Cunha orðaður við þrjú félög - Garnacho til Chelsea? - Sjö á óskalistum Amorim - Hvað verður um Rashford? - Chelsea vill risaupphæð
   þri 09. maí 2017 17:30
Fótbolti.net
Spá þjálfara í 3. deild karla: 7-10. sæti
Reynismönnum er spáð 7. sætinu í sumar.
Reynismönnum er spáð 7. sætinu í sumar.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Hjörleifur Þórðarson fyrirliði Vængja Júpíters.
Hjörleifur Þórðarson fyrirliði Vængja Júpíters.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Sandor Matus verður í markinu hjá Dalvík/Reyni.
Sandor Matus verður í markinu hjá Dalvík/Reyni.
Mynd: Fótbolti.net - Sævar Geir Sigurjónsson
Berserkir unnu 4. deildina í fyrra.
Berserkir unnu 4. deildina í fyrra.
Mynd: Þorsteinn Ólafs
Keppni í 3. deild karla hefst á föstudaginn. Fótbolti.net fékk þjálfarana í deildinni til að spá fyrir um lokastöðuna.

Hver þjálfari skilaði inn spá 1-9 og sleppti sínu liði. Hér að neðan má sjá liðin sem enduðu í 7-10. sæti í spánni en niðurstaðan í heild sinni birtist síðar í vikunni.

7. Reynir Sandgerði 37 stig
Sæti í fyrra: 6. sæti
Veturinn var erfiður í Sandgerði og Reynismenn þurftu meðal annars að gefa leik í Lengjubikarnum í mars vegna manneklu. Unnið hefur verið að því að myna leikmannahóp undanfarnar vikur og meðal annars komu þrír erlendir leikmenn til félagsins. Mikið mun mæða á þeim hjá Reynismönnum í sumar. Mjög margir sterkir póstar eru horfnir á braut frá því í fyrra og lítið má út af bregða í sumar ef Sandgerðingar ætla ekki að sogast niður í fallbaráttuna.
Lykilmenn: Devonte Daryll Delroy Small, Sveinn Vilhjálmsson, Þorsteinn Þorsteinsson.
Þjálfarinn segir - Hannes Jón Jónsson
„Þetta kemur mér kannski ekkert svo mikið á óvart. Okkur hefur ekki gengið vel á undirbúningstímabilinu og miklar breytingar hafa orðið á leikmannahópnum hjá okkur frá síðasta tímabili. Markmiðið er alltaf sett hátt í Sandgerði en í ár erum við með mikið af nýjum andlitum í hópnum hjá okkur og mun það taka einhvern tíma að móta nýtt lið. Ég held að 3. deildin í ár verði mjög jöfn og spennandi, það eru mörg lið sem gera tilkall til efstu sætana."

8. Vængir Júpíters 35 stig
Sæti í fyrra: 7. sæti í 3. deild
Grafarvogsliðið kom með látum inn í 3. deildina í fyrra og virtist ætla að blanda sér í toppbaráttuna eftir öfluga byrjun. Vængirnir héldu hins vegar ekki flugi og niðurstaðan varð 7. sæti. Gengi Vængjanna á undirbúningstímabilinu gefur ástæðu til bjartsýni en liðið fór alla leið í undanúrslit í B-deild Lengjubikarsins. Vængir unnu meðal annars Vestra og Sindra úr 2. deild á leið sinni í úrslitaleikinn. Ólíkt mörgum öðrum liðum í deildinni þá eru Vængir hins vegar ekki að fá liðsstyrk erlendis frá rétt fyrir mót. Ekki er því einungis hægt að dæma liðið út frá góðu gengi í vetur. Vængirnir setja stefnuna á toppbaráttuna í sumar en ef það á að ganga þá verður liði að ná meiri stöðugleika yfir allt tímabilið.
Lykilmenn: Hjörleifur Þórðarson, Kolbeinn Kristinsson, Marinó Þór Jakobsson.
Þjálfarinn segir - Arnar Páll Garðarsson
„Við lentum sæti ofar í fyrra en miðað við undirbúningstímabilið þá bjóst ég við að menn myndu spá okkur ofar. Markmið okkar er klárt í sumar, við ætlum okkur upp. Deildin í ár ætti að vera meira spennandi en í fyrra þar sem liðin eru mun jafnari heldur en í fyrra."

