Amorim, Frank, Ten Hag, De Bruyne, Isak, Olise, Gyökeres og fleiri góðir í slúðurpakka dagsins
   mið 22. maí 2013 12:30
Magnús Már Einarsson
Bestur í 4. umferð: Pottþéttur að ég myndi taka þetta víti
Róbert Örn Óskarsson (FH)
Mynd: Fótbolti.net - J.L.
Mynd: Fótbolti.net - J.L.
,,Þetta er í fyrsta skipti sem ég fæ þessa viðurkenningu frá ykkur og það er frábært," sagði Róbert Örn Óskarsson markvörður FH við Fótbolta.net í dag en hann er leikmaður 4. umferðar í Pepsi-deildinni eftir 1-0 sigur liðsins á Breiðabliki í gær.

Róbert varði vítaspyrnu frá Árna Vilhjálmssyni í gær og fór sáttur að sofa eftir leik.

,,Ég er mjög ánægður en ef ég á að vera alveg hreinskilinn þá svaf ég ekkert sérstaklega mikið í nótt. Það hefur líklega verið eitthvað spennufall."

Guðjón Árni Antoníusson og Freyr Bjarnason voru ekki með FH í gær en Jón Ragnar Jónsson og Brynjar Ásgeir Guðmundsson tóku stöðu þeirra í vörninni.

,,Við erum vel samstilltir sem lið. Það kom maður í manns stað og við kláruðum þetta eins og alvöru menn. Jón Ragnar var drullugóður og kom mér nákvæmlega ekkert á óvart. Brynjar var síðan eins og 38 ára gamalt miðvarðarbuff."

Róbert varði vítaspyrnu Árna undir blálokin en hann segist vera með sína taktík í vítaspyrnunum.

,,Ég var eiginlega pottþéttur á því að ég myndi taka þetta víti, það var einhver stemning með mér. Ég pæli í fullt af hlutum en hvort að það sé bara heppni fylgir ekki sögunni. Ég er með mínar pælingar og mér finnst þær virka. Ég hef varið nokkur víti í gegnum tíðina þannig að ég er að gera eitthvað rétt í þessu."

Róbert fékk tækifæri sem aðalmarkvörður FH á þessu tímabili og hann er sáttur með byrjun sína í sumar.

,,Ég er mjög ánægður með hana. Ég þurfti aðeins að svara fyrir mig inni á vellinum og ég hef gert það ágætlega hingað til. Ég hef sagt 6-7 sinnum á síðustu 12 tímunum að það er yfirdrifði nóg eftir af þessu móti og ég er ekki að fara að koma með einhverjar yfirlýsingar fyrir komandi leiki," sagði Róbert sem er ánægður með byrjun FH í mótinu.

,,Við erum bara búnir að fá á okkur tvö mörk í fyrstu fjórum leikjunum. Við erum búnir að lenda í erfiðum meiðslun en við erum búnir að spila fínan bolta á köflum. Ég held að tíu stig eftir fjóra leiki sé ágætt."

Næsti leikur FH er gegn ÍA næstkomandi sunnudag. ,,Skagamenn eru alltaf erfiðir og sérstaklega eftir síðasta leik sem þeir unnu 2-0. Þeir eru með gott sjálfstraust og þetta verður mjög erfiður leikur eins og allir leikirnir í þessari deild," sagði Róbert að lokum.

Sjá einnig:
Bestur í 1. umferð - Árni Vilhjálmsson (Breiðablik)
Bestur í 2. umferð - Baldur Sigurðsson (KR)
Bestur í 3. umferð - Elfar Árni Aðalsteinsson (Breiðablik)
Athugasemdir
banner
banner
banner