Amorim, Frank, Ten Hag, De Bruyne, Isak, Olise, Gyökeres og fleiri góðir í slúðurpakka dagsins
banner
   þri 25. júní 2013 13:00
Magnús Már Einarsson
Bestur í 8. umferð: Leiðinlegasti leikur sem ég hef spilað
Leikmaður 8. umferðar - Eiður Aron Sigurbjörnsson (ÍBV)
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
,,Það er fínt að fá svona viðurkenningu en þetta er meira fyrir liðið," sagði Eiður Aron Sigurbjörnsson leikmaður áttundu umferðar í Pepsi-deildinni við Fótbolta.net í dag.

Eiður Aron var öflugur í 1-0 sigri ÍBV á Fram á sunnudag en leikurinn var ekki mikið fyrir augað.

,,Þetta var leiðinlegasti fótboltaleikur sem ég hef tekið þátt í en stigin eru það eina sem skiptir máli," sagði Eiður sem er ánægður með vörn ÍBV í sumar.

,,Varnarleikurinn hefur verið mjög flottur. Við erum búnir að fá sex mörk á okkur og þetta er að smella saman hjá okkur. Það er heldur ekkert að skemma að hafa þennan markmann fyrir aftan okkur," sagði Eiður og vísaði í David James.

,,Hann talar í 99 mínútur í leik. Hann lokar ekki kjaftinum en talar bara ensku. Hann kann að segja góðan daginn og einstaka sinnum blessaður en annars talar hann bara ensku. Við þurfum að fara að gefa honum orðabók," sagði Eiður léttur í bragði.

Geðveikt að spila með James:
Eiður segir frábært að spila með James. ,,Ég er stoltur Liverpool maður og maður bjóst ekki við því að maður myndi spila með þennan gæa fyrir aftan sig þegar hann yrði 43 ára. Það er geðveikt."

Hermann Hreiðarsson tók við ÍBV síðastliðið haust og Eiður segir gott að læra af jafn reyndum varnarmanni.

,,Þetta var það besta sem gat gerst fyrir okkur að fá Hemma sem þjálfara og David James fyrir aftan. Þetta er þvílík blanda."

,,Hemmi getur kennt okkur allt sem við þurfum. Hann er búinn að vera í þessu lengi og maður getur lært hvað sem er af honum."


Væri gaman að fara til ,,helvítis":
Eiður er á láni hjá ÍBV frá Örebro en hann fékk ekkert að spila með sænska félaginu í fyrra.

,,Ég spilaði ekki eina mínútu í fyrra og þetta var nákvæmlega það sem þurfti, að koma aftur í ÍBV. Persónulega finnst mér ég vera að bæta mig með hverjum leiknum og það er mjög gaman."

Í gær var dregið í fyrstu umferðirnar í Evrópudeildinni. ÍBV mætir HB frá Færeyjum í fyrstu umferðinni en sigurvegarinn úr þeirri viðureign mætir Rauðu Stjörnunni í annarri umferð.

,,Þetta er fínn dráttur fyrir okkur. Ég veit persónulega ekkert um þetta lið en þetta hefði getað verið verra. Það væri mjög gaman að vinna þennan leik og fara til ,,helvítis" eins og stuðningsmenn Rauðu Stjörnunnar orða það. Það yrðu stærstu leikir ferilsins hingað til," sagði Eiður að lokum.

Sjá einnig:
Bestur í 1. umferð - Árni Vilhjálmsson (Breiðablik)
Bestur í 2. umferð - Baldur Sigurðsson (KR)
Bestur í 3. umferð - Elfar Árni Aðalsteinsson (Breiðablik)
Bestur í 4. umferð - Róbert Örn Óskarsson (FH)
Bestur í 5. umferð - Jóhann Þórhallsson (Þór)
Bestur í 6. umferð - Halldór Orri Björnsson (Stjarnan)
Bestur í 7. umferð - Hólmbert Aron Friðjónsson (Fram)
Athugasemdir
banner
banner
banner