Barcelona og Man City vilja Olmo - Liverpool gæti reynt við Kudus - Chelsea og Barcelona hafa áhuga á Dybala
   fim 04. október 2012 09:00
Tómas Leifsson
Pistill: Pistlar á Fótbolta.net eru viðhorf höfundar og þurfa ekki endilega að endurspegla viðhorf vefsins eða ritstjórnar hans.
Ef og hefði
Tómas Leifsson
Tómas Leifsson
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Næstu daga munu leikmenn liða í Pepsi-deildinni gera upp sumarið með því að koma með pistil hér á Fótbolta.net. Í dag er komið að Selfyssingum en Tómas Leifsson gerir upp sumarið þeirra í pistli hér að neðan.



Fall er staðreynd á Selfossi. Því miður. Svona endaði þetta og ég er ekki frá því að maður sé ennþá með óbragð í munninum því að mínu mati var Selfoss liðið í sumar of gott til að falla. En svona er þetta víst. Við byrjuðum vel þar sem við unnum t.d. Vestmannaeyjar og Fram. Þetta leit ágætlega út en eftir að við köstuðum frá okkur unnum leik gegn Grindavík í 5. umferð má segja að slæma gengið hafi byrjað svo ekki sé meira sagt. Við áttum þó marga fína leiki en líka nokkra slaka. Tapið gegn Þrótti í bikarnum var skelfilegt og botninum var náð eftir 4-0 tap upp á Skaga.

Eftir þetta fór þetta þó að ganga aðeins betur og segja má að eftir verslunarmannahelgi hafi liðið loksins farið af stað. Við unnum Fram og Grindavík heima nokkuð sannfærandi og tókum gott stig í Kópavoginum. Sigurinn gegn KR í 18. umferð var einnig gríðarlega sætur.

Á þessum tímapunkti var liðið komið á gott skrið og leit virkilega vel út. Þá kom að þessum mikilvæga leik í Árbænum. Ég held að öll lið geti sagt frá einhverjum leikjum í sumar þar sem þau fengu slaka dómgæslu en ekkert lið fékk þessa tegund af dómgæslu og við í þeim leik. Leikurinn var eyðilagður af hálfu dómarans og fengu Fylkismenn þann leik gjörsamlega gefins. Nú veit ég að dómarinn ætlaði ekki að gera þetta en að lenda í svona er varla hægt að kyngja því möguleikar okkar voru miklir í þeim leik. Hefði sigur þar bjargað Selfoss frá falli? Ef og hefði.

Þegar maður horfir yfir sumarið eru nokkrir leikir þar sem við getum nagað okkur í handarbökin. Þar áttum við að gera betur og ég held að flestir Selfyssingar viti hvaða leiki ég er að tala um. Ég held þó að Selfoss hafi lært mikið á þessu sumri. Þetta var í raun algjörlega nýtt lið sem við vorum með. Leikmenn sem höfðu ekki spilað mikið saman og því erfitt að ætlast til þess að menn spili samba-bolta allt sumarið. Það komu þó leikir þar sem liðið sýndi hversu gott það var en því miður var það of lítið og of seint.

Að lokum vil ég þakka öllum Selfyssingum fyrir gott sumar. Þarna eru toppmenn út um allt og því ekkert að óttast varðandi framtíðina. Sérstakar kveðjur fá félagar mínir úr bílnum svokallaða. Við fórum nokkrar ferðir yfir heiðina þar sem tilfinningar voru ræddar og málin krufin til mergjar. Egill Jónsson eða Eagle-Eye Cherry eins og hann var kallaður, fær miklar þakkir enda blómstraði maðurinn á miðjunni í sumar. Óli Finsen mætti alltaf of seint upp á Olís en hann er samt toppmaður. Haffi latte kom einnig sterkur inn um mitt sumar og var gott að fá einn Hafnfirðing inn í þetta. Svo kom Ingólfur Þórarinsson með okkur af og til. Hann kom ekki alltaf en þegar hann kom þá lífgaði hann upp á ferðirnar svo um munaði.

Stórveldið á Suðurlandi mun rísa að nýju.
Takk fyrir mig.

Sjá einnig:
Hlaupabrettin voru annað heimili
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner