Musiala efstur á blaði Man City - Sóknarmenn orðaðir við Arsenal - Colwill orðaður við Liverpool og PSG
   þri 11. júní 2013 11:00
Magnús Már Einarsson
Bestur í 6. umferð: Sáttur með að hafa ákveðið að vera áfram
Halldór Orri Björnsson (Stjarnan)
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
,,Ég er virkilega sáttur. Það er alltaf gaman að fá svona viðurkenningar. Við spiluðum virkilega flottan leik, bæði í vörn og sókn," sagði Halldór Orri Björnsson leikmaður 6. umferðar við Fótbolta.net í dag.

Halldór Orri lagði upp annað mark Stjörnunnar í leiknum og skoraði síðan þriðja markið úr vítaspyrnu sem hann fiskaði sjálfur. Hann og Garðar Jóhannsson hafa báðir gert tilkall til að taka vítaspyrnurnar en Halldór Orri steig fram núna.

,,Ég á að vera vítaskytta núna. Þetta var mikilvægur tímapunktur þegar þeir fengu þessa vítaspyrnu. Þeir voru búnir að liggja á okkur og minnka muninn í 2-1. Ég var með sjálfstraustið í að taka þetta. Ég vissi að ég ætlaði að skora úr þessu og klára þennan leik. Það kom ekkert annað til greina en að taka þetta sjálfur."

Logi Ólafsson tók við Stjörnunni í vetur af Bjarna Jóhannssyni sem hafði stýrt liðinu í fimm ár.

,,Logi og Rúnar (Páll Sigmundsson) hafa komið með skemmtilegar nýjungar í þetta. Það eru engir tveir þjálfarar eins. Bjarni var líka flottur þjálfari en menn geta alltaf lært eittvhvað þegar kemur nýr þjálfari. Það er gleði í hópnum og gaman á æfingum og það er örugglega eitthvað sem Rúnar, Rúnar og Henrik (Bödker) eiga stóran þátt í."

Halldór Orri lá sjálfur undir feld í vetur og íhugaði að fara erlendis í atvinnumennsku en á endanum gerði hann nýjan samning við Stjörnuna.

,,Ég var með lausan samning og var að skoða mín mál. Ég kíkti á félög í Noregi og var nálægt því að fara út. Það voru spennandi tímar framundan hérna, Veigar var að koma heim og ég fór eftir minni eigin sannfæringu. Maður vill ekki missa af því ef við ætlum að gera atlögu í alvöru toppbaráttu."

,,Ég er mjög sáttur með að hafa ákveðið að vera hérna í Stjörnunni. Það er mjög gaman að spila í Stjörnunni, það er mikill uppgangur og stuðningsmannasveitin hefur aldrei verið sterkari. Það er virkilega gaman hjá okkur núna,"
sagði Halldór Orri sem er ánægður með stuðningsmannasveitina Silfurskeiðina.

,,Þetta eru þvílíkir höfðingjar sem mæta hvert sem við förum. Þeir mættu meira að segja til Akureyrar og áttu í fullu tré við Mjölnismenn þar. Það er frábært að eiga svona stuðningsmenn. Ég held að mörg önnur lið í deildinni öfundi okkur af því að eiga þessa stuðningssveit, það er stemning að spila fyrir þessa meistara."

,,Langflestir af mínum bestu vinum eru í þessari í stuðningsmannasveit og það gerir þetta ennþá skemmtilegra. Þá fær maður að heyra það ef maður er búinn að standa sig eitthvað illa. Það er frábært að hafa vini sína með. Þegar maður er mættur á Akureyri að keppa þá eru þeir mættir fullir upp í stúku og það gerir þetta skemmtilegra,"
sagði Halldór Orri að lokum.

Sjá einnig:
Bestur í 1. umferð - Árni Vilhjálmsson (Breiðablik)
Bestur í 2. umferð - Baldur Sigurðsson (KR)
Bestur í 3. umferð - Elfar Árni Aðalsteinsson (Breiðablik)
Bestur í 4. umferð - Róbert Örn Óskarsson (FH)
Bestur í 5. umferð - Jóhann Þórhallsson (Þór)
Athugasemdir
banner
banner
banner