Leik lokið!
Plúsar og mínusar í þessum leik. Það er klárt mál. Slóvakía á þriðjudag. Við verðum þar líka. Minnum á viðtöl, einkunnir og allan pakkann sem er á leiðinni á .Net.
89. mín
Mótherjinn er hrikalega öflugur en eins og stöðutaflan sýnir augljóslega þá hefði maður viljað öflugri varnarleik og betri markvörslu.
85. mín
Inn:Marius Stepinsky (Pólland)
Út:Arkadiusz Milik (Pólland)
84. mín
Inn:Karol Linetty (Pólland)
Út:Kamil Grosicki (Pólland)
79. mín
MARK!Robert Lewandowski (Pólland)
Skyndisókn Pólverja. Þeir refsa. Lewandowski fékk stungusendingu og skyndilega stórhætta. Hólmar reyndi að loka á Lewandowski en hann náði skotinu... Ögmundur var sigraður en aftur gerir maður kröfu á að hann geri betur! Hann átti að gera miklu betur.
77. mín
Inn:Jóhann Berg Guðmundsson (Ísland)
Út:Jón Daði Böðvarsson (Ísland)
76. mín
MARK!Robert Lewandowski (Pólland)
Hann skorar alltaf maðurinn. Og í kvöld er það óþolandi! Vörnin óörugg og Theodór Elmar með herfilega hreinsun sem fer á mótherja og gerir það að verkum að Lewandowski nær á endanum að koma boltanum yfir línuna. Eins og gammur.
75. mín
Það geta vel komið fleiri mörk í þetta. Pólverjarnir eru opnir til baka en gríðarlega hættulegir sóknarlega... í þessum skrifuðu orðum fá þeir hornspyrnu.
74. mín
Jói Berg að gera sig kláran...
73. mín
VÓ!!! Jón Daði Böðvarsson braut sér leið í gegn og komst í fínt færi! Skaut í hliðarnetið!
69. mín
MARK!Alfreð Finnbogason (Ísland)
JÁÁÁÁÁÁ!!!! ALFREÐ FINNBOGASON SLAPP EINN Í GEGN! Setti boltann af yfirvegun framhjá Szczesny! Hann kann að skora gegn markvörðum Arsenal! Það rann ekki í honum blóðið meðan hann kláraði þetta.
66. mín
MARK!Bartosz Kapustka (Pólland)
Nýkominn inn sem varamaður. Lewandowski náði að fleyta boltanum á Kapustka og honum brást ekki bogalistin, náði þéttingsföstu skoti sem söng í netinu. Varnarleikur Íslands leit alls ekki vel út í þessu marki.
66. mín
Oliver, Elías, Hörður Björgvin og Hjörtur eru að hita upp.
65. mín
Inn:Bartosz Kapustka (Pólland)
Út:Jakub Wawrzyniak (Pólland)
65. mín
Inn:K Maczynski (Pólland)
Út:Pietr Zielenski (Pólland)
64. mín
GYLFI HÁRSBREIDD FRÁ ÞVÍ AÐ SKORA! Gerði þetta allt rétt og átti skot sem stefndi inn en varnarmaður Póllands náði að kasta sér fyrir skotið! Hornspyrna... hornspyrnan gripin af Szczesny.
63. mín
Hættuleg sókn Íslands! Jón Daði með fyrirgjöf sem markvörður Póllands nær að slá frá!
62. mín
Þess má geta að Gylfi tók við fyrirliðabandinu þegar Aron Einar fór af velli. Kolbeinn er varafyrirliði en meiddist í fyrri hálfleik.
60. mín
Milik reynir að klippa boltann inn en framhjá fer knötturinn. Heimamenn talsvert líklegri til að skora næsta mark...
57. mín
Gult spjald: Pietr Zielenski (Pólland)
57. mín
Lewandowski í hörkufæri en skaut yfir! Þarna gleymdist markahrókurinn algjörlega.
56. mín
Hætta upp við mark Póllands. Jón Daði Böðvarsson í teignum en komst ekki í skotstöðu.
52. mín
MARK!Kamil Grosicki (Pólland)
Pólland hefur jafnað og allt tryllist gjörsamlega á vellinum... skotið hafði einhverja viðkomu af Ara Frey en þarna fannst mér Ögmundur hafa átt að gera betur í markinu.
52. mín
Þarna lét Lewandowski vaða af nokkuð löngu færi... og skotið nokkuð langt framhjá.
51. mín
Alfreð með skottilraun. Tók laglegan snúning við vítateigsendann en skaut framhjá markinu.
47. mín
Lewandowski liggur eftir baráttu við Elmar. Er pirraður út í Íslendinginn.
46. mín
Seinni hálfleikur hafinn
46. mín
Inn:Theodór Elmar Bjarnason (Ísland)
Út:Birkir Bjarnason (Ísland)
Elmar kemur inn á vinstri kantinn.
46. mín
Inn:Rúnar Már S Sigurjónsson (Ísland)
Út:Aron Einar Gunnarsson (f) (Ísland)
45. mín
Við á vellinum fengum vítaspyrnudóminn ekki endursýndan en ég var að tala við okkar mann sem er búinn að skoða þetta rækilega... auðvitað var þetta víti og ekkert annað!
45. mín
Hálfleikur
+2 - Já við eigum rosalega öflugt landslið. Yfir gegn Póllandi í hálfleik en seinni hálfleikurinn verður alltaf mjög strembinn. Ég ætla að hlaða í annan kaffibolla og spjalla við pólska kollega. Heyrumst eftir smá!
45. mín
+1 - Tveimur mínútum bætt við. Erum í uppbótartíma fyrri hálfleiks.
45. mín
Heimamenn með skalla yfir eftir horn. Styttist í hálfleik. Pólland vildi fá vítaspyrnu áðan, fá hendi dæmda á Gylfa en hann var með hendina upp við líkamann. Hárrétt að flauta ekki.
44. mín
Pólland með skot framhjá eftir smá darraðadans... Lewandowski að valda miklum usla í aðdragandanum.
42. mín
Ísland fékk tvær hornspyrnur í röð... báðar teknar stutt og ekkert kom út úr þeim. Ég er enginn aðdáandi þess að hornspyrnur séu teknar stutt.
40. mín
Theodór Elmar Bjarnason og Rúnar Már Sigurjónsson áttu að koma inn á sem varamenn í hálfleik. Það var uppleggið fyrir leik. Gæti hafa breyst eftir meiðsli Kolbeins... bíðum og sjáum. Kom fram á RÚV.
37. mín
Gregorz Krychowiak með skot fyrir utan teig. Beint á Ögmund. Engin hætta.
36. mín
RAGNAR SKALLAR YFIR MARKIÐ! Flott færi eftir aukaspyrnu. Raggi reiður út í sjálfan sig fyrir að hafa ekki náð þessu á markið. Gylfi með afar góða spyrnu.
36. mín
Dómgæslan eitthvað að fara í taugarnar á heimamönnum. Alltaf ósáttir þegar dæmt er gegn þeim. Það er ekki hægt að taka mark á þannig væli...
34. mín
Lewandowski fellur fyrir utan teig í baráttu við Hólmar Örn! Ekkert dæmt og pólskir áhorfendur baula. Lewandowski gefur til kynna að Hólmar hafi togað sig niður en Hólmar hlær að Pólverjanum og vill meina að þetta hafi verið leikaraskapur!
32. mín
Sótt á báða bóga þessa stundin! Kamil Grosicki kom sér í ágætis skotfæri en framhjá fór boltinn.
30. mín
SKOT NAUMLEGA FRAMHJÁ FRÁ GYLFA! Birkir Bjarnason renndi boltanum út á Gylfa sem tók hann í fyrsta en boltinn framhjá!
29. mín
Fimbulfamb eftir hornið. Heimamenn að setja smá pressu núna en hafa ekki náð að koma sér í almennilegt skotfæri.
28. mín
Pólland með hættulega fyrirgjöf frá hægri... Birkir Már setur boltann í horn.
25. mín
Lewandowski var flaggaður rangstæður... aaansi tæpt. Áhorfendur baula þegar endursýningu er varpað á skjáinn.
23. mín
Flott barátta í íslenska liðinu. Menn eru alls ekki komnir hingað til Póllands í eitthvað frí, eins og var reyndar alltaf vitað mál!
22. mín
Pólsku áhorfendurnir eru ekki að fíla það að vera undir í þessum fótboltaleik og eru sérstaklega óhressir þegar Ísland er með boltann... fólk var ekki mætt hingað til að sjá þetta. Við höfum samt ákaflega gaman að þessu.
18. mín
Pólland fær hornspyrnu... Raggi setti boltann í horn. Heimamenn náðu ekki að ógna úr horninu.
16. mín
Inn:Alfreð Finnbogason (Ísland)
Út:Kolbeinn Sigþórsson (Ísland)
Kolbeinn getur ekki haldið leik áfram. Alfreð mætir inn.
16. mín
Hætta upp við mark Íslands! Sending frá vinstri og Milik var á undan Ögmundi í boltann en skaut yfir.
14. mín
Inn:Maciej Rybus (Pólland)
Út:Jakub Blaszczykowski (Pólland)
Meiðsli hjá heimamönnum.
12. mín
Þó leikvangurinn hér sé magnaður er sjálfur grasvöllurinn ekki í toppstandi. Völlurinn loðinn og smá ójafn. Gylfi Þór Sigurðsson talaði einmitt um það eftir æfingu Íslands í gær.
10. mín
Alfreð Finnbogason heldur sér heitum eftir að Kolbeinn lá á jörðinni áðan þegar brotið var á honum. Kolbeinn virðist þó í fínu lagi...
4. mín
Mark úr víti!Gylfi Þór Sigurðsson (Ísland)
ÞVÍLÍKT ÖRYGGI! Gylfi setti þennan bara í slá og inn! Skotið við samskeytin bara takk fyrir túkall! Þvílík byrjun!
4. mín
VÍTI!!! ÍSLAND FÆR VÍTASPYRNU! Brotið á Kolbeini Sigþórssyni! Var að hlaða í skotið þegar brotið var á honum! Pólverjarnir ekki sáttir... umdeildur dómur en við erum hlutlausir og segjum hárrétt hjá Íranum!
3. mín
Pólverjar komast í teig Íslands en Ögmundur á hárréttum tíma út úr marki sínu og handsamar knöttinn. Skömmu síðar brýtur Blaszczykowski af sér og fær tiltal.
1. mín
Leikur hafinn
Ísland byrjaði með boltann.
Fyrir leik
Skondið að rétt áður en liðin gengu út á völlinn fór vökvunarkerfið óvænt í gang og sprautaði yfir hóp af ljósmyndurum sem stóðu við hliðarlínuna! Dýrt spaug ef einhverjar myndavélar hafa skemmst!
Fyrir leik
VÁ! Þegar pólski þjóðsöngurinn var leikinn þá sungu allir með! Þjóðsöngvar að baki og það er rosalegt stuð á vellinum. Engin æfingaleikjastemning.
Fyrir leik
Verið að vökva völlinn og gera allt klárt... styttist í þjóðsöngva.
Fyrir leik
Ég er búinn með kaffibollann minn... nú má flauta þessa veislu á. Sviðið er magnað, fullt af frábærum fótboltamönnum og hátt í 60 þúsund áhorfendur. Ekki víst að þetta klikki!
Fyrir leik
Það er þak yfir leikvanginum og því ekki eins kalt og það ætti að vera. Siggi dúlla, liðsstjóri Íslands, er í stuttermabol á vellinum og fylgist með upphitun.
Fyrir leik
Það styttist óðum í leik og stuðið á leikvanginum er þegar orðið frábært. Liðin eru að hita upp og Lalli Lagerback tekur sér göngutúr við hliðarlínuna, virkar hugsi. "Welcome to the Jungle" ómar í græjunum og það hjálpar til við að kynda undir stemningunni.
Fyrir leik
Það er írskur dómari með flautuna í kvöld, Padraig Sutton. Hann er ekki hátt á lista FIFA og hefur dæmt einn A-landsleik í undankeppni og mest í forkeppni Evrópudeildarinnar þegar kemur að félagsliðum.
Fyrir leik
Byrjunarlið Póllands er komið inn. Hægt er að sjá byrjunarlið beggja liða hér til hliðar. Lewandowski á sínum stað í fremstu víglínu. Szczesny sem spilar með Roma á láni frá Arsenal er í rammanum.
Fyrir leik
Noregsmeistarinn Hólmar Örn Eyjólfsson í hjarta varnarinnar hjá Íslandi í kvöld. Kemur inn fyrir meiddan Kára Árnason. Svíþjóðarmeistarinn Arnór Ingvi Traustason kemur inn fyrir Jóhann Berg Guðmundsson.
Fyrir leik
Það verða ekki margir Íslendingar á vellinum í kvöld, reiknað er með að í kringum 20 Íslendingar verði í stúkunni. Tólfan kemur sér hinsvegar fyrir á Ölveri þar sem búast má við svakalegu stuði. Sendum bestu kveðjur þangað frá Varsjá!
Fyrir leik
Íslenska þjóðin er ekkert að missa sig í bjartsýni fyrir kvöldið. Er fólk að óttast Lewandowski? Hér að neðan má sjá niðurstöðu í skoðanakönnun sem var á forsíðu Fótbolta.net:
Hvernig fer vináttuleikur Póllands og Íslands?
45% Pólland vinnur (446)
23% Jafntefli (230)
32% Ísland vinnur (319)
Fyrir leik
Hér í gríðarlega stóra fjölmiðlarými á leikvanginum, rými sem hefur verið líkt við hvalasafn, er mikill fjöldi pólskra íþróttafréttamanna. Bara tveir íslenskir. Mikill áhugi á pólska liðinu og flestra augu beinast að stórstjörnunni Robert Lewandowski sem hefur verið á eldi með Bayern München í þýsku Bundesligunni.
Við minnum lesendur á að vera með okkur gegnum Twitter, kassamerkið #fotboltinet hjálpar okkur að finna færslurnar sem máli skipta!
Fyrir leik
Byrjunarlið Íslands verður bráðlega kynnt en sögusagnir eru um tvær breytingar frá byrjunarliðinu gegn Tyrkjum í síðasta leik; Hólmar Örn Eyjólfsson komi inn fyrir Kára Árnason sem er að glíma við meiðsli og Arnór Ingvi Traustason byrji en Jóhann Berg Guðmundsson byrji á bekknum.
Fyrir leik
Það má segja að undirbúningur íslenska liðsins fyrir EM á næsta ári sé hér með kominn á fulla ferð. Það er þessi vináttulandsleikur í kvöld og svo er það leikur á þriðjudaginn gegn Slóvakíu ytra.
Fyrir leik
Góðan og gleðilegan dag. Elvar Geir Magnússon heilsar frá Varsjá þar sem leikur Póllands og Íslands hefst 19:45 að íslenskum tíma, 20:45 að staðartíma. Það er löngu uppselt á glæsilegan þjóðarleikvang Pólverja, hátt í 60 þúsund manns á vellinum í kvöld. Föstudagskvöld og klárt að stemningin verður góð.