
Fótbolti.net ákvað í tilefni þess að fótboltaárinu 2008 er nú að ljúka að hafa samband við valinkunna einstaklinga og báðum við þá um að segja okkur hvað þeim þætti eftirminnilegast í knattspyrnunni 2008, bæði hér heima og erlendis.
Hér að neðan má sjá afraksturinn en þetta er fyrri hlutinn af tveimur. Síðari hlutinn birtist síðan á morgun, nýársdag.
Sigurður Ragnar Eyjólfsson
Landsliðsþjálfari kvenna
Innlent:
Mér finnst eftirminnilegast á árinu að hafa fengið að taka þátt í koma A-landsliði kvenna í úrslitakeppni Evrópumótsins. Það stendur upp úr en stefnan er að toppa það strax á næsta ári í úrslitakeppninni. Það var ógleymanlegt að sjá alla leikmenn kvennalandsliðsins uppskera í samræmi við þá vinnu sem þær hafa lagt á sig síðastliðin 2 ár. Stuðningurinn við liðið var frábær á árinu og hátt í 70% þjóðarinnar horfði á liðið á móti Írlandi á Laugardalsvelli. Það eru mikil forréttindi að fá að þjálfa jafn metnaðarfullan hóp leikmanna. Það eru margar hetjur í A-landsliði kvenna og vonandi mun það sjást enn betur í lokakeppni EM í ágúst á næsta ári.
Erlent:
Á erlendum vettvangi fannst mér eftirminnilegast hvað mig sjálfan varðar að útskrifast með Pro licence þjálfaragráðuna frá enska knattspyrnusambandinu. Það nám var bæði langt og strangt en gríðarlega lærdómsríkt, nytsamlegt og spennandi. Það er líka gaman að hafa komið að því að opna leiðina fyrir aðra íslenska þjálfara að sækja sér þetta nám, en sú leið opnaðist snemma í desember á þessu ári.
Tryggvi Guðmundsson
Leikmaður FH
Innlent:
Sigur okkar FH -inga á Íslandsmótinu er klárlega eftirminnilegast. Við vorum einfaldlega betri en Keflavík á endasprettinum og áttu þetta skilið. Tókum þetta kannski á reynslunni enda verið í þessari baráttu áður, ólíkt þeim. Ég náði svo þeim merka áfanga að skora mark númer 100 í efstu deild á árinu og það í einungis 160 leikjum. Krefjandi verkefni að ná Inga Birni (126 mörk) en ég stefni á það, hiklaust!! Einnig fannst mér ljúft að skora 12 mörk og leggja upp 13 í deildinni í sumar. Bætti þar stoðsendingamet síðan byrjað var að taka það saman árið 1992 og var sá fyrsti til að taka tvöfalda tvennu. Er farinn að líkjast stoðsendingakóngnum og stórfélaga Gumma Ben meir og meir J. Í lok árs hafa svo flest öll lið verið að missa menn (kreppan) og fáir að bæta við sig og verður því fróðlegt að fylgjast með gangi mála á næsta ári. Þarna á ég að sjálfsögðu ekki við Valsmenn sem hafa sankað að sér leikmönnum síðan að flautað var til leiksloka í haust, athyglisvert. Lítið verður um útlendinga næsta sumar (þægilegra fyrir þá sem eru að lýsa leikjunum) og vona ég að fleiri ungir íslenskir strákar grípi tækifærið og komi sterkir inn. Landsliðið er svo á uppleið og er það bara jákvætt. Óli Jó er með´etta!
Erlent:
Það sem mér er efst í huga er sigur gömlu félaganna í Stabæk í norsku úrvalsdeildinni í fyrsta skiptið í sögu félagsins. Magnað afrek hjá félagi sem að var í 5.deild fyrir 15-20 árum. Þarna höfum við verið margir Íslendingarnir og gert alveg ljómandi hluti. Veigar Páll átti enn eitt súperseasonið og er loks farinn að spila fyrir landsliðið aftur. Alveg með ólíkindum hvað hann hefur spilað lítið þar síðustu árin miðað við hvað hann hefur verið að gera í Noregi. Kannast svolítið við þetta sjálfur :). Hvað varðar mína menn í Arsenal þá er ég ekki sáttur við stöðu liðsins í dag. Hafa reyndar gert gott mót gegn stóru liðunum en skitið upp á bak gegn liðum eins og Wigan, Hull, Fulham o.sv.fr. Wenger þarf að opna budduna í janúar og þá sértaklega í ljósi þess að Fabregas er lengi frá. Efst á lista á að vera alvöru markvörður, varnartengiliður og framherji, engin no names! Hemmi félagi Hreiðars varð svo bikarmeistari í vor og var það ljúft fyrir drenginn. Átti það svo sannarlega skilið kappinn!!
Benedikt Bóas Hinriksson
Blaðamaður á Séð og Heyrt
Innlent:
Fagn Keflvíkinga á móti FH!
Einkunnir Bjarna Ólafs hjá Fréttablaðinu! Einelti!
Yfirlýsing Simma eftir Valsleikinn!
Yfirlýsing Grétars eftir Skotaleikinn!
Yfirlýsingar Guðjóns Þórðar!
Kvennalandsliðið í heild sinni!
Siggi Raggi!
Leggir Bjarka Freys markmanns í Þrótti! LEGENDERY!
Jói Hreiðars með Dalvíkur liðið! Það kom á óvart!
Karatemark Stebba Gísla!
Að Ingvar haldi áfram með Fram!
Viðar Guðjóns og sumarið!
Mál ÍH!Sól Þórarins Kristjánssonar á Árna Thor!
Að Haukur Ingi kunni að galdra!
Að Selfoss liðið hafi næstum fengið Rolex úr!
Mark Scott Ramsey í fyrstu umferð!
Að Tryggvi hafi fengið gult spjald við að fagna hundraðasta markinu sínu!
Heiðar Helgu! QPR,CHARLTON,QPR,CHARLTON, QPR,CHARLTON,QPR,CHARLTON, QPR,CHARLTON,QPR,CHARLTON, QPR,CHARLTON,QPR,CHARLTON, QPR,CHARLTON,QPR,CHARLTON,QPR!
Erlent:
Joe Kinnear tekur við Newcastle!
Joey Barton og líkamsárásin!
Farsinn í kringum Ronaldo!
Klikkið hjá John Terry!
Djamm Ronaldinho!
Þegar Ronaldo var tekinn með klæðskiptingum!
Þegar Slaven Bilic fagnaði eins og óður maður í 16 liða úrslitum!
Þegar Slaven Bilic var sleginn út sex sekúndum síðar!
Mark Torres í úrslitaleiknum!
Sigur fótboltans þegar Spánn vann EM!
Súpertan Ronaldo!
Að Rooney hafi gengið í hjónaband!
Að Rooney hafi tekið sköfuna á þetta! Það var viðbjóður!
Sölvi Geir Ottesen
Leikmaður Sönderjyske
Innlent:
Baráttan á milli Keflavík og FH um íslandsmeistartitilinn
Erlent::
Árangur Rússlands á EM, dramtískur úrslitaleikur meistaradeildarinnar og magnaður Ronaldo.
Dóra Stefánsdóttir
Leikmaður Malmö og landsliðskona
Innlent:
Leikurinn við Íra á Laugardals-svelli þar sem við tryggðum okkur sæti á EM kvenna er það sem stendur upp úr frá árinu. Stemningin, stuðningurinn og það að ná settu markmiði var ógleymanlegt móment.
Erlent:
Frábært spil Rússanna á EM karla í sumar, þar sem þeir slógu út hverja stórþjóðina á fætur annarri. Með snillinginn Arshavin fremstan í flokki.
Ásmundur Arnarsson
Þjálfari Fjölnis
Innlent:
Fyrir mig persónulega var árið 2008 mjög eftirminnilegt. Fjölnir í fyrsta sinn í efstu deild og endum í 6.sæti. Spiluðum einnig til úrslita í bikarnum 2.árið í röð og var það eftirminnilegur leikur, ekki fyrir mikla skemmtun heldur frekar fyrir snjó og kulda. Seiglan í FH liðinu undir lok móts var mögnuð, sem og árangur Framara.
Óli Jóh virðist á réttri leið með karlalandsliðið sem er vel en líklega er langathyglisverðasti árangur ársins hjá Sigga Ragga og kvennalandsliðinu – frábært hjá þeim.
Erlent:
Tvöfaldur sigur Man Utd er eftirminnilegast sem og lokakeppni EM.
Sigurbjörn Hreiðarsson
Leikmaður Vals
Innlent:
Frá sumrinu hér heima þá stendur uppúr síðasta vikan í mótinu. Áður en hún byrjaði var maður búinn að bóka sigur Keflvíkinga enda með 8 stiga forskot og 9 stig eftir í pottinum fyrir FH. Og það ótrúlega gerðist að FH náði þessu á ótrúlegan hátt, eitthvað sem maður var algjörlega búinn að afskrifa.
Þó það hafi verið langsótt hjá FH að vinna þá áttu þeir það skilið því staðreyndin er að það lið sem fær flest stig hefur verið best yfir mótið og það telur, ekki tímabundnir kaflar.
Við Valsmenn náðum svo ekki að fylgja eftir frábæru undirbúningstímabili og náðum því ekki okkar markmiðum eða að vinna. Reyndar voru mörg skörð höggvin í okkar leikmannahóp, bæði sölur og meiðsli leikmanna sem hafði lamandi áhrif.
Leiðinlegir leikdagar voru líka eitthvað sem kom í veg fyrir að tímabilið næði hámarki og vonandi verður bætt úr því enda vilji leikmanna og margra þeirra sem fylgjast með boltanum að spila á öðrum dögum en sunnu eða mánudögum. Vonandi verður bara hlustað á þann stóra hóp sem vill breytingar.
Karlalandsliðið er svo gleðiefni. Virkileg bæting á leik okkar liðs og mjög gaman að sjá þróunina hjá Óla með liðið.
Einnig frábær árangur kvennalandsliðs okkar sem var frábært og ákveðið tilhlökkunarefni að sjá EM í Finnlandi 2009.
Erlent:
Af erlendum atburðum stendur upp úr sigur Spánverja á EM þar sem knattspyrnan
sigraði bókstaflega. Og auðvitað kemur eyðimerkurganga Liverpool í enska boltanum alltaf á óvart.
Elvar Geir Magnússon
Íþróttafréttamaður á Vísi og forseti KB í 3.deild
Innlent:
Stórskemmtilegt Landsbankadeild og frábær árangur kvennalandsliðsins eru ofarlega á baugi. En hjá mér persónulega var hápunktur ársins í íslenska boltanum klárlega bikarævintýri míns liðs, Knattspyrnufélag Breiðholts. Magnaður 2-0 sigur á 1. deildarliðinu Njarðvík og svo komast í þennan stórleik á KR-vellinum. 1-0 tap fyrir KR í leik þar sem hið tveggja ára félag, KB, átti skot í slá og átti að fá augljósustu vítaspyrnu sem ég hef séð... en dómarinn þorði ekki að dæma! KB var klárlega erfiðasta hindrunin fyrir KR í leið sinni að bikarnum.
Svo er líka eftirminnilegt mark sem Jójó góðvinur minn tók upp á að skora í lokaleik tímabilsins og varð til þess að ég tapaði veðmáli og þurfti að borga ofan í hann stórmáltíð á Rauðará... það var ekki ódýr stund í öllum merkingum.
Erlent:
Það var ekki leiðinlegt að vera stuðningsmaður Manchester United á árinu. Bolurinn ég fékk fína gæsahúð þegar Giggs skoraði í lokaumferðinni og Englandsmeistaratitillinn var í höfn og þegar John Terry rann á rassgatið og opnaði leiðina að Evróputitlinum. Svo var ákveðinn hápunktur þegar Berbatov mætti vatnsgreiddur á Old Trafford, leikmaður sem hefur verið minn uppáhalds síðan hann var að raða þeim inn hjá Bayer Leverkusen.
Elías Ingi Árnason
Markakóngur 2.deildar
Innlent:
Eftirminnilegast fyrir mig persónulega á fótboltaárinu 2008 er að sjálfsögðu markakóngstitillinn í 2.deild. ÍR átti frábært ár, setti stigamet á Íslandsmóti (57 stig) og árangurinn þar fyrir utan var frábær, Reykjavíkur og Deildarbikarmeistarar. Ég á aldrei eftir að gleyma 23.ágúst 2008, leikur gegna Magna frá Grenivík á ÍR-vellinum. Ég fékk 3 vítaspyrnur á síðustu 20 mínútunum og 2 Magnamenn fengu rautt spjald í kjölfarið. Ég tók öll vítin sjálfur og markmaðurinn varði þau öll, stórfurðulegur farsi alveg hreint. Samt tókst mér að skora fjögur mörk í þessum leik.
Það var ýmislegt fleira eftirminnilegt á árinu. Stelpurnar okkar gerðu stórkostlega hluti og það verður frábært að fylgjast með þeim í Finnlandi næsta sumar. Útrásin er hafin hjá þeim, og allar skelltu þær sér til Svíþjóðar. Þetta held ég að muni skila sér í því að Landsliðið mun ná enn betri árangri og að deildin hérna heima verður jafnari en nokkru sinni fyrr.
Í Efstu deild karla var svo alveg svakaleg dramatík í lokin, þar sem Keflvíkingar hreinlega réttu FH-ingum Íslandsmeistara titilinn. FH sýndi mikinn karakter að halda haus í lokavikunni, eftir tapleikinn gegn Fram, og unnu Keflavík, Breiðablik og Fylki.
Fannst löngu orðið tímabært að Gunnleifur Gunnleifsson færi í markið hjá landsliðinu og fagna því að Óli Jó þori að hrista uppí liðinu, enda erum við loksins farin að hafa trú á að landsliðið nái árangri.
Langar einnig að nefna árangur 3.flokks Tindastóls frá Sauðárkróki, þeir fengu aðstoð frá Varmahlíð og Blönduósi og uppskáru silfur á Íslandsmótinu, Bikarmeistaratitil og silfur á mjög sterku móti í Danmörku í sumar. Þar eru margir strákar sem geta náð áframhaldandi eftirtektarverðum árangri í framtíðinni.
Erlent:
Það eftirminnilegasta er Evrópumeistaratitill Spánverja. Loksins sprungu þeir út eftir ansi mörg mögur ár.
Fleira sem stendur uppúr er kannski West Ham martröðin sem er alveg klárlega komin á endastöð og Man City stórveldið sem er framundan.
Elísabet Jökulsdóttir
Rithöfundur
Innlent:
Árangur kvennaliðisins, hvernig þær komust á EM, var glæsilegur, þær voru svo góðar, leikgleðin smitandi og öll umgjörðin til fyrirmyndar.
Hvernig Keflavík klúðraði Íslandsmeistaratitlinum, var eftirminnilegt og Gummi Ben kominn aftur í KR, fyrsti leikmaðurinn sem ég tók eftir þegar ég fór á leik í úrvalsdeild, það var árið 1999, hafði áður bara horft á tvíburana spila.
Erlent:
Svo tókst spánverjum að brjótast í gegnum múrinn og verða evrópumeistarar, frekar magnað að Ronaldo hafi skorað 31 mörk í ensku deildinni, þar sem hann er ekki sóknarmaður enginn skorað svona mörg mörk síðan 1995, af persónulegum mörkum var það markið sem jökull skoraði af 55 metra færi í háskólaboltanum.
Hörður Magnússon
Íþróttafréttamaður á Stöð 2 Sport
Innlent:
Kvennalandsliðið í fótbolta tryggði sér þátttökurétt í lokakeppni Evrópumótsins. Sigurður Ragnar Eyjólfsson getur verið stoltur af stelpunum sínum.
Landsbankadeild karla í fótbolta var ótrúlega skemmtileg og spennandi. Ein æsilegasta lokaumferð í manna minnum og ekki hægt annað en að dást að FH liðinu sem neitaði að gefast upp. 4 Íslandsmeistaratitlar á fimm árum er auðvitað einstakt. En Keflvíkingar eiga einnig samúð mína og minnti á þegar FH tapaði titlinum til KA 1989.
Erlent:
Eitt af augnablikum 2008 er sigurmark Fernando Torres í úrslitaleik Spánverja og Þýskalands. Loksins náðu Spánverjar að landa titili og springa út.
Gunnlaugur Jónsson
Leikmaður og þjálfari Selfyssinga
Innlent:
Frammistaða íslenska kvennalandsliðið í ár stendur upp úr á innlendum vettvangi að mínu mati, verður gaman að sjá loksins íslenskt fótboltalið í úrslitum á stórmóti og Sigurður Ragnar nær þessum árangri í sínu fyrsta þjálfarastarfi sem er magnað. Karlalandsliðið er einnig á uppleið undir stjórn Óla Jóh.. Heimir Guðjónsson stimplar sig inn sem þjálfari á sínu fyrsta ári með FH og íslandsmeistaratitill, takk fyrir. Keflavík stóð sig einnig vel en missti flugið þegar það mátti ekki við því og FH gekk á lagið.
Fótboltaárið mitt var algjör rússibani, undirbúningstímabilið gekk þokkalega og formið bara með besta móti, 5 dögum fyrir fyrsta leik meiddist ég á æfingu og spilaði á annarri löppinni í fyrstu leikjum KR liðsins, afrakstur liðsins fjögur töp í fyrstu sex leikjunum. Fyrstu alvarlegu meiðslin á ferlinum staðreynd. Ég var svo frá næsta mánuðinn eða svo, KR liðið hrökk í gang á meðan og var nánast ósigrandi og þegar ég kom til baka var ekkert annað í stöðunni að taka sér sæti á bekknum góða. Ég spilaði svo 3 síðustu deildarleiki liðsins en vermdi bekkinn í stærsta leik ársins bikarúrslitum. KR vann leikinn í leik sem verður seint talinn eftirminnilegur. Eftir tímabilið rann svo samningur minn út hjá KR en eftir að hafa skoðað nokkra möguleika þá kom Selfoss til skjalanna og ég ákvað að taka við þjálfun liðsins. Undirskriftin bar upp sama dag og tvær aðrar goðsagnir skrifuðu undir sem þjálfarar, Tony Adams hjá Portsmouth og sjálfur Maradona hjá Argentíska landsliðinu. Mjög spennandi verkefni sem ég hlakka mikið að takast á við á nýju ári.
Framundan eru miklar breytingar í fótboltanum í takt við hið gríðarlega efnahagslega óveður sem skekur landið, það er búið að vera mikið skrið í launagreiðslum undanfarin ár og umgjörðin alltaf að verða glæsilegri en nú þurfa lið að skera það mikið niður og spurning hvað það tekur liðin langan tíma að aðlaga sig að breyttu umhverfi. Nú þurfa liðin að leggja meiri rækt við uppeldið og ljóst að mun færri útlendingar munu spila hér á landi á næstu árum. Auk þess er þjálfarastéttin að yngjast og tel ég það jákvætt. Það eru semsagt mjög breyttir tímar framundan í íslenska boltanum.
Erlent:
Það eftirminnilegasta var sigur Spánar á EM, loksins toppuðu þeir á réttum tíma og þvílíkt frammistaða. Manchester United kórónaði frábært tímabil með því að sigra Meistaradeildina eftir að hafa tryggt sér enska titilinn annað árið í röð. Eiður Smári nær enn og aftur að aðlagast aðstæðum og þegar allir héldu að hann ætti ekki framtíð hjá stórliði Barcelona þá afsannaði hann það og hefur fest sig í sessi í uppbygginu Pep Guardiola nýjum stjóra Barca. Það er einnig frábært að sjá hvernig hann hefur náð að gjörbreyta leik liðsins á ekki lengri tíma og árangurinn eftir því.
Lúka Kostic
Þjálfari U21 og U17 ára landsliða karla á árinu
Innlent:
Það er frábær árangur A landsliðs kvenna. Stelpurnar og þjálfarar voru að standa sig frábærlega allt árið, frá æfingarmóti á Spáni alveg fram að síðustu leikjunum á móti Írum. Allir saman voru ákveðnir að ná marmkiði og það skipti engu máli hvort var spilað heima eða erlendis í miklum hita eða kulda eins og var í síðasta leik. Það var virkilega gaman að fylgjast með liðinu.
Kristinn Jakobsson á hrós skilið fyrir einstakan árangur að ná sögulegum áfanga að dæma í Meistaradeildinni og standa sér frábærlega.
Erlent:
Mjög skemmtilegt Evrópu mót og lið Spánverja sem vann mót spilaði skemmtilega knattspyrnu sem allir hafa gaman að horfa á.
Guðlaugur Tómasson
Umboðsmaður
Innlent:
- Árangur íslenska kvennalandsliðsins, að komast í lokakeppni EM var frábær árangur.
- Sigur FH á Íslandsmóti karla á síðustu metrunum, þar var það hefðin og reynslan sem hafði betur að lokum í harðri baráttu við Keflavík.
Erlent:
- Glæsilegur sigur Man Utd í Meistaradeildinni, held að John Terry jafni sig aldrei almennilega eftir að hafa klúðrað vítaspyrnunni afdrífaríku.
- Sigur Spánar á EM 08.
Óskar Ófeigur Jónsson
Blaðamaður á Fréttablaðinu
Innlent:
Þetta var að mörgu leyti mjög eftirminnilegt og sögulegt knattspyrnuár þar sem kvennalandsliðið komst í úrslitakeppni EM fyrsta íslenskra A-landsliða í fótbolta og fjölgunin í úrvalsdeild karla tókst mjög vel. Það er tvö góð dæmi að íslensk knattspyrna sé í mikilli sókn.
Kvennalandsliðið var lið ársins en þetta ár er vonandi aðeins upphafið að einhverju ennþá stærra á árinu 2009. Það var gaman að sjá hversu mikinn metnað þessar stelpur eru komnar með og það er frábær þróun að sjá alla þessa góðu leikmenn ætla sér að verða ennþá betri í EM í Finnlandi með því að leggjast í víking og komast að hjá sterkum liðum í sænsku úrvalsdeildinni.
Snjórinn kom mikið við sögu í haust og það ótrúlega gerðist að það þurfti að moka þjóðarleikvanginn tvisvar sinnum með tæplega mánaðarmillibili. Stelpurnar lentu síðan í því að spila mikilvægasta landsleik Íslands til þessa á gaddfreðnum Laugardalsvelli en afgreiddu það verkefni af einbeitingu og yfirvegun.
Fjölgunin í úrvalsdeild karla tókst mjög vel og spennan í baráttunni um Íslandsmeistaratitilinn hélst alveg fram á lokamínúturnar. Það var mjög eftirminnilegt þegar FH-ingar tóku titilinn af Keflavík á lokasprettinum þrátt fyrir að vera átta stigum á eftir þeim aðeins einni viku áður.
Bikarúrslitaleikurinn í kvennaboltanum var mjög eftirminnilegur þar sem KR-konur afgreiddu nýkrýnda Íslandsmeistara Vals á stórglæsilegan hátt með 4-0 sigri. Það var líka mjög athyglisvert að Þórunni Helgu Jónsdóttur hafi tekist að verða bikarmeistari á Íslandi og í Brasilíu á sama árinu sem er afrek sem seint verður leikið eftir.
Erlent:
Ég samgladdist mikið Hermanni Hreiðarssyni þegar hann vann sinn fyrsta titil eftir áratug í enska boltanum en það var jafnleiðinlegt að honum hafi ekki tekist að vinna sér sæti í Portsmouth-liðinu á þessu ári. Hermann átti hinsvegar mikinn þátt í að rétta við gengi karlalandsliðsins. Hermann tók við fyrirliðastöðunni, blómstraði í miðverðinum og nú getum við loksins hætt að skamma okkur fyrir íslenska karlalandsliðið.
Eiður Smári Guðjohnsen sýndi á sér margar hliðar á árinu en jöfnunarmarkið á móti Norðmönnum í Osló er í mínum huga eitt eftirminnilegasta mark Íslendings á árinu. Það var líka eftirminnilegt að sjá Íslending byrja inn á hjá Barcelona í Clasico-leik á Nou Camp og um leið gott að geta eitt út minningunni frá því í maí þegar honum var skipt útaf eftir aðeins 23 mínútur á Bernabéu.
Mér fannst mjög gaman að sjá Spánverja vinna langþráðan sigur á stórmóti þegar þeir unnu EM og það var gaman að horfa á svona skemmtilegt fótboltalið vinna Evrópumeistaratitilinn eftir leiðindi Grikkjanna fjórum árum áður. EM-keppnin var líka skemmtileg og það var ótrúlegt hvað maður saknaði lítið enska landsliðsins.
Vítaspyrnukeppnin í úrslitaleik Meistaradeildarinnar var ógleymanleg ekki síst þegar John Terry, fyrirliði Chelsea, rann á hausinn þegar hann gat tryggt sínu liði sigur í Meistaradeildinni. Mér þótti það líka einstaklega vel við hæfi að það skildi vera reynsluboltinn Ryan Giggs sem tryggði Manchester United bæði enska titilinn og sigur í Meistaradeildinni.
Athugasemdir