9. Dalvík/Reynir 33 stig
Sæti í fyrra: 8. sæti í 3. deild
Eftir fall úr 2. deild þá fór Dalvík/Reynir beint í fallbaráttuna í 3. deildinni í fyrra. Þjálfaraskipti urðu síðastliðið haust þegar Atli Már Rúnarsson tók við af nafna sínum Atla Sveini Þórarinssyni. Atli Már gerði góða hluti með Dalvík/Reyni 2010 og 2011 en hann fór með liðið upp úr 3. deildinni. Markmið hans er að rífa Dalvík/Reyni úr botnbaráttunni. Kjarninn í leikmannahópnum eru ungir leikmenn frá Dalvík og Akureyri auk þess sem reynsluboltinn Sandor Matus verður í markinu. Sandor hefur gífurlega reynslu og hann gæti gefið Dalvík/Reyni mikið. Árangurinn í Lengjubikarnum var fínn og Dalvík/Reynir ætti að geta haldið velli í 3. deildinni ef liðið spilar áfram eins og þar.
Lykilmenn:Kristján Freyr Óðinsson, Sandor Matus, Steinar Logi Þórðarsson.
Aðstoðarþjálfarinn segir - Jóhann Már Kristinsson
„Ég tel mjög lítið bera á milli liða í þessari deild og einhverjum þarf að spá 9.sæti og það snertir okkur ekki nema að því leiti að hvetja okkur áfram og sjá til þess að þessi spá standist ekki. Eins og vanalega eru mörg lið að mæta til leiks sem algjörlega óþekkt stærð, miklar hræringar í leikmannahópum milli ára, og því nánast ómögulegt að segja til um hvernig þetta muni spilast. Markmiðið í sumar er auðvitað klassísk klisja, að gera betur en í fyrra, þar sem við drógumst í fallbaráttu og björguðum okkur í lokin, það var ekki stefnan þá og ætlum að gera betur í ár."

10. Berserkir 17 stig
Sæti í fyrra: 1. sæti í 4. deild
Berserkjum er afgerandi spáð í neðsta sæti í spá þjálfara í 3. deildinni. Eftir að Berserkir komust upp úr 4. deildinni í fyrra urðu miklar breytingar á hópnum. Leikmenn fóru erlendis í nám á meðan aðrir duttu út. Leikmannahópurinn hefur ekki verið stór og öflugur í vetur en það horfir þó til aðeins betri vegar nú á vordögum. Leikmenn sem voru með liðinu í fyrra hafa verið að snúa aftur auk þess sem Berserkir hafa fengið liðsstyrk. Berserkir voru í 3. deildinni árið 2014 og 2015 og þá var heimavöllur liðsins í Fossvoginum aðalsmerki liðsins. Illa gekk í útileikjunum og ljóst er að Berserkir þurfa að moka inn stigum í Berserkjahrauni í sumar ef fall á ekki að verða niðurstaðan.
Lykilmenn: Gunnar Jökull Johns, Karel Sigurðsson, Kjartan Dige Baldursson.

Þjálfarinn segir - Vilhjálmur Rúnarsson
„Spáin kemur ekki á óvart miðað við úrslit leikja á undirbúningstímabilinu. Markmið Berserkja verður klárlega að vinna deildina. Ég tel líklegt að deildin verði tvískipt. Í efri hlutanum verða liðin sem leggja töluverðan pening í reksturinn og moka erlendum atvinnumönnum í land og í neðri hlutanum liðin sem eru rekinn af blóði, svita og ástríðu."
Athugasemdir
banner
banner
banner