Cunha orðaður við þrjú félög - Garnacho til Chelsea? - Sjö á óskalistum Amorim - Hvað verður um Rashford? - Chelsea vill risaupphæð
   mið 10. maí 2017 10:30
Fótbolti.net
Spá þjálfara í 3. deild karla: 4-6. sæti
KFG er spáð 4. sætinu í sumar.
KFG er spáð 4. sætinu í sumar.
Mynd: Þorsteinn Ólafs
Bjarni Pálmason er reynslubolti og lykilmaður hjá KFG.
Bjarni Pálmason er reynslubolti og lykilmaður hjá KFG.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Ægir og KF féllu úr 2. deildinni í fyrra.  Ægi er spáð 5. sæti í 3. deildinni í sumar og KF 6. sæti.
Ægir og KF féllu úr 2. deildinni í fyrra. Ægi er spáð 5. sæti í 3. deildinni í sumar og KF 6. sæti.
Mynd: Fótbolti.net - Sævar Geir Sigurjónsson
Halldór Ingvar Guðmundsson markvörður KF.
Halldór Ingvar Guðmundsson markvörður KF.
Mynd: Fótbolti.net - Eyjólfur Garðarsson
Keppni í 3. deild karla hefst á föstudaginn. Fótbolti.net fékk þjálfarana í deildinni til að spá fyrir um lokastöðuna.

Hver þjálfari skilaði inn spá 1-9 og sleppti sínu liði. Hér að neðan má sjá liðin sem enduðu í 4-6. sæti í spánni en niðurstaðan í heild sinni birtist síðar í vikunni.

Smelltu hér til að sjá sæti 7-10

4. KFG 46 stig
Sæti í fyrra: 2. sæti í 4. deild
Garðbæingar komust upp um deild í fyrsta skipti í fyrra þegar þeir fóru upp úr 4. deildinni. Mikið af ungum og efnilegum Garðbæingum eru í liðinu en þar er einnig að finna reynslubolta sem hafa leikið lengi með KFG í 4. deildinni. Þjálfarateymið er síðan vel mannað en Lárus Guðmundsson, sem hefur verið til staðar frá stofnun KFG, er á sínum stað og með honum eru tvíburabræðurnir Björn og Kristján Mássynir. Gengi KFG á undirbúningstímabilinu var fínt en liðið lagði meðal annars Aftureldingu úr 2. deild. KFG spilar kröftugan fótbolta og liðið getur fengið mörk úr mörgum áttum. Nýliðarnir eru til alls líklegir í 3. deildinni í sumar.
Lykilmenn: Aron Heiðdal, Bjarni Pálmason og Jón Brynjar Jónsson.
Þjálfarinn segir - Lárus Guðmundsson
„Spáin kemur ekki á óvart. Liðunum sem hafa verið að styrkja sig hvað mest er spáð upp. Mjög flott lið Þróttur Vogum og Kári og reynslumikil í 3. deild. Hvað okkur varðar, þá stefnum við á að taka þátt í toppbaráttunni, en við þurfum á okkar sterkasta mannskap að halda, og vonandi verðum við lausir við meiðslavandamál, sem hafa verið að stríða nokkrum lykilmönnum hjá okkur núna á undirbúningstímabili. En engu að síður, ef allir eru heilir erum við ekki auðsigraðir. Þetta verður jöfn deild og allir leikir erfiðir, þeir sem halda að einhverjir andstæðingar verði auðveldir eiga eftir að komast á raun um annað. Við í KFG, sem nýliðar í deildinni bíðum spenntir eftir að hefja leik í þessari erfiðu og skemmtilegu deild."

5. Ægir 44 stig
Sæti í fyrra: 11. sæti í 2. deild
Ægismenn féllu úr 2. deildinni í fyrra eftir fjögur ár í þeirri deild. Þjálfaraskipti urðu eftir tímabilið og leikmannahópurinn er talsvert breyttur síðan í fyrra. Fleiri ungir leikmenn úr Þorlákshöfn eru í liðinu en áður og ljóst er að Ægismenn ætla að byggja meira á heimamönnum í sumar. Ofan á það eru áfram í hópnum sterkir póstar frá því í fyrra en þar á meðal er velski miðjumaðurinn Jonathan Hood sem lék mjög vel síðari hluta sumars í 2. deildinni í fyrra. Stígandi hefur verið í leik Ægis á undirbúningstímabilinu en spurning er hvort leikmannahópurinn sé nægilega öflugur til að blanda sér af alvöru í toppbaráttuna í sumar.
Lykilmenn: Jonathan Hood, Gunnar Bent Helgason og Þorkell Þráinsson.
Þjálfarinn segir - Björgvin Vilhjálmsson
„Þessi spá kemur mér ekkert sérstaklega á óvart þar sem við höfum ekki verið sannfærandi í þessum undirbúningsmótum nú í vor. Hópurinn hjá okkur hefur verið þunnur oft á tíðum og því þetta ekkert óeðlileg spá. Það er töluverð breyting á liðinu frá því í fyrra og nýr þjálfari þannig að það tekur tíma að stilla saman strengi. Markmið okkar er að safna eins mörgum stigum og við getum og svo þarf bara að telja saman stigin þegar mótinu er lokið og sjá hvar við stöndum. Það eru nokkur mjög sterk lið í deildinni sem hafa verið að spila vel í vetur. Það eru því einhver 4-6 sterk lið í deildinni sem koma til með að berjast um að fara upp og ég held að deildin verði nokkuð jöfn í sumar."

6. KF 34 stig
Sæti í fyrra: 12. sæti í 2. deild
Menn í Fjallabyggð vilja gleyma tímabilinu í fyrra sem fyrst. KF endaði þá í langneðsta sæti í 2. deild og virtist aldrei vera líklegt til að halda sæti sínu í deildinni. Slobodan Milisic tók við þjálfun KF í vetur og langstærsti kjarninn í leikmannahópnum er ennþá til staðar. Um er að ræða unga heimastráka sem fengu dýrmæta reynslu í 2. deildinni í fyrra. Gengi KF á undirbúningstímabilinu var ekki gott og sigurleikirnir hafa verið afar fáir hjá liðinu. Þessa dagana eru hins vegar að bætast erlendir leikmenn við hópinn og ef þeir eru öflugir þá gæti KF mögulega farið ofar í deildinni en spáin segir til um.
Lykilmenn: Aksentije Milisic, Halldór Ingvar Guðmundsson, Miljan Mijatovic.
Þjálfarinn segir - Slobodan Milisic
„Spáin kemur mér í sjálfu sér ekki á óvart. Hluti af hópnum í vetur hefur verið hér og aðrir fyrir sunnan og vorum við mikið að spila á strákum sem voru heima fyrir norðan og náðum við aldrei almennilega fullum hóp eins og við hefðum viljað. En við erum búnir að styrkja okkur og bæta í mannskapinn undanfarið og erum klárir fyrir sumarið. Þessi spá er fín fyrir okkur og eflir okkur í að afsanna hana og vera í toppbaráttunni. Markmiðið verður að taka einn leik í einu og fara í hvern einasta af þeim til að vinna og síðan sjáum við hversu langt það tekur okkur. Ég held að flest liðin í deildinni séu svipuð, það koma líklega tímabil í sumar þar sem eitthver lið virðast ætla stinga hin af en heilt yfir held ég að þetta verði jafnt mót."
Athugasemdir
banner
banner