Forgangsatriði fyrir Man Utd að fá Gyökeres - Zirkzee til Aston Villa?
   þri 30. apríl 2013 13:00
Fótbolti.net
Spá þjálfara og fyrirliða í 2.deild karla: 11. sæti
Mynd: Valdemar Einarsson
Mynd: Valdemar Einarsson
Mynd: Guðmundur Karl
Mynd: Fótbolti.net - Magnús Már Einarsson
Mynd: Gunnar Stígur Reynisson
Mynd: Fótbolti.net - Magnús Már Einarsson
Fótbolti.net ætlar að fjalla vel um aðra deildina í sumar eins og undanfarin ár og við ætlum að hita vel upp með því að birta spá fyrirliða og þjálfara í deildinni fram að móti.

Við fengum alla fyrirliða og þjálfara til að spá og fengu liðin því stig frá 1-11 eftir því en ekki var hægt að spá fyrir sínu eigin liði. Í ellefta sæti í þessari spá var Sindri sem fékk 69 stig af 242 mögulegum. Kíkjum á umfjöllun okkar um Sindra.

Spá fyrirliða og þjálfara:
1. ?
2. ?
3. ?
4. ?
5. ?
6. ?
7. ?
8. ?
9. ?
10. ?
11. Sindri 69 stig
12. Hamar 39 stig

11. Sindri
Lokastaða í fyrra: 1. sæti í 3. deild
Eftir nokkurra ára baráttu í þriðju deildinni náðu Sindramenn að komast aftur upp í aðra deildina í fyrra. Sindri sigraði þriðju deildina með stæl og mun því leika í 2. deild á nýjan leik í fyrsta skipti síðan árið 2007. Óli Stefán Flóventsson er á sínu fjórða ári sem þjálfari Sindra. Þessi reyndi varnarmaður lagði skóna á hilluna eftir síðastliðið sumar en hann teygði sig síðan aftur upp í hillu í vetur og dustaði rykið af takkaskónum.

Óli Stefán mun því vera kjölfestan í varnarleik Sindra í sumar líkt og undanfarin ár en hann er ekki eini reynsluboltinn í liðinu. Sinisa Valdimar Kekic, fyrrum liðsfélagi Óla Stefáns hjá Grindavík, mun einnig leika áfram með Sindra í sumar. Kekic verður 44 ára á þessu ári en hann var drjúgur með Sindra í fyrra og mun eflaust lauma inn nokkrum mörkum í sumar.

Sindri hefur haldið sama leikmannahóp og vann þriðju deildina á síðastliðnu tímabili og bætt aðeins við. Markvörðurinn öflugi Maciej Majewski er kominn frá KFR en hann var einn besti leikmaður Rangæinga á síðasta tímabili. Sindri hefur einnig samið við Eldin Ceho en hann er Bosníumaður sem getur leikið bæði í miðjunni og á vörninni. Hilmar Þór Kárason er síðan kominn á láni frá Tindastóli en hann mun styrkja sóknarleik Hornfirðinga.

Sindri hefur einnig náð samningum við Anel Repa Beslija og Fijad Mehanovic en þeir léku báðir með liðinu í fyrra. Anel er bakvörður og kantmaður sem skoraði sex mörk í tíu leikjum í fyrra og Fijad er sóknarsinnaður miðjumaður sem skoraði tólf mörk í níu leikjum. Þeir munu væntanlega báðir vera áfram í stóru hlutverki hjá Hornfirðingum í sumar.

Þrátt fyrir að vera spáð falli þá stefna Sindramenn vafalítið ofar í deildinni. Gengi liðsins á undirbúningstímabilinu var ágætt og liðið átti möguleika á að fara áfram í Lengjubikarnum fram í síðasta leik. Þar gerði Sindri meðal annars jafntefli við HK sem sigraði B deild Lengjubikarsins í ár. Í vetur hefur hluti leikmannahópsins verið á höfuðborgarsvæðinu en æfingaaðstaðan á Hornafirði hefur hins vegar batnað mikið eftir að knatthús var byggt á svæðinu. Ljóst er að Hornfirðingar munu leggja allt í sölurnar í sumar og reyna að halda sæti sínu og ná sama flugi og í byrjun aldarinnar þegar liðið var ýmist í fyrstu eða annarri deild.

Styrkleikar: Varnarleikurinn gæti orðið sterkasta vopn Sindra. Heimavöllurinn hefur verið sterkur en Sindri tapaði einungis einum leik þar í fyrra. Liðið hefur haldið öllum sínum leikmönnum frá síðasta tímabili.

Veikleikar: Breiddin er spurningamerki hjá Hornfirðingum. Margir leikmenn í liðinu hafa ekki reynslu af því að leika í 2. deild. Leikmannahópurinn hefur lítið náð að æfa saman í heilu lagi í vetur og það gæti haft áhrif í byrjun móts.

Lykilmenn: Eldin Ceho, Fijad Mehanovic og Óli Stefán Flóventsson.


Þjálfarinn: Óli Stefán Flóventsson
,,Þetta er alveg eðlileg spá. Við erum nýliðar og þeim er oft spáð ströggli. Við gerum okkur grein fyrir því að hver einasti leikur verður bardagi. Ég er mjög sáttur við undirbúningstímabilið. Eins og vill vera út á landi hefur hópurinn verið sundurtættur og við ekki náð að fínstilla hann fyrr en í maí. Það má búast við hnökrum í byrjun en það hefur þó gengið furðuvel hjá okkur í vetur og Lengjubikarinn gengið vel. Erlendu leikmennirnir okkar koma á morgun og þeir hjálpa vonandi."

Komnir:
Eldin Ceho frá Bosníu
Hilmar Þór Kárason frá Tindastóli
Maciej Majewski frá KFR

Farnir:
Enginn


Þrír fyrstu leikir Sindra:
11. maí: Hamar (Ú)
18. maí: Reynir S. (H)
25. maí: Dalvík/Reynir (Ú)
Athugasemdir
banner
banner
banner