Guimaraes, Silva, Van Persie, Yamal, Gil, Giroud og fleiri í slúðurpakkanum
   mið 19. júní 2013 09:30
Magnús Már Einarsson
Bestur í 7. umferð: Framherjastaðan hentar betur til framtíðar
Hólmbert Aron Friðjónsson (Fram)
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
,,Fyrir þessa umferð þá datt mér þetta ekki í hug, að ég myndi skora þrjú og vera valinn. En það er bara frábært og ég er mjög þakklátur fyrir það," segir Hólmbert Aron Friðjónsson leikmaður 7. umferðar í Pepsi-deildinni.

Hólmbert fór á kostum og skoraði þrennu í 4-1 sigri Fram á Þórs en hann hefur sprungið út í fremstu víglínu að undanförnu eftir að hafa áður leikið á kantinum.

,,Ég hef að mestu leyti spilað sem kantmaður fyrir Fram og líkaði það ágætlega en ég er búinn að heyra það frá flestum að ég muni ekki vera kantmaður útaf hæð minni. Framherjastaðan hentar mér mun betur til framtíðar og er sú staða mjög skemmtileg, sérstaklega þegar vel gengur."

,,Þó mér finnist nú alltaf skemmtilegast að spila í holunni og vera mikið í boltanum þá þarf ég að gleyma þeim draumum held ég,"
sagði Hólmbert léttur í bragði.

Vantaði upp á sjálfstraustið
Ríkharður Daðson tók við Fram á dögunum en hann var öflugur framherji á sínum tíma. Hólmbert segist hafa fengið góð ráð frá honum. ,,Já Rikki hefur kennt mér ýmislegt. En aðalatriðið er að við höfum breytt um taktískar áherslur og ég er kominn upp á topp og einhvernvegin allt að ganga upp. Svona er þetta bara stundum. Maður verður að halda sér á jörðinni og hugsa bara um næsta leik."

Hólmbert hefur skorað sex mörk í sjö leikjum í deild og bikar í sumar eftir að hafa einungis skorað eitt mark í fyrra.

,,Mér fannst ég byrja ágætlega í fyrra, byrjaði fyrstu 5-6 leikina og mér fannst ég gera ágætis hluti. En byrjun liðsins var erfið og ég datt úr liðinu í ca 5-7 leiki og það var bara ekki að hjálpa mér. Sjálfstraustið var ekki topp gott og það er ekki gott í fótbolta."

Hólmbert og Steven Lennon náðu vel saman í leiknum á sunnudag en Skotinn leikur núna á vinstri kantinum.

,,Lennon er mjög flottur leikmaður og við tveir höfum leikið saman núna í tæp tvö ár og þekkjum hvorn annan nokkuð vel. Lennon er þannig leikmaður að það er alltaf hætta er hann fær boltann og maður reynir bara að vera nálægt til að hirða upp eftir hann og skora, en það má ekki bara horfa á Lennon. Mér finnst liðið nokkuð þétt frá aftasta manni til þessa fremsta, það er góður andi og við náum allir vel saman."

Það er skammt stórra högga á milli hjá Frömurum því þeir mæta Víkingi Ólafsvík í 16-liða úrslitum Borgunarbikarsins í kvöld.

,,Mér líst mjög vel á þann leik. Það er erfitt að fara til Ólafsvíkur og spila við Víking, mér finnst þeir að mörgu leyti hafa verið óheppnir og það er oft þannig að þegar liðum gengur ekki sem skyldi þá fellur ekkert með þeim. Þetta er bikarleikur og það myndast oft góð stemning í kringum þá leiki. Það verður ekkert gefið eftir og þetta verður hörkuleikur, það er víst," sagði Hólmbert.

Sjá einnig:
Bestur í 1. umferð - Árni Vilhjálmsson (Breiðablik)
Bestur í 2. umferð - Baldur Sigurðsson (KR)
Bestur í 3. umferð - Elfar Árni Aðalsteinsson (Breiðablik)
Bestur í 4. umferð - Róbert Örn Óskarsson (FH)
Bestur í 5. umferð - Jóhann Þórhallsson (Þór)
Bestur í 5. umferð - Halldór Orri Björnsson (Stjarnan)
Athugasemdir
banner
banner