Liverpool og Man Utd skoða Kolo Muani - Rashford of dýr fyrir PSG - Tekur Heitinga við WBA?
   mið 01. maí 2013 13:00
Fótbolti.net
Spá þjálfara og fyrirliða í 2.deild karla: 10. sæti
Ægir
Mynd: Garðar Geirfinnsson
Mynd: Garðar Geirfinnsson
Mynd: Sunnlenska.is - Guðmundur Karl
Mynd: Ægir
Mynd: Ægir
Mynd: Facebook-síða Ægis
Fótbolti.net ætlar að fjalla vel um aðra deildina í sumar eins og undanfarin ár og við ætlum að hita vel upp með því að birta spá fyrirliða og þjálfara í deildinni fram að móti.

Við fengum alla fyrirliða og þjálfara til að spá og fengu liðin því stig frá 1-11 eftir því en ekki var hægt að spá fyrir sínu eigin liði. Í tíunda sæti í þessari spá var Ægir sem fékk 71 stig af 242 mögulegum. Kíkjum á umfjöllun okkar um Ægi.

Spá fyrirliða og þjálfara:
1. ?
2. ?
3. ?
4. ?
5. ?
6. ?
7. ?
8. ?
9. ?
10. Ægir 71 stig
11. Sindri 69 stig
12. Hamar 39 stig

10. Ægir
Lokastaða í fyrra: 2. sæti í 3. deild
Eftir að hafa barist hart fyrir því að komast upp úr þriðju deildinni tókst Ægismönnum loks ætlunarverkið í fyrra. Ægismenn unnu Magna Grenivík í hörkuviðureign í undanúrslitum þriðju deildar og tryggði sér um leið sæti í 2. deild. Metnaðurinn er mikill í Þorlákshöfn og þrátt fyrir að liðinu sé spáð tíunda sæti þá segjast nýliðarnir stefna ennþá hærra í deildinni í sumar eins og þjálfarinn Alfreð Elías Jóhannsson kemur inn á hér að neðan.

Ægismenn hafa styrkt leikmannahóp sinn mikið í vetur. Framherjinn Darko Matejic er kominn frá Serbíu og menn í Þorlákshöfn binda miklar vonir við þennan leikmann en hann hefur skorað grimmt í heimalandi sínu. Walesverjinn Liam Killa er kominn frá Magna Grenivík og erlendu leikmennirnir Aco Pandurevic, Ivan Razumovic og Milan Djurovic verða allir áfram hjá Ægi. Arilíus Marteinsson, fyrrum leikmaður Selfyssinga, mun einnig spila áfram með Ægi í sumar og hann gæti átt eftir að verða drjúgur.

Hvorki fleiri né færri en tíu aðrir leikmenn hafa gengið til liðs við Ægi í vetur. Þar á meðal eru markverðirnir Arnar Freyr Ólafsson og Hugi Jóhannesson sem koma á láni frá Fjölni og KR. Þeir eiga að berjast um markvarðarstöðuna en Magnús Karl Pétursson lagði hanskana á hilluna eftir að hafa hjálpað Ægismönnum upp í fyrra. Þá fór Ingi Rafn Ingibergsson aftur í Selfoss eftir að hafa verið á láni hjá Ægi í fyrra þar sem hann skoraði tólf mörk.

Gengi Ægismanna var ekkert sérstakt í vetur en liði sótti þó í sig veðrið þegar á leið í Lengjubikarnum og endaði á tveimur sigurleikjum eftir að hafa fengið tvo skelli þar á undan. Í síðari leikjunum munaði talsvert um erlendu leikmennina sem voru komnir til landsins eftir að hafa misst af fyrstu leikjunum. Ljóst er að þeir munu að miklu leyti sjá um að draga vagninn hjá Ægi í sumar.

Ægismenn hafa leikið í neðstu deild frá árinu 2000 en nú er tækifæri fyrir liðið að festa sig í sessi í 2. deildinni. Metnaðurinn er til staðar og ljóst er að Ægismenn ætla sér stóra hluti í sumar. Hversu langt það mun fleyta liðinu verður síðan að koma í ljós.

Styrkleikar: Ægir hefur fengið í sínar raðir öfluga erlenda leikmenn. Breiddin í leikmannahópnum er mikil og góð. Margir leikmenn hafa reynslu af því að leika í efri deildum.

Veikleikar: Markvarslan er ákveðið spurningamerki eftir að Magnús Karl hætti. Ægismenn eru að pússla saman liði sínu rétt fyrir mót og það gæti haft áhrif. Ægir skoraði einungis sex mörk í fimm leikjum í Lengjubikarnum og betur má ef duga skal.

Lykilmenn: Arilíus Marteinsson, Darko Matejic, Ivan Razumovic.


Þjálfarinn: Alfreð Elías Jóhannsson
,,Er þessi spá ekki eitthvað sem búast mátti við? Við erum nýliðar í þessari deild og spáin líklega eðlileg. Okkar metnaður er meiri og við stefnum klárlega á það að vera í topp sex. Við erum mættir í þessa deild til að standa okkur. Ég er mjög sáttur við leikmannahópinn í dag, hann er orðinn breiður og góður. Við erum búnir að vinna vel í okkar málum og vonandi skilar það okkur í baráttuna í efri hlutanum.“

Komnir:
Arnar Freyr Ólafsson frá Fjölni (á láni)
Darko Matejic frá Serbíu
Fannar Haraldur Davíðsson frá Hamri
Haukur Andri Grímsson frá Hamri
Haukur Már Ólafsson frá Létti
Hugi Jóhannesson frá KR (á láni)
Liam Killa frá Magna
Marteinn Gauti Andrason frá ÍR
Pálmi Þór Ásbergsson frá Selfyssingum (á láni)
Sigþór Snorrason frá Njarðvík
Snorri Sigurðarson frá Árborg
Tómas Kjartansson frá Árborg

Farnir:
Hafþór Atli Agnarsson hættur
Ingi Rafn Ingibergsson í Selfoss
Predrag Djorovic
Magnús Karl Pétursson hættur


Þrír fyrstu leikir Ægis:
11. maí: Höttur (Ú)
18. maí: KV (H)
23. maí: ÍR (Ú)
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner