Olise, Branthwaite, Gutierrez, Guimaraes, Zubimendi og fleiri góðir í slúðurpakka dagsins
   mán 01. júlí 2013 11:15
Magnús Már Einarsson
Bestur í 9. umferð: Atli íslenska útgáfan af mér
Leikmaður 9. umferðar - Gary Martin (KR)
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Mynd: Fótbolti.net - Torfi Jóhannsson
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
,,Það er alltaf gaman að fá verðlaun en ég væri ekki valinn leikmaður umferðarinnar án liðsfélaga minna. Við spilum sem lið og ég náði að skora mörkin að þessu sinni. Það er góð tilfinning," segir Gary Martin framherji KR en hann er leikmaður 9. umferðar í Pepsi-deildinni eftir þrennuna sem hann skoraði í 3-2 sigrinum á Fylki í gærkvöldi.

,,Ég sagði við vin minn fyrir leik að ef ég myndi skora í fyrri hálfleik þá myndi ég ná þrennu. Eftir að hafa skorað fyrsta markið í fyrri hálfleik þá fann ég strax að ég myndi fá fleiri færi og ég náði að skora mína fyrstu þrennu í Pepsi-deildinni."

Mikið hefur verið rætt og ritað um gula spjaldið sem Viðar Örn Kjartansson framherji Fylkis fékk fyrir leikaraskap í síðari hálfleik. Viðar féll eftir tæklingu frá Brynjari Birni Gunnarssyni sem var á spjaldi. Fylkismenn vildu sjá Brynjar Björn fá sitt annað gula spjald en Valgeir Valgeirsson dómari leiksins spjaldaði hins vegar Viðar fyrir leikaraskap.

,,Ég áttaði mig ekki á því að Brynjar var á spjaldi. Þegar ég sá framherjann detta þá hélt ég að Brynjar myndi fá gult spjald og aukaspyrna yrði dæmd. Ég sá hann labba af velli og ég hélt að hann væri meiddur því að hann gaf bendingar í átt að bekknum og Gunnar Þór var klár í að koma inn á. Ég áttaði mig ekki á því að þetta hefði verið annað gula spjald Brynjars ef hann hefði fengið spjald. Dómarar vinna erfitt starf og við áttum líka að fá víti í fyrri hálfleik þegar Atli fékk gult spjald fyrir leikaraskap svo kannski jafnast þetta út."

Atli íslenska útgáfan af mér:
Atli og Gary Martin eru góðir félagar en þeir eru duglegir í að grínast í hvor öðrum á samskiptasíðunni Twitter.

,,Hann er góður vinur minn. Ég segi alltaf að hann sé íslenska útgáfan af mér," sagði Gary léttur í bragði.

,,Við höfum náð mjög vel saman síðan að við bjuggum saman í fyrrasumar og ég held að hann sakni mín eftir að ég flutti út. Hann er til í að rífast allan daginn um það hvor okkar er gáfaðari en ég á svo margar sögur af honum að ég gæti skrifað bók. Ég held að hann þurfi að fara til læknis en hann skemmtir mér svo mikið að ég hef ekki ennþá farið með hann þangað," bætti Gary við hlæjandi.

Gary skrifaði á Twitter fyrir helgi að hann og Atli væru ósáttir við að vera ekki á topp tíu lista yfir kynþokkafyllstu leikmenn deildarinnar sem sérstök dómnefnd valdi fyrir Fótbolta.net á föstudag.

,,Auðvitað er ég svekktur. Ég fer ekki í ræktina til einskins," grínaðist Gary. ,,Nei ég var ekki svekktur. Ef Atli hefði verið á listanum eða Lenny (Steven Lennon) í Fram þá hefði ég verið reiður því að þeir hefðu getað strítt mér endalaust. Þú getur hins vegar ekki keppt við menn eins og Björn Jónsson. Ég var með honum í herbergi í æfingaferðinni á Spáni og ég hef aldrei séð náunga standa 15 sinnum fyrir framan spegil á dag."

Spenntur fyrir Evrópudeildinni:
KR mætir Glentoran FC frá Norður-Írlandi í Evrópudeildinni á fimmtudag og Gary bíður spenntur eftir þeim leik.

,,Við eigum góðan möguleika og ég held að við séum ánægðir með dráttinn. KR vann þetta lið 5-2 fyrir nokkrum árum og ef við náum góðum úrslitum á fimmtudag eigum við góðan möguleika í Norður-Írland."

,,Við þurfum að bera virðingu fyrir því að þetta er öðruvísi áskorun en ég tel að við höfum gæðin til að komast áfram. Við erum á góðu skriði fyrir þessa leiki. Þetta eru leikirnir sem þú vilt spila, gegn liðum frá öðrum löndum. Þetta er fyrsta reynsla mín af Evrópukeppni svo ég er mjög spenntur. Flestir strákarnir eru vanir þessu en þetta er nýtt fyrir mér svo ég verð að hlusta og læra af þeim."

Sjá einnig:
Bestur í 1. umferð - Árni Vilhjálmsson (Breiðablik)
Bestur í 2. umferð - Baldur Sigurðsson (KR)
Bestur í 3. umferð - Elfar Árni Aðalsteinsson (Breiðablik)
Bestur í 4. umferð - Róbert Örn Óskarsson (FH)
Bestur í 5. umferð - Jóhann Þórhallsson (Þór)
Bestur í 6. umferð - Halldór Orri Björnsson (Stjarnan)
Bestur í 7. umferð - Hólmbert Friðjónsson (Fram)
Bestur í 8. umferð - Eiður Aron Sigurbjörnsson (ÍBV)
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner