Sancho, Sesko, Mac Allister, Ten Hag, Raya og fleiri góðir koma við sögu
   fös 10. maí 2024 09:00
Brynjar Ingi Erluson
Stoltur af strákunum - „Ár síðan ég var rekinn frá B-deildarliði“
Daniele De Rossi
Daniele De Rossi
Mynd: EPA
Daniele De Rossi, þjálfari AS Roma á Ítalíu, segir að hann og leikmennirnir geta gengið stoltir frá borði eftir að hafa dottið úr leik í undanúrslitum Evrópudeildarinnar í gær.

Roma-liðið hefur spilað glimrandi fótbolta síðan De Rossi tók við liðinu af Jose Mourinho í byrjun árs.

Það er í harðri baráttu um Meistaradeildarsæti og komst þá alla leið í undanúrslit Evrópudeildarinnar.

Því miður fyrir Roma mætti það heitasta liði Evrópu. Hlutirnir litu ágætlega út þegar stundarfjórðungur var eftir en Roma var þá með 2-0 forystu og á leið í framlengingu.

Einstaklingsmistök komu Leverkusen aftur inn í leikinn og fór það svo að þýska liðið gerði annað mark sitt í uppbótartíma og tryggði sæti sitt í úrslitaleikinn.

„Fyrir einu ári síðan var ég rekinn frá ítölsku félagi í næst efstu deild. Í dag get ég verið stoltur af liði mínu,“ sagði De Rossi.

„Við gerðum frábærlega og skildum líf okkar og sálir eftir á vellinum. Þetta særir ótrúlega, en ég er að læra eitthvað á hverjum degi hjá Roma. Ég vil óska Bayer Leverkusen til hamingju,“ sagði ítalski þjálfarinn.

Þessa stundina er Roma í 6. sæti Seríu A þegar þrír leikir eru eftir en það er ekki langt í Meistaradeildarsæti. Atalanta er í sætinu fyrir ofan með jafnmörg stig, en á að vísu leik inni.

Um helgina mætast Atalanta og Roma í Bergamó. Tap þar myndi svo gott sem gera út um vonir Roma á að komast í Meistaradeild Evrópu.
Athugasemdir
banner
banner