Hver tekur við af Klopp? - Dani Olmo orðaður við Man Utd - Greenwood í skiptum fyrir Gleison Bremer
   fös 17. maí 2013 10:45
Magnús Már Einarsson
Bestur í 3. umferð: Hef lent í ýmsum uppákomum á leiðinni
Elfar Árni Aðalsteinsson (Breiðablik)
Elfar fagnar marki með liðsfélögunum sínum í gær.
Elfar fagnar marki með liðsfélögunum sínum í gær.
Mynd: Fótbolti.net - Kristján Orri Jóhannsson
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
,,Endirinn var magnaður. Það komu fjögur mörk á sex mínútum og það var magnað að fá að taka þátt í þessu." segir Elfar Árni Aðalsteinsson leikmaður Breiðabliks en hann er leikmaður 3. umferðar í Pepsi-deildinni að mati Fótbolta.net.

Elfar Árni skoraði tvívegis fyrir Breiðablik undir lokin í 4-1 sigri liðsins á ÍA í gær. Blikar voru 1-0 undir á 83. mínútu en þá settu þeir í fluggírinn.

,,Skagamenn voru þéttir fyrir en við töluðum um að við ætluðum að vera skipulagðir og halda áfram okkar leik. Það gekk fullkomlega eftir. Það var mjög mikilvægt að fá sigur á þessum leik á heimavelli. Það eru tveir mjög erfiðir leikir framundan á móti FH og KR og þetta gefur góð fyrirheit fyrir þá leiki."

Elfar Árni er núna kominn með þrjú mörk í fyrstu þremur umferðunum og um leið búinn að jafna árangur sinn í markaskorun frá því í fyrra.

,,Við erum búnir að æfa allir mjög vel í vetur og ég líka. Það er að skila sér núna, maður er kominn með sjálfstraust og þegar maður hefur trú á sjálfum sér þá ganga hlutirnir betur."

Vaknar fyrir sex til að fara í skólann:
Elfar Árni er að klára nám í íþróttafræði á Laugarvatni í vor en hvernig hefur honum gengið að púsla því saman með fótboltanum hjá Blikum?

,,Það hefur gengið ágætlega. Það er bras að keyra svona mikið á milli. Ég bjó á Laugarvatni í fyrra og keyrði á æfingar en ég ákvað að snúa þessu við núna og keyra frekar í skólann. Það er hentugra, maður getur hvílt sig á fleiri ferðum. Það er fínt að þetta sé búið núna."

Elfar þurfti að taka daginn snemma á köflum í vetur til að keyra af stað í skólann.

,,Það kom fyrir að maður þurfti að rífa sig á lappir fyrir sex á morgnanna fyrir skólann. Þá var myrkur úti og snjór og það var gaman að ferðast. Maður lenti í ýmsum uppákomum á leiðinni en ég náði alltaf að skila mér."

Súrsætt að sjá Völsung fara upp:
Elfar Árni er uppalinn hjá Völsungi og hann fylgist vel með sínum mönnum. Völsungur sigraði 2. deildina í fyrra en Elfar Árni fór frá félaginu í Breiðablik fyrir það tímabil.

,,Það var mjög gaman að sjá þá fara upp en það var frekar kjánalegt að þetta kom loksins þegar ég fór. Það var draumur hjá manni að Völsungur kæmist í 1. deild en það var súrsætt að geta ekki tekið þátt í því nema utan vallar. Þetta verður krefjandi sumar fyrir þá en vonandi standa þeir sig í stykkinu," sagði Elfar Árni að lokum.

Sjá einnig:
Bestur í 1. umferð - Árni Vilhjálmsson (Breiðablik)
Bestur í 2. umferð - Baldur Sigurðsson (KR)
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner