í nánustu framtíð. Svo má einnig nefna nafnana Hilmar Geir Eiðsson og Hilmar Rafn Emilsson.

Haukar hafa nokkuð þéttan hóp og gætu vel gert ágætis hluti í þessari deild. Þeir eru þó nokkuð mikið spurningamerki fyrir sumarið og ljóst að brugðið gæti til beggja vona.

Styrkleikar: Góð blanda af reynsluboltum og ungum sprækum leikmönnum. Liðið skoraði mikið í 2. deildinni í fyrra og ansi líklegt að sóknarleikurinn hjá liðinu verði einn helsti styrkleiki þess í sumar. Liðið spilar ansi vel saman þegar það dettur í rétta gírinn. Eru með góða markverði.

Veikleikar: Varnarleikurinn gæti reynst hausverkur fyrir Haukana í sumar en þar vantar ákveðinn hraða. Ef þeir lenda gegn snöggum sóknarmönnum gætu þeir lent í ansi miklum vandræðum. Breiddin á miðjunni mætti einnig vera meiri. Talsvert af nýjum leikmönnum eru að koma inn í liðið og óvíst hve lengi þeir verða að finna taktinn.

Lykilmenn: Hilmar Geir Eiðsson, Hilmar Rafn Emilsson og Denis Curic.

Þjálfari: Andri Marteinsson. Andri þjálfaði yngri flokka Hauka áður en hann tók við meistaraflokknum fyrir síðasta tímabil. Hann náði mjög góðum árangri á fyrsta tímabili sínu með liðið og vann 2. deildina. Andri er 42 ára og er einn af leikjahæstu mönnum efstu deildar frá upphafi en hann lék yfir 200 leiki í deildinni með liðum eins og Fylki, KR, FH og Víkingi og þá lék hann einnig 20 A-landsleiki.

Komnir: Denis Curic frá Hetti, Philip Richard Fritschmann frá Þýskalandi, Marco Kirsch frá Þýskalandi, Atli Jónasson frá KR, Pétur Örn Gíslason frá Álftanesi.

Farnir: Kristján Ómar Björnsson í Þrótt, Ágúst Bjarni Garðarsson í Val, Davíð Jónsson í Snæfell, Bjarki Jónsson í Snæfell.


Spá fyrirliða og þjálfara:
1. ?
2. ?
3. ?
4. ?
5. Haukar 123 stig
6. Selfoss 119 stig
7. Leiknir 117 stig
8. KA 115 stig
9. Þór 107 stig
10. Víkingur Ólafsvík 77 stig
11. Njarðvík 75 stig
12. KS/Leiftur 33 stig
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner
banner