Olise, Branthwaite, Gutierrez, Guimaraes, Zubimendi og fleiri góðir í slúðurpakka dagsins
   fim 02. maí 2013 13:00
Fótbolti.net
Spá þjálfara og fyrirliða í 2.deild karla: 9. sæti
Mynd: Fótbolti.net - Sævar Geir Sigurjónsson
Mynd: Fótbolti.net - Sævar Geir Sigurjónsson
Mynd: Fótbolti.net - Sævar Geir Sigurjónsson
Pétur Heiðar Kristjánsson þjálfari.
Pétur Heiðar Kristjánsson þjálfari.
Mynd: Dalvík/Reynir
Mynd: HSN
Mynd: Fótbolti.net - Sævar Geir Sigurjónsson
Mynd: Fótbolti.net - Sævar Geir Sigurjónsson
Fótbolti.net ætlar að fjalla vel um aðra deildina í sumar eins og undanfarin ár og við ætlum að hita vel upp með því að birta spá fyrirliða og þjálfara í deildinni fram að móti.

Við fengum alla fyrirliða og þjálfara til að spá og fengu liðin því stig frá 1-11 eftir því en ekki var hægt að spá fyrir sínu eigin liði. Í níunda sæti í þessari spá var Dalvík/Reynir sem fékk 75 stig af 242 mögulegum. Kíkjum á umfjöllun okkar um Dalvík/Reyni.

Spá fyrirliða og þjálfara:
1. ?
2. ?
3. ?
4. ?
5. ?
6. ?
7. ?
8. ?
9. Dalvík/Reynir 75 stig
10. Ægir 71 stig
11. Sindri 69 stig
12. Hamar 39 stig

9. Dalvík/Reynir
Lokastaða í fyrra: 6. sæti í 2. deild
Eftir að hafa komist aftur upp í aðra deildina árið 2010 hefur Dalvík/Reynir verið í ágætis málum um miðja deild undanfarin tvö ár. Samkvæmt spá þjálfara og fyrirliða verður Dalvík/Reynir hins vegar neðar að þessu sinni og nær fallbaráttunni. Þjálfaraskipti urðu hjá Dalvík/Reyni eftir mót í fyrrahaust þegar Pétur Heiðar Kristjánsson tók við liðinu af Þóri Áskelssyni. Pétur Heiðar var spilandi aðstoðarþjálfari hjá Dalvík/Reyni í fyrra og nú hefur hann tekið við sjálfu þjálfarstarfinu auk þess sem hann verður áfram leikmaður liðsins.

Dalvík/Reynir varð fyrir mikilli blóðtöku í haust þegar Bessi Víðisson ákvað að ganga í raðir KA. Bessi var potturinn og pannann í sóknarleik Dalvíkur/Reynis í fyrra en hann endaði sem markakóngur í 2. deildinni. Gunnar Már Magnússon og markvörðurinn Steinþór Már Auðunsson gengu einnig til liðs við KA eftir að hafa verið fastamenn í liði Dalvíkur/Reynis undanfarin tvö ár. Þá lagði miðjumaðurinn reyndi Hermann Albertsson skóna á hilluna sem er einnig mikil blóðtaka fyrir Dalvík/Reyni.

Í fyrra voru margir fyrrum Þórsarar í liði Dalvíkur/Reynis og það sama er uppi á teningum í ár. Fimm leikmenn hafa bæst í hópinn frá Þór í vetur og þar með hefur rúmlega helmingur af leikmannahópi Dalvíkur/Reynis leikið áður með Þór. Það má því segja að tengingin sé sterk milli félaganna en Pétur Heiðar þjálfari er sjálfur uppalinn Þórsari og var í leikmannahópi liðsins í Pepsi-deildinni 2011 eins og fleiri leikmenn í liði Dalvíkur/Reynis í dag.

Þar á meðal er kantmaðurinn Kristján Steinn Magnússon sem skoraði mark að meðaltali í leik í Lengjubikarnum og gæti styrkt liðið mikið. Dalvík/Reynir hefur einnig fengið enska miðjumanninn Nik Anthony Chamberlain í sínar raðir frá Huginn en hann hefur leikið á Íslandi frá því árið 2007.

Dalvík/Reynir endaði í fjórða sæti í sínum riðli í Lengjubikarnum þar sem gengið var upp og ofan. Liðið sigraði Fjarðabyggð til að mynda örugglega en tapaði þar á undan 4-1 gegn Leikni Fáskrúðsfirði. Leikmannahópurinn hefur verið að myndast hægt og rólega og því er ekki hægt að leggja endanlegt mat á liðið fyrir sumarið. Fyrirliðar og þjálfarar í 2. deildinni spá því að Dalvík/Reynir verði rétt fyrir ofan fallsvæðið en eftir að hafa misst lykilmenn í vetur er ljóst að aðrir leikmenn verða að stíga upp ef fallbarátta á ekki að verða niðurstaðan í sumar.

Styrkleikar: Heimavöllur liðsins hefur verið öflugur undanfarin ár. Margir leikmenn í hópnum hafa leikið í efri deildum. Varnarleikurinn var mjög öflugur í fyrra en Dalvík/Reynir var þá í þriðja sæti yfir þau lið sem fengu fæst mörk á sig í deildinni.

Veikleikar: Sóknarleikurinn er stórt spurningamerki eftir brotthvarf Bessa. Fjöldi heimamanna í liðinu hefur verið meiri núna. Nokkrir fastamenn eru horfnir á braut og spurning er hvernig gengur að fylla skarð þeirra.

Lykilmenn: Kristján Sigurólason, Kristján Steinn Magnússon, Nik Anthony Chamberlain.



Þjálfarinn: Pétur Heiðar Kristjánsson
,,Mér lýst mjög vel á þessa spá því þá er pottþétt að við förum fram úr væntingum spámanna í sumar. Þetta kemur kannski ekki á óvart enda ekki mikið búið að gerast í okkar leikmannamálum sem hefur vakið einhvern áhuga almennings. Ég tel að hópurinn sé einum manni frá því að vera fullmannaður og býst við að fá þann leikmann. Hann kemur ekki að utan. Þetta verður mikil barátta í sumar og allir leikir í deildinni eru hörkuleikir."

Komnir:
Edmondo Steinar De Santis frá Þór
Kristján Steinn Magnússon frá Þór
Nik Anthony Chamberlain frá Huginn
Sigmar Bjarni Sigurðsson frá Þór
Steinar Logi Þórðarson frá Þór
Steinar Marinó Hilmarsson frá Þór

Farnir:
Armend Fejzulahi í Reyni Sandgerði
Bessi Víðisson í KA
Gunnar Már Magnússon í KA
Hermann Albertsson hættur
Steinþór Már Auðunsson í KA


Þrír fyrstu leikir Dalvíkur/Reynis:
11. maí: Reynir S. (Ú)
18. maí: Njarðvík (Ú)
25. maí: Sindri (H)
Athugasemdir
banner
banner
banner