
Fótbolti.net ákvað í tilefni þess að fótboltaárinu 2008 er lokið að hafa samband við valinkunna einstaklinga og báðum við þá um að segja okkur hvað þeim þætti eftirminnilegast í knattspyrnunni 2008, bæði hér heima og erlendis.
Fyrri hlutinn birtist í gær en í dag er komið að því að birta síðari hlutann.
Gunnleifur Gunnleifsson
Fyrirliði HK og landsliðsmarkvörður
Innlent: Árangur kvennalandsliðsins var auðvitað frábær og það er augljóst að Siggi og Guðni eru að gera góða hluti, samstaðan í hópnum virðist vera mikil og það skilar sér. Það verður gaman að fylgjast með liðinu í Finnlandi á næsta ári. FH og Keflavík gerðu íslandsmót karla gríðarlega spennandi og frammistaða leikmanna eins og Gumma Steinars, Davíð Viðars, Jóhanns Berg, Scott Ramsey, Tryggva Guðmunds og Hannesar Halldórs var eftirminnileg. Landsliðið verður lengi í minnum haft fyrir mig og það var auðvitað frábært fyrir mig að vera valinn og spila þessa leiki seinni hluta ársins. Það var sérstaklega gaman að fá að taka þátt í þessu með litla frænda mínum Birki Má Sævarssyni og ógleymanlegt fyrir okkur og fjölskylduna okkar þegar við stóðum hlið við hlið í þjóðsöngnum fyrir Hollands leikinn. Frændi fór líka í atvinnumennskuna og er auðvitað að standa sig eins og hetja og við erum auðvitað mjög stollt. Sigurinn gegn Makedóníu var frábær og ég trúi því að ef allir leggjast á eitt á næsta ári þá ættum við að geta gert harða atlögu að öðru sætinu í riðlinum. Dapurlegast var auðvitað fall okkar HK-inga í fyrstu deild, þó að við hefðum gert ágæta hluti seinni part sumars dugaði það ekki til og því kom það í okkar hlut ásamt ÍA að falla um deild. Ég vona að ég eigi ekki eftir að upplifa það aftur að falla.
Erlent:
Það er alltaf gaman þegar að stórmót er í fótbolta á sumrin að það voru ófáir leikirnir sem að maður horfði á í beinni frá evrópukeppninni í sumar og ætli Spánverjar hafi ekki unnið þetta verðskuldað en Svíarnir, mínir menn ollu vonbrigðum. Það vakti auðvitað athygli mína að allt í einu eru mínir menn Man City orðnir ríkasta lið heims og það verður fróðlegt að sjá hvað gerist í janúar glugganum á þeim bænum. Merkilegt að Liverpool skuli vera að halda góðu gengi út desember allavega og gaman fyrir stuðningsmenn þeirra.
Guðmundur Steinarsson
Markakóngur og besti leikmaður Landsbankadeildar karla
Innlent:
12 liða Íslandsmót sem bauð uppá frábæra skemmtun, fullt af mörkum, fullt af frábærum leikjum og spennu fram á síðustu stundu. Svo hvernig kreppan ógurlega er að leika íslenskt íþróttalíf, er að leggja mörg lið hreinlega í rúst. Vinna undanfarinna ára hjá leikmönnum farin í vaskinn að miklu leyti.
Erlent:
Eftirminnilegast erlendis: Sigur Spánverja á EM. Spiluðu frábæran fótbolta, hrein unun að fylgjast með þeim í þessari keppni.
Edda Garðarsdóttir
Landsliðskona og leikmaður Örebro
Innlent:
Að fá að vera þess heiðurs aðnjótandi að vera partur af stærsta afreki íslenskrar kvennaknattspyrnu þegar við tryggðum okkur sæti á EM2009 on ICE. Mjög skemmtilegt fótboltaár og búið að vera dásemd að fá að spila með öllum þessum frábærum fótboltakonum bæði í Landsliðinu í góðærinu og með KRingum í baráttunni. Eðal.
Þegar allir sem skóflu og sköfu gátu valdið tóku sig saman og gerðu seinasta áfangann okkar á leið á EM mögulegann – lýsandi fyrir ÞJÓÐARSÁLINA að sýna svona samstöðu, dugnað og kraft og ná að gera völlinn klárann. Moka tonn af snjó af vellinum með handafli, rosalegt. (kannski ekki tonn en næstum því). Því nákvæmlega þessa stund á þessum velli við þessar einstöku aðstæður vorum við svo tilbúnar í þetta með þessa mögnuðu tilfinningu í hjartanu að vera ÓSIGRANDI með ómetanlegan stuðning við bakið á okkur frá íslensku þjóðinni. Takk fyrir það. Saman getum við allt.
Við KR ingar unnum svo VISA-BIKARINN 2. árið í röð og gerðum það með ELEGANS – vorum vel tanaðar og með hvíttaðar tennur þegar við tókum á móti þessari stærstu dollu sumarsins og fögnuðum vel á eftir. Í þetta sinn tvöfalt – til hamingju strákar! Svo það að hafa orðið í 2. sæti, 3. árið í röð (stöngin út) í Landsbankadeildinni gerir deildina minnst eftirminnilegasta á árinu, nennir enginn að muna eftir því að hafa orðið „ekki meistari“ en góðu stundirnar voru sem betur fer miklu fleiri en þær misjöfnu í frábærum hóp.
Erlent:
Spánverjar Evrópumeistarar karla. Torres er klárlega besti framherjinn í Evrópu með sína ljósu lokka.
Úrslitaleikur í ÓL kvenna – rosalegur, mæli með því að allir sem fíla fótbolta horfi á hann.
Gerrard - You will never walk alone.
Jóhann Berg Guðmundsson
Efnilegasti leikmaður Landsbankadeildar karla
Innlent:
Þegar ég var valinn efnilegastur og ballið eftir það var ekki sem verst, og svo þegar ég spilaði minn fyrsta landsleik það var ekki leiðinlegt. Hversu lélegir vellirnir voru undir lokin var veisla. Svo þegar Keflavík náði einhvern veginn að tapa titlinum til FH og svo að sjálfsogðu var síðasti þátturinn af landsbankadeildarmörkonum þegar menn voru ekki par sáttir við commentin mín eftir einhvern leikinn var virkilega skemmtilegt að heyra.
Erlent:
Var klárlega Man Utd þeir sýndu bara að þeir eru lang besta liðið með því að skeina meistaradeildini og ensku, og hversu góður Ronaldo var. Man Utd er ekki bara besta lið í Evrópu heldur besta lið í heimi. Þá hefur komið á óvart hversu vel Liverpool hefur gengið en Steven Gerrard er á leið í fangelsi og því mun gleðistundum Liverpool fækka á nýju ári.
Kristinn Jakobsson
Dómari
Innlent:
Knattspyrnusumarið stóð svo sannarlega undir væntingum að mínu mati og hefur sjaldan verið eins skemmtilegt og spennandi. Fjölgun liða í efstu deild sannaði að hver einasti leikur varð þýðingamikill og einnig að flest liðin sýndu eindæma góðan sóknarbolta sem endaði oftast með markasúpu. Eftir fyrstu umferðirnir hafði ég dæmt leiki sem allflestir enduðu með mörgum mörkum, allt frá 4 til 8 mörkum í leik. Það sýndist allavega á þeim leikjum að sóknarboltinn var afgerandi – sem var gott fyrir fótboltann. Seinni hluti sumarsins var einnig mjög skemmtilegur, mikil spenna allt til loka sem endaði með alveg ótrúlegri dramatík. Ég var svo heppinn að fá að taka þátt í þeirri dramatík þar sem að ég dæmdi leik Fylkis og FH í Árbænum í loka umferðinni. Stemmingin var mögnuð og virtist ekki skipta máli hvort skorað var í Árbænum eða Keflavík því fögnuður stuðningsmanna liðanna var fáranlegur, - rólegt í Árbænum en samt fögnuðu stuðningsmenn FH-inga ákaft þegar Framarar skoruðu í Keflavík. Við lokaflaut urðu FH-ingar Íslandsmeistarar og vil ég óska þeim til hamingju með þeirra árangur sem og KR-ingum fyrir Bikarmeistartitilinn.
Hvað okkur dómarana varðar þá urðu að mínu mati nokkrir leikmenn, þjálfarar og forráðamenn liða sér og sínum til skammar eftir að hafa farið “rúmlega” framúr sér í afar innihaldslausum og ómerkilegum ummælum þar sem þeir létu í ljós óánægju sína hvað varðar störf okkar. Ég vil koma sérstaklega á framfæri að dómarar eru svo sannarlega ekki yfir gagnrýni hafnir en sem fagmenn þá er alveg óþolandi að þurfa að upplifa ár eftir ár eitthvert skítkast og dónaskap í fjölmiðlum þar sem dómarar eru sakaðir um óheiðarleika og svindl. Leikmenn, þjálfarar og forráðamenn liða eru fagmenn og við dómarar sýnum þeim kurteisi og reynum ávallt að láta þá njóta sín sem eiga – við erum aðeins að reyna að gera fótboltann skemmtilegri. ÉG VIL SJÁ AÐ MEIRI VIRÐINGU FYRIR STÖRFUM DÓMARA. Menn átta sig ekki alltaf á því að án dómara er enginn leikur – því miður………. Þess vegna þarf að fjölga dómurum og reyna sameiginlega að finna efnilega unga dómara til framtíðar – Jú, upprenni dómara er alltaf frá félögunum komið.
Erlent:
Það verður að segjast eins og er að árið 2008 hefur verið eftirminnilegasta árið mitt á 11 ára ferli mínum sem FIFA-dómari. Það voru mjög margir leikir sem ég dæmdi erlendis og einnig þurfti ég að sækja fjölmargar ráðstefnur, námskeið og þolpróf. Fyrsti leikurinn var í febrúar í UEFA Cup og svo fylgdi í kjölfarið fjölmargir aðrir leikir og endaði svo síðla haust á hápunkti míns ferils að fá að dæma leik í Meistaradeildinni. Sú upplífun verður klárlega seint toppuð, að fá að starfa að leik í bestu deild í heimi var ólýsanleg tilfinning.
Einnig verð ég að nefna að ég var valinn til að starfa sem einn af 4.dómurum í úrslitakeppni Evrópumóts landsliða í Sviss/Austurríki í sumar og var það gríðarleg viðurkenning og alveg ævintýraleg upplifun. Ábyrgð okkar var mjög mikil í starfi dómarateymisins og mun meiri en marga grunar. Það verður að segjast að þessi úrslitakeppni er sennilega ein best dæmda keppnin sem hefur verið haldin og benda öll ummæli og faglegar umræður þjálfara leikmanna og annara sem koma að keppninni að svo hafi verið. Það hefur verið alveg meiriháttar að takast á við alla þessa leiki og er það mikil forréttindi að fá tækifæri til þess, en að baki er líka gríðarleg vinna og sannast það forna að “ Með viljann að vopni er allt hægt”. Í lok desember var mér svo tilkynnt formlega að ég hafi verið færður upp um flokk í styrkleikaröð dómara í Evrópu og er það mikil viðurkenning sem og drifkraftur fyrir komandi ár sem verður án efa jafn ef ekki skemmtilegra en það sem er að líða. Maður klárar brekkuna og fer alla leið…………………..
Pálmi Rafn Pálmason
Leikmaður Stabæk og íslenska landsliðsins
Innlent:
Frábært gengi kvennalandsliðsins stendur upp úr. Mögnuð barátta og dramatískur endir á Íslandsmótinu hjá körlunum, FH verðugir meistarar. Frábær byrjun okkar Valsmanna á árinu sem dalaði síðan fullmikið. 12 liða úrvalsdeild karla í fyrsta skipti, skref upp á við fyrir íslenska knattspyrnu. Hræðilegt fall Völsungs niður í 3. deild, sorgardagur.
Erlent:
Fyrir mér var meistaratitill Stabæk ansi eftirminnilegur. Sorgleg en að sama skapi frábær félagaskipti Veigars Páls til Nancy. Sigurganga Man.Utd var víst skítsæmileg og allt of góð frammistaða Ronaldo. Stórkostlegur sigur Spánverja á EM.
Egill Helgason
Sjónvarpsmaður
Hápunkturinn hjá mér er tvímælalaust að sex ára sonur minn fór að æfa fótbolta með gamla góða KR og er geysilega áhugasamur um íþróttina. Hann stundar knattæfingar á heimilinu, við litlar vinsældir móður sinnar. Þar sem við dveljum í Grikklandi hluta úr sumri er spurning hvort ég þurfi líka að skrá hann í Olympiakos.
KRingar unnu bikarinn og Evrópumótið var ágætt, Spánverjar voru örugglega með besta liðið og áttu skilið að vinna.
Kreppan veldur því að maður sér smávon um að heljartök peninganna á fótboltanum fari að linast aðeins. Maður trúir því reyndar ekki en leyfir sér að vona.
Sævar Þór Gíslason
Markakóngur 1.deildar
Innlent:
Það sem hefur staðið uppúr á árinu sem er að líða að mínu mati er að sjálfsögðu frábær árangur Íslenska kvennalandsliðsins sem náðu þeim stórglæsilega áfanga að komast á stórmót í fyrsta skipti.
Einnig var þetta gríðarlega eftirminnilegt sumar fyrir okkur Selfyssinga, þar sem að við náðum besta árangri okkar í langan tíma í sumar. Sumarið var gríðarlega skemmtilegt og spennandi og árangurinn frábær. Og rétt að óska Vestmannaeyingum (aftur) til hamingju með sigurinn í deildinni og úrvalsdeildarsætið á næsta ári.
Það kom mér líka á óvart hversu mínir gömlu félagar í Fylki voru slakir þrátt fyrir sterkan leikmannahóp og miklar væntingar, þeim vantaði sárlega alvöru markaskorara og alvöru liðsheild :-)
Svo er líka ótrúlegur endir á Íslandsmótinu í úrvalsdeild karla, og það var ótrúlegt að sjá hvernig Keflvíkingar misstu þetta frá sér á lokasprettinum, og það er rétt að enda innlendu upprifjunina á að óska FH ingum til hamingju með titilinn.
Erlent:
Þar kemur að sjálfsögðu fyrst upp í hugann Meistaradeildartitillinn hjá mínum mönnum í Man. Utd. ásamt hinum titlunum sem þeir tóku þetta árið. Það má með sanni segja að Meistaradeildartitillinn hafi komið "heim" á ný....
Guðmundur Hilmarsson
Blaðamaður á Morgunblaðinu
Innlent:
Árangur kvennalandsliðsins var magnaður og gaman að sjá metnaðinn hjá stelpunum og það hugarfar sem þær eru með upp til hópa. Sigurður Ragnar Eyjólfsson á mikið hrós skilið. Það voru margir sem brostu út í annað þegar Sigurður kom fram og sagði að ekkert kæmi annað til greina en að komast í lokakeppnina en hann stóð svo sannarlega við stóru orðin og ég vænti mikils af liðinu á nýju ári.
Þá er ánægjulegt að sjá að karlalandsliðið er að rétta úr kútnum eftir magurt gengi undanfarin ár. Handbragð míns gamla þjálfara Óla Jó er farið að sjást á liðinu og vonandi nær hann að byggja ofan á það sem hann hefur gert með liðið ásamt sínum góða aðstoðarmanni, Pétri Péturssyni.
Landsbankadeild karla var sérlega skemmtileg. Tólf liða deildin fór svo sannarlega vel af stað og þeir sem höfðu efasemdir að deildin rúmaði svona mörg lið hljóta að sjá að þeir höfðu rangt fyrir sér. Fyrir mig FH-inginn endaði mótið á sérlega skemmtilegan hátt og það var upplifun sem seint gleymist að vera í Árbænum í lokaumferðinni þegar Fimleikafélagið uppskar Íslandsmeistaratitilinn á dramatískan hátt. Til að gera þetta svo enn skemmtilega átti ég fulltrúa á verðlaunapallinum en eitt afkvæmi mitt, Viktor Örn, komst í leikmannahópinn í sumar og mun vonandi láta að sér kveða á komandi sumri.
Erlent:
Englandsmeistarar, Evrópumeistarar og nú síðast heimsmeistarar. Manchester United er lið ársins og toppar allt á erlendum vettvangi. Fyrir mig sem hefur haldið með þessu liði frá því ég man eftir mér er árið afar eftirminnilegt og í líkingu við árið 1999 þegar liðið vann þrennuna eftirsóttu. Sir Alex Ferguson er besti knattspyrnuþjálfari allra tíma og ég vil nota tækifærið og óska honum hamingju með 67 ára afmælið sem hann hélt uppá á gamlársdag.
Sigur Spánverja á EM er mér eftirminnilegur og ekki síst í ljósi þess að ég var staddur á Spáni í fríi á meðan á mótinu stóð og það var magnað að verða vitni að sigurgleði Spánverjanna.
Birkir Már Sævarsson
Leikmaður Brann og íslenska landsliðsins
Innlent:
Það sem stendur uppúr í mínum huga er slök spilamennska Skagamanna og að lokum fall þeirra úr deildinni sem og frábær árangur Keflvíkinga. Einnig er fyrri hluti ársins mjög eftirminnilegur en þá unnum við Valsmenn nánast allt sem við tókum þátt í. Fyrir mig persónulega var gríðarlega eftirminnilegt að spila landsleik með föðurbróður mínum, Gunnleifi Gunnleifssyni, og svo að lokum það að komast út til Noregs í atvinnumennsku.
Erlent:
Frábær spilamennska Spánverja á EM stendur mest uppúr að mínu mati. Einnig var sigurmark Pálma Rafns á Brann stadion eftirminnilegt þar sem hann tryggði sínum mönnum titilinn um leið. Og sem fyrr olli slök frammistaða Leeds United mér vonbrigðum þegar þeir klúðruðu tækifærinu að komast upp um deild í úrslitaleik á Millennium stadium í vor.
Guðrún Sóley Gunnarsdóttir
Leikmaður KR og íslenska landsliðsins
Innlent:
Þegar KR-ingar urðu bikarmeistarar í karla- og kvennaflokki í sumar.
Einstaklega skemmtilegt ár hjá kvennalandsliðinu sem endaði með því að við tryggðum okkur sæti á EM næsta sumar í vægast sagt skrautlegum leik á skautasvellinu í Laugardal.
Erlent:
Skemmtilegast fannst mér þegar Spánverjar urðu Evrópumeistarar með Torres fremstan í flokki. Það var líka einstaklega ljúft að vinna pottinn í EM-keppni meistaraflokks kvenna í KR og ná þar með að slá við miklum fótboltaspekingum.
Hjörvar Hafliðason
Starfsmaður Íslenskra getrauna
Innlent:
Hápunkturinn innanlands var vitaskuld sigur FH í deildinni. Mikið afrek hjá Heimi Guðjónssyni þjálfara sem skilaði titli strax á fyrsta ári sem þjálfari. Það er hins vegar ekki hægt að skilja við Íslandsmótið án þess að minnast á vítaspyrnuna sem var ekki dæmd í Keflavík þegar liði tapaði fyrir Fram í lokaumferðinni. Ég er sannfærður um að ef að dómarinn hefði dæmt eins og hann átti að gera þá hefðu þeir Suðurnesjamenn unnið dolluna. En svona er boltinn.
Knattspyrnuárið 2008 var í einu orði sagt ógeðslegt í Kópavoginum, Breiðablik með gott lið náði aðeins 8. Sæti og HK féll. Það var sorglegt að ÍA skildi falla. Það er leiðinlegt fyrir deildina að þeir gulklæddu verði ekki þar að ári. Mál ÍH og KSÍ er eitthvað það furðulegasta sem ég man eftir. Aðkoma Tindastóls að því máli er vægast sagt undarleg og ég skil ekki afhverju Geirmundur Valtýs og félagar voru með þessi leiðindi. Úrslit í fótbolta eiga að ráðast á vellinum og þó Mikael Nikúlásson sé ágætur þjálfari þá held ég að það hafi engu breytt um úrslit leiksins þó hann hafi verið að blandað sér kaffi í einhverju skítugu vallarhúsi rétt fyrir leik.
Kvennalandsliðið komst á EM eins og gert var ráð fyrir. Það verður spennandi að fylgjast með þeim næsta sumar í Finnlandi.
Erlent: Það eru í raun og veru tvö örð sem lýsa knattspyrnuárinu erlendist í stuttu máli... Manchester United. Árið var einstakt hjá Englands, Evrópu og Heimsmeisturnum. Cristiano Ronaldo stimplaði sig inn sem besti knattpyrnumaður heims um þessar mundir. En heilinn bak við þetta allt er Sir Alex sem varð 67 ára á gamlárdag. Skál fyrir honum.
Það var synd fyrir knattspyrnuáhugamenn um allan heim að Þýskaland skildi ekki vinna Evrópukeppni landsliða í sumar. Liðið sá um að skemmta áhorfendum allt frá fyrstu mínútu í mótinu og leikirnir gegn Portúgal og Tyrklandi voru líklega þeir bestu í keppninni. En því miður tapaðist úrslitaleikurinn og sambastrákarnir frá Þýskalandi fengu aðeins silfrið.
Ráðningin á Diego Maradona sem þjálfara Argentínu er einn af hápunktum ársins. Það er gott að fá svona karakter í fótboltann og glæða leikinn lífi. Nútíma fótbolti er stútfullur af klisjugjörnum leiðinlegum týpum og því gott að fá Diego til að hrista upp í þessu.
Af Íslendingum erlendis þá var það mikið afrek hjá Hermanni Hreiðarssyni að verða fyrstur Íslendinga til að verða bikarmeistari í Englandi. Grétar Rafn Steinsson er búinn að stimpla sig inn í enska boltann með látum og eflaust fara einhver stórlið að fylgjast náið með kappanum. Eiður Smári hefur öðlast nýtt líf hjá Barcelona við þjálfaraskiptin. Veigar Páll var kóngurinn í Noregi enn eitt árið og gaman fyrir hann að ljúka árinu með félagaskiptum í franska boltann! Þá var það sérstaklega skemmtilegt að Guðjón Þórðarson skildi fá starfið hjá Crewe á dögunum.
Daníel Laxdal
Fyrirliði Stjörnunnar
Innlent:
Það er tvennt sem stendur upp úr á árinu 2008 og þetta tvennt var mikið gleðiefni fyrir íslensku þjóðina. Eitt af þessu er að Íslenska Kvennalandsliðið komst á EM sem verður haldin á Finnlandi á næsta ári sem verður að teljast frábær árangur. Hitt atriðið var hinsvegar atburður sem að allir geta verið sammála um, 20.september, á Haukavellinum, Stjarnan komst upp í úrvalsdeild eftir nokkurra ára fjarveru. Dagur sem maður mun aldrei gleyma.
Erlent:
Það er merkilegt hvað Chelsea getur hreinlega ekki unnið vítaspyrnukeppni en förum ekki nánar út í það. Gleðifréttirnar eru hinsvegar að Guðjón Baldvinsson skrifaði undir samning við sænska liðið GAIS og við óskum honum góðs gengis með það.
Henry Birgir Gunnarsson
Blaðamaður á Fréttablaðinu
Innlent:
Loksins tólf liða Landsbankadeild og það sýndi sig svo um munaði að þetta skref hefði mátt stíga fyrr. Miklu skemmtilegri bolti, fleiri lið þorðu að sækja og mikið fjör. Heimir Guðjónsson stóð uppi sem sigurvegari sem kom undirrituðum ekki á óvart. Þorvaldur Örlygsson kom held ég allra manna mest á óvart með mögnuðum árangri hjá Fram. Sá árangur var í raun kraftaverki líkastur. Þorvaldur blés lífi í liðið lík og gerði gott betur en það.
Keflavík fékk þyngsta pungsparkið í íslenska boltanum síðan FH 1989 og verður mjög áhugavert að sjá hvernig næsta sumar verður hjá þeim. Hugmyndafræði Guðjóns Þórðarsonar beið algjört skipbrot og það kom öllum á óvart. ÍA var spáð ofar en getan sagði til um, eingöngu vegna þjálfarahæfileika Guðjóns.
Árið hjá karlalandsliðinu var mjög jákvætt. Fullt af æfingaleikjum fyrir Óla sem hafa skilað sér. Leikgleði aftur komin í leik landsliðsins og það ánægjulegasta af öllu er að maður trúir því í einlægni að leikmenn nenni þessu aftur. Það var ekki þannig því miður. Landsliðið er á hraðri uppleið á ný. Óli fær klapp á bakið. Leikurinn í Glasgow 1. apríl verður mjög áhugaverður.
Stelpurnar kláruðu sitt og gerðu það með sóma. Stóru afrekin unnu þær þó 2007. Þær stóðu síðan vel undir væntingum í ár. Töpuðu fyrir Frökkum en kláruðu lakari liðin á pappírnum sem er að sjálfsögðu ekki alltaf sjálfgefið. Ótrúlegar framfarir hjá stelpunum síðustu árin og framfarirnar verða meiri í ár þar sem fjöldi stelpna er á leið í víking.
Það verður samt ekki skilið við þetta fótboltaár án þess að minnast á sukkið og ruglið í kringum byggingu eins lélegasta heimavallar Evrópu, Laugardalsvallar. Framúrkeyrslan og ruglið sem þar var í gangi er lyginni líkast. 12 milljón króna varamannaskýli og að mig minnir 4 milljón króna handriði segir allt sem segja þarf. Niðurstaðan eftir þetta peningasukk er samt grátlegast af öllu – jafn andlaus, ef ekki andlausari, heimavöllur. Þessir peningar fóru meira og minna í kamarinn að mínu mati.
Erlent:
Manchester United er einfaldlega lið ársins og Ronaldo leikmaður ársins. Einstakt tímabil. Er til efs að hann eigi eftir að toppa þetta ár á ferlinum.
EM fannst mér ekki alveg nógu skemmtilegt, gerði mér vonir um meira. Líka mikil vonbrigði að Bjarni Fel skyldi ekki hafa fengið að lýsa leik.
Magnús Gylfason
Sérfræðingur í Landsbankamörkunum
Innlent:
Þá er það tvímælalaust árangur kvennalandsliðsins sem tryggði sér þáttöku í lokakeppni Evrópu. Og lokabarátta Keflavíkur og FH sem endaði með sigri FH á einu mest spennandi Íslandsmóti sem menn muna eftir.
Erlent:
Fyrir mig endalaus sigurganga Man Utd sem sigraði Ensku deildina, Meistarakeppni Evrópu og urðu svo Heimsmeistarar félagsliða, og ein besta framganga eins leikmanns á einni leiktíð sem ég hef heyrt af ! þar að segja Cristiano Ronaldo að vinna þetta allt og skora 42 mörk sem miðjumaður og vinna líka öll einstaklingsverðlaun sem voru í boði held að þessi árangur verði seint toppaður !
Leifur Garðarsson
Þjálfari Víkings R.
Innlent:
Það var af nógu að taka á árinu 2008 hvað knattspyrnuna varðar eins og endranær.
Hvað mig persónulega varðar þá lifir 28. ágúst 2008 eitthvað áfram í minningunni, hvað varðar sorglega framkomu stjórnarmanna Fylkis í minn garð þann dag eftir þriggja ára starf. Auðvitað skipta menn út þjálfurum eins og gengur og ég ekkert yfir það hafinn, en jafnljóst að einhverjir þurfa að taka sig á í mannlegum samskiptum. En ég eignaðist marga góða vini í Árbænum og tek með mér góðar minningar þaðan.
En það að hætta hjá Fylki opnaði síðan möguleika fyrir mig að taka við liði Víkings. Flottur klúbbur Víkingur með góða framtíðarmöguleika. Sannarlega heiður að fá að taka þátt í því verkefni að vekja þann sofandi risa.
Þá varð Garðar Ingi sonur minn, bikarmeistari með 2. flokki FH eftir sigur á KR vellinum og það er eftirminnilegt og skemmtilegt.
Frábær árangur Heimis Guðjónssonar, með aðstoð Jörundar Áka Sveinssonar, á sínu fyrsta ári sem þjálfari FH stendur einnig uppúr. Held að margir átti sig ekki alveg á hversu góður sá árangur er í raun og veru.
Ekki má gleyma að nefna árangur kvennalandsliðsins undir stjórn Sigga Ragga og útrás(má nota það orð !!) Hólmfríðar, Margrétar Láru og fleiri stúlkna í kjölfarið.
Þá var gaman að fylgjast með flottri vinnu Óla Jó vinar míns með karlalandsliðið og gaman að fá að taka þátt í þeirri vinnu með því að skoða andstæðingana liðsins.
Erlent:
Af erlendum vettvangi er það helsta sem kemur upp í hugann frábær úrslitaleikur í meistaradeild Evrópu og því tengdu góður árangur Manchester United á árinu. Magnaður árangur hjá kallinum Ferguson, hann er ótrúlegur.
Sigur Spánverja á Þjóðverjum á EM eftir skemmtilega keppni er líka eftirminnilegur.
Endurkoma Jose Mourinho er hann tók við liði Inter frá Milanó. Alltaf líf í kringum kallinn og hefur verið gaman að fylgjast með honum á RAI sport stöðinni í vetur.
Síðan verð ég auðvitað að nefna fínt tímabil hjá Everton. Ég dvaldi þar í 10 daga eins og ég geri árlega og David Moyes er frábær knattspyrnustjóri og ekki síðri þjálfari. Uppbyggingin þar gengur vel og liðið farið að spila betri og betri fótbolta með hverjum leiknum.
Vil síðan nota tækifærið til að óska knattspyrnufólki nær og fjær gleðilegra jóla, árs og friðar.
Stefán Logi Magnússon
Markvörður KR
Innlent:
Fyrst og fremst þá er ég gríðarlega stoltur yfir því að vera Íslendingur og KR-ingur, ekki bara vegna þess að félagið er staðsett í vestur hluta Reykjavíkur og stofnað 1899, heldur vegna þess að það er svo stór hluti af íslenku íþróttamannlífi hvort sem um er að ræða fótbolta, borðtennis, handbolta, körfubolta, keilu, pílu, badminton, taekwondo, sund, skíði, glímu eða einhverja aðrar íþróttir sem kunna að vera starfræktar innann félagsins.
Á tímum eins og nú blasa við okkur Íslendingum er gott að hugsa til þess að vera hluti af einhverju þar sem félagsskapur, samheldni, vinátta, metnaður og gagnkvæm virðing myndast og viðhelst.
Miðað við flest það sem ég hef upplifað hjá KR, þar með talið fólkið sem kemur að félaginu og ekki má gleyma sögunni sem KR á að baki, þá finnst mér gott að vita að ég er partur af þeirri sterku heild sem er og kemur til með að vera í Vesturbænum um komandi ár í gegnum súrt og sætt.
Öll íþróttafélög, meðlimir þeirra sem og bara allir Íslendingar þurfa nú að standa sem ein heild og reyna vinna meira saman að því halda einhverri ákveðinni stefnu lengur en í örfáa mánuði í senn svo það skili tilsettum árangri. En auðvitað gerast góðir hlutir hægt og því þarf smá þolimæði.
En svo ég snúi mér nú að máli málanna knattspyrnusumarinu 2008
Við KR-ingar enduðum þegar uppi var staðið í 4.sæti deildarinnar með 39 stig en hefðum vitaskuld viljað enda efstir, en slagurinn stóð á milli Keflavíkur og Fimleikafélags Hafnarfjarðar þar sem þeir síðari nefndu urðu Íslandsmeistarar og voru þeir vel að því komnir enda með góðann mannskap og frábært þjálfara teymi (sem reyndar fannst KR vera með besta mannskapinn).
Knattspyrnudeild KR varð tvöfaldur bikarmeistari í haust. Stelpurnar byrjuðu á því að vinna Val 4-0 þann 20.september og svo lögðum við karlarnir Fjölni 1-0 í bráðfjörugum sólskinsleik þann 4. október.
Þvílík upplifun og gleði sem endaði með Sálinni í KR-heimilinu langt fram á nótt.
Erlent:
Öll afrek Manchester United eru mér ansi ofarlega í huga þegar ég hugsa til baka. Einnig fannst mér gaman að sjá að Veigar Páll hélt áfram að standa sig vel í norsku deildinni þar sem hann og Pálmi Rafn urðu Norskir-meistarar.
Það má ekki gleyma og hrósa Íslenska kvenna landsliðinu með þann frábæra árangur sem þær hafa þegar náð með því að komast í lokakeppni EM.
Og svo voru handbolta strákarnir hreint framúrskarandi á ólympíuleikunum, ætlaði sjálfur að fljúga út með einkaþotu en fékk því miður ekki fyrirgreiðslu hjá ríkinu þannig að sá draumur rættist ekki en hvað með það ég var bikarmeistari með KR nokkru seinna ;-)
Kristján Guðmundsson
Þjálfari Keflvíkinga
Innlent:
Íslenska landsliðið rétti loks sinn hlut á þessu ári og er það ánægjulegt. Mjög góð úrslit náðust með því að vinna Makedóna hérna heima og er eftirminnilegt af ferðum mínum erlendis að fylgjast með knattspyrnu að sitja á miðjum degi í Makedóniu í 40 stiga hita, í svörtum jakkafötum með bindi að beiðni skoska fulltrúans, á opnum velli og fylgjast með landsleik.... sveitt............
Starf stjórnar KÞÍ hefur verið öflugt á þessu ári, áberandi og góðir fyrirlestrar og samkomur á vegum KÞÍ hafa vakið athygli. Framundan er meiri stefnumótunarvinna hjá stjórn félagsins og má vænta áframhaldandi öflugu starfi þar á bæ. Árangur Fram og Keflavíkur á Íslandsmótinu er athyglisverður. Áhangendur Fram gátu loks komið úr skápunum og glaðst yfir sigrum á knattspyrnuvellinum, svo mörgum að dugði til evrópusætis sem hefur ekki sést í langan tíma í Safamýrinni. ÍR komst loks upp úr 2 deildinni og gerði það með glæsibrag þó ekki tækist þeim að slá met Þórsara frá árinu 2000. það var kominn tími á að ÍR kæmist upp og vonandi bera forsvarsmenn liðsins þá gæfu að haga málum þannig að liðið haldi sæti sínu þar í það minnsta, að ég tali nú ekki um að komast kannski eitthvað lengra !!!
Erlent:
Sigur Spánverja á EM 08 og leikstíll þeirra ásamt fleiri þjóða á mótinu gerði þessa úrslitakeppni þá minnisstæðustu og bestu úrslitakeppni í knattspyrnu í áraraðir, sennilega allt frá HM 86. Leiftrandi samleikur, skyndisóknir og hápressa voru leiðirnar að marki andstæðinganna, þarna sá fólk hvernig knattspyrnu er skemmtilegast að horfa á og áttaði sig jafnframt á því að hægt er að ná árangri í leiðinni.
Úrslitaleikur Meistaradeildarinnar var eins og skrifaður úr sögubók og nostalgían allt um kring. Paul Scholes sem hafði misst af úrslitaleiknum 1999 með United var enn á ferðinni níu árum síðar og það var hann sem skaut United í úrslitaleikinn með sigurmarkinu gegn Barcelona í undanúrslitum, hetjurnar og bestu menn sinna liða, Ronaldo sem fór mikinn á árinu og Lampard sem hafði staðið upp úr hjá Chelsea allan veturinn og hafði misst móður sína nokkrum mánuðum fyrr skoruðu mörk sinna liða í venjulegum leiktíma. Leikurinn hófst rétt fyrir miðnætti að staðartíma í Moskvu og var einstæður rammi um þennan leik sem endaði með vítaspyrnukeppni þar sem John Terry mistókst að skora úr spyrnu sinni og sýndi hann sterk sorgarviðbrögð á eftir.
Talandi um Barcelona, það er stórkostlegt að við íslendingar skulum eiga leikmann í þeirra röðum, miklu stærra held ég en fólk almennt gerir sér gein fyrir.
Frábært knattspyrnuár er að baki...
Gísli Gíslason
Formaður rekstararfélags meistara og 2.flokks ÍA
Innlent: Því er ekki að neita að það eftirminilegasta úr fótboltanum innanlands í ár er engin gleðiminning heldur eitthvað sem ágætt væri að gleyma - en því er nú ekki að heilsa. Fall Skagamanna úr efstu dield í fótboltanum var botnin á döpru sumri. Allt fram til loka maí mátti reikna með ágætu fótboltasumri, en lestin fór af teinunum og allt úr skorðum. Niðurstaðan var fall sem enginn hafði reiknað með. Því er haldið fram að í hvert skipti sem kreppa kemur yfir þjóðina þá falli Skagamenn. Ef það er rétt þá er betra að hafa Skagann í efstu deild - og stefnt er að því að hagur Skagans og þjóðarinnar vænkist á komandi ári. Á botninum gefast tækifæri til viðspyrnu og í endurnýjuðu Skagaliði felast geislar sem verður spennandi að vinna með. Þá er eftirminnilegt og gleðilegt hverngi dóttur minni Hallberu Guðnýju hefur gengið með Val í kvennaboltanum - enn einn Íslandsmeistaratitillinn - og landsliðssæti. Bara gaman - en kvennaboltinn hefur verið á miklu skriði - og nú er mikilvægt að fylla í þau skörð sem kempurnar skilja eftir sig sem halda erlendis. Þá er gaman að sjá framgang Kristins Jakobssonar í dómarastörfunum og óskandi að fleiri taki sér hann til fyrirmyndar.
Erlent:
Frábær Evrópukeppni er minnisstæð og skemmtilegir leikir - þar sem okkar manni Kristni Jakobssyni brá fyrir. Hann kemur vonandi sterkari inn í Suður Afiríku í úrslitum heimsmeistarakeppninnar. Þá var úrslitaeikur Júnæted og Chelsea í Meistaradeildinni að sjálfsögðu þriller - þó svo að ég hefði nú viljað sjá Liverpool í þeim leik. Hinsvegar verður að ljúka þessu á að nefna fulla dómarann í Rússlandi sem fór á kostum þegar hann yfirgaf leikvanginn glaður í bragði - þó svo að það sé ekki til eftirbreytni - og svo að sjálfsögðu "markið" sem Reading skoraði gegn Watford á haustdögum. Ég efast um að rússneski dómarinn hefði bætt stöðu ÍA, en ekki hefði veitt af Readínskum mörkum.
Ómar Smárason
Starfsmaður KSÍ
Innlent:
Stelpurnar okkar eiga þetta ár skuldlaust. Árangurinn er einstakur, enda er þetta í fyrsta sinn sem íslenskt A-landslið tryggir sér sæti í lokakeppni stórmóts. Draumurinn hefur ræst. Þessi leikmannahópur er gríðarlega samstilltur, þær hafa óskaplega gaman af því sem þær eru að gera, eru gríðarlega duglegar, árangursmiðaðar, og síðast en ekki síst þakklátar fyrir að vera í þessari stöðu, þakklátar áhorfendum fyrir stuðninginn og þakklátar hverri annarri og aðstandendum liðsins. Þær bera virðingu fyrir sjálfum sér og öllum sem að þessum árangri koma. Það hefur verið mér sannur heiður að fá að taka smá þátt í þessu með þeim.
Erlent:
Glory, Glory Man United!!! Það var ótrúlega ljúft að vinna tvöfalt í vor, algjörlega ólýsanlegt. Fyrir mér sem United-manni er alltaf mikilvægast að vinna ensku deildina, en ekki síður gaman að vinna Meistaradeildina, og síðan Heimsbikar félagsliða í desember. Úrsliltaleikurinn í Meistaradeildinni var svakalegur. Ég horfði á hann með systur minni og við fórum gjörsamlega á límingunum í vítaspyrnukeppninni, konan mín hefur haldið að við værum gengin af göflunum. Úrslitakeppni EM í sumar var líka mjög eftirminnileg, mikið af óvæntum úrslitum og fyrir mér var mjög óvænt að Spánverjarnir skyldu vinna, enda hafa þeir allajafna floppað á stórmótunum. En þeir voru lang bestir í þessari keppni, það er klárt.
Egill "Gillz" Einarsson
Líkamsræktarfrömuður
Innlent:
Það er tvennt sem stendur aðallega upp úr. Gunnleifur Gunnleifsson loksins valinn í landsliðið. Það hlaut að koma að því, ekki endalaust hægt að refsa mönnum fyrir að vera í HK! Langbesti markmaðurinn sem við eigum.
Það var líka mjög athyglisvert þegar hinn þeldökki leikmaður Prince Rajcomar var bekkjaður hjá Breiðablik þrátt fyrir að vera einn besti senterinn í deildinni. Prince fékk góðæris Range Rover lánaðan frá spikfeita fasteignasalanum Gylfa Gylfasyni og var að skottast um bæinn á honum. Einnig var Prince mjög virkur kynferðislega hér á klakanum en ég veit ekki hvort að það og Range Roverinn hafi spilað inn í bekkjarsetu blökkumannsins.
Erlent:
Auðvitað stendur upp úr þegar við United menn rúlluðum deildinni og meistaradeildinni upp.
Ferð "The Table" þegar við fórum og sáum United menn taka Arsenal menn aftanfrá er líka mjög ofarlega. Það er líka mjög krúttlegt að Liverpool menn haldi í ALVÖRUNNI að þeir séu að fara að vinna titilinn á þessu seasoni, það finnst mér frábært!
Eiríkur Stefán Ásgeirsson
Íþróttafréttamaður á Vísi
Innlent:
Fyrst skal nefna árangur kvennalandsliðsins og ótrúlegan frostleik á Laugardalsvellinum gegn Írum. Það var líklega ótrúlegasti "knattspyrnuleikur" sem ég hef séð. En góður árangur hjá stelpunum sem enginn getur tekið frá þeim eða dregið úr.
Frábært fótboltasumar í Landsbankadeildinni og ótrúlegt klúður Keflvíkinga. Þetta var sigur reynslunnar, fyrst og fremst, hjá FH-ingum. En mikið er ég feginn að ég er ekki Keflvíkingur - þó það sé litlu skárra svo sem að vera Fylkismaður í dag.
Ólafur Jóhannesson átti fínt ár með landsliðinu, sérstaklega í samanburði við síðustu 4-5 ár. Greinilegt að allt annar andi er í liðinu og ég sé fram á enn bjartari tíma hjá karlalandsliðinu undir handleiðslu Ólafs.
KR varð bikarmeistari, verður maður ekki að minnast á það. Margrét Lára var ekki valin best - aftur - sem er ... spes. Skagamenn féllu og ég vil minnast á að félagi minn Magnús Halldórsson spáði því fyrir mót að Gaui Þórðar myndi gera ÍA að Íslandsmeistarum. En Gaui gerði þetta mót vissulega ógleymanlegt - synd að hann skuli vera farinn. Og svo margt fleira ...
Erlent:
ManU vann tvöfalt, Spánn Evrópumeistari, Cristiano Ronaldo frábær og allt það. En ég fylgdist helst með íslenskum knattspyrnumönnum á erlendum vettvangi og ber þar hæst bikarmeistaratitill Portsmouth með Hemma Hreiðars innanborðs. Það var frábært að hann fékk að upplifa drauminn og lyfta bikar á Wembley - sem ekki öllum tekst að gera.
Veigar Páll kórónaði frábært ár með því að ná samningi við Nancy. Hann var lykilmaður í meistaraliði Stabæk og það var mikil synd að liðið yrði ekki bikarmeistari líka.
Grétar Rafn átti hreint frábært ár hjá Bolton og greinilegt að hann á eftir að ná miklu lengra í þessum bransa.
Eiður Smári átti einhvern ótrúlegasta viðsnúning síðari ára - meira að segja á hans skala. Þegar maður hélt að hann væri endanlega búinn hjá Barca kemur nýr þjálfari og blæs nýju lífi í hann. Það er meiriháttar afrek að vinna sér sæti í liðinu þegar mið er tekið af stöðu hans fyrr á árinu.
Þetta var líka árið hans Arons Einars, löngu innkasta hans og Coventry. Hann á líka eftir að ná langt. Svo kom í ljós á síðasta degi ársins að sautján ára Fylkispatti væri allt í einu kominn til Liverpool - það var ótrúlegt. Garðar fór til Búlgaríu sem var líka ... spes. Allur fréttaflutningur af honum og þá aðallega spúsu hans hefur verið afar forvitnilegur. Svo auðvitað að Gaui Þórðar skuli vera kominn aftur í enska boltann. Svo margt fleira en ég læt staðar numið.
Athugasemdir