Sancho, Sesko, Mac Allister, Ten Hag, Raya og fleiri góðir koma við sögu
   fös 10. maí 2024 17:10
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
„Hann er í raun búinn að benda þeim á þennan mann fyrir fjórum árum"
Arne Slot.
Arne Slot.
Mynd: EPA
Liverpool fagnar marki.
Liverpool fagnar marki.
Mynd: Getty Images
Klopp er að hætta eftir tímabilið.
Klopp er að hætta eftir tímabilið.
Mynd: Getty Images
Slot er áhugaverður kostur fyrir Liverpool.
Slot er áhugaverður kostur fyrir Liverpool.
Mynd: EPA
Það verður fróðlegt að fylgjast með Liverpool þegar nýr stjóri mætir á svæðið.
Það verður fróðlegt að fylgjast með Liverpool þegar nýr stjóri mætir á svæðið.
Mynd: Getty Images
„Það hefði alltaf verið ákveðin áhætta með öllum þjálfurum, en þetta er sérstaklega mikil áhætta þar sem við vitum ekki hvar við höfum hollensku deildina. Mér finnst ódýrt að benda bara á Erik ten Hag og segja að þess vegna eigi ekki að ráða þjálfara úr hollensku deildinni," sagði Kristján Atli Ragnarsson, harður stuðningsmaður Liverpool, þegar hann ræddi um verðandi stjóra liðsins, Arne Slot, í útvarpsþættinum Fótbolta.net síðasta laugardag.

„Það hafa flottir stjórar frá Hollandi farið í stærri deildir og staðið sig vel. Ég er ekki tilbúinn að kvitta endilega upp á það að Ten Hag sé vitleysingur þó svo að þetta hafi farið illa hjá United," sagði Kristján Atli jafnframt.

Slot mun stíga í þau stóru fótspor sem Jurgen Klopp skilur eftir sig í sumar.

Slot er 45 ára Hollendingur sem hefur þjálfað Feyenoord frá 2021 og gert frábæra hluti með liðið. Feyenoord vann hollensku deildina undir hans stjórn í fyrra og hampaði liðið bikarnum í ár.

Ráðningin á honum er frekar óvænt en Xabi Alonso og Ruben Amorim voru sterklega orðaðir við starfið þegar Klopp tilkynnti að hann myndi hætta. Nafn Slot kom ekki mikið inn í umræðuna fyrr en fyrir um tveimur vikum síðan.

Áhrif Moneyball kóngsins
Kristján Atli hefur á síðustu dögum reynt að kynna sér Slot betur, manninn sem er að fara að taka við Liverpool. Hann komst að því að Billy Beane, maðurinn á bak við Moneyball hugmyndafræðina úr samnefndri bók og kvikmynd, eigi mögulega ákveðinn þátt í þessari ráðningu.

Beane fékk ekki úr miklu fjármagni að ráða hjá Oakland A's í bandaríska hafnaboltanum þegar hann fékk þar verkefni að smíða samkeppnishæft lið. Hann notaði ákveðna tölfræði í að finna vanmetna leikmenn sem kostuðu ekki mikinn pening. Honum tókst að búa til gott lið sem fór langt.

„Það er sem sagt þannig að Billy Beane, sem FSG (eigendur Liverpool) reyndu að fá til Boston Red Sox en tókst ekki - var ráðgjafi hjá Liverpool þegar FSG keypti Liverpool. Hann var sá sem mælti með því að þeir réðu Damien Comolli sem yfirmann fótboltamála veturinn 2010/11. Hann var að fylgjast með fótbolta í Evrópu og hann er búinn að vera horfa þangað yfir. Hann ætlaði á tímabili að fjárfesta í Liverpool en það varð ekkert úr því. Hann fjárfesti í hollenska boltanum í staðinn og er hluti af eigendahópi sem fjárfesti í AZ Alkmaar," sagði Kristján en það er ekki amalegt ef Billy Beane mælir með þér.

„Það er þarna leikmaður sem var - eins og Klopp - miðlungsleikmaður og hann heitir Arne Slot. Hann var enginn Guardiola, Arteta eða Alonso. Svo hættir hann að spila og fer beint í þjálfunina. Hann þjálfar fyrst hjá Zwolle sem er svona hans lið, sem hann spilaði lengst fyrir. Hann er síðar ráðinn til AZ þar sem hann gerir stórgóða hluti."

„Í Covid-stoppinu komast þeir að því að hann er að tala við Feyenoord og þeim hjá Alkmaar er mjög illa við Feyenoord. Þeir ráku hann bara þó hann hafi verið búinn að standa sig mjög vel. Billy Beane þekkir John Henry og eigendur Liverpool mjög vel. Hann er í raun búinn að benda þeim á þennan mann sem er búinn að standa sig mjög vel hjá Alkmaar fyrir fjórum árum síðan. Þetta var enginn blaðamaður búinn að þefa uppi fyrr en þetta kemur eins og þruma úr heiðskíru lofti núna fyrir stuttu," sagði Kristján Atli.

Sama leikkerfi en aðeins öðruvísi áherslur
Slot spilar svipað leikkerfi og Jurgen Klopp, núverandi stjóri Liverpool, en áherslur eru aðeins öðruvísi.

„Þetta virðist vera mjög áhugaverður karakter. Hann talar betri ensku en Klopp og hann virðist mjög léttur. Hlær mikið og grínast. Hann virðist hins vegar ná að komast undir húðina á fólki líka. Jose Mourinho var brjálaður út í hann eftir úrslitaleik Sambandsdeildarinnar og öskraði á hann í göngunum eftir leik," segir Kristján Atli.

„Það eru áherslubreytingar miðað við það sem maður les. Hann spilar í grunninn sama leikkerfi og Klopp. Liverpool horfir í það, svo það þurfi ekki gera of miklar breytingar á leikmannahópnum. Hann spilar ekki eins og Klopp, vill meira halda boltanum og stýra leiknum. Hann tekur það meira frá Guardiola og annað."

„Í grunninn virðist það vera leiðarljós í þessari ráðningu - allavega stór þáttur - að þeir sjá möguleika á áframhaldi. Þeir þurfi ekki að fara í einhverjar gagngerar breytingar," sagði Kristján en hann segist hvorki spenntur né óspenntur fyrir þessari ráðningu. „Mér líst ekkert á hann, hvorki vel né illa."

Hægt er að hlusta á útvarpsþáttinn þar sem mikið var rætt um Slot í spilaranum hér fyrir neðan.


Útvarpsþátturinn - Besta, Lengjan og Arne Slot skýrsla
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner