Mbeumo, Wirtz, Diomande, Quenda, Nypan, Van Nistelrooy, Cherki og fleiri góðir í slúðri dagsins
banner
   fim 12. janúar 2017 22:35
Magnús Már Einarsson
Viðar ekki á förum: „Fjölmiðlar að reyna að búa til frétt"
Viðar í leik með Maccabi í Evrópudeildinni.
Viðar í leik með Maccabi í Evrópudeildinni.
Mynd: Getty Images
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Viðar Örn Kjartansson segir ekkert til í þeim sögusögnum að hann sé á förum frá Maccabi Tel Aviv í þessum mánuði eins og fjölmiðlar í Ísrael og Svíþjóð greindu frá í kvöld.

Viðar kom til Maccabi Tel Aviv frá Malmö síðastliðið sumar en í kvöld sögðu fjölmiðlar ytra frá því að félagið vilji selja Viðar núna í janúar þar sem menn þar á bæ séu ekki ánægðir með frammistöðu framherjans á tímabilinu. Viðar segir þetta alls ekki rétt og að hann sé ekki á förum.

„Nei langt því frá. Mér líður mjög vel hérna og reikna með að vera hérna lengi," sagði Viðar við Fótbolta.net í kvöld aðspurður hvort hann sé á förum.

„Það náðist mynd af mér á spjalli við umboðsmann fyrir nokkrum dögum og korteri seinna var það komið beint í fjölmiðla. Úr því varð til frétt um að ég væri óánægður hér og vildi fara og þeir fullyrtu það að ég væri á leiðinni til Belgíu. Þannig þetta voru bara fjölmiðlar að reyna að búa til frétt."

„Þeir hjá liðinu hafa tjáð mér það að þeir hafi mikla trú á mér og séu ánægðir með mig þannig þetta er allt saman rangt."


Viðar skoraði í 4-1 sigri á Hapoel Ra'anana í gærkvöldi en það var sjöunda mark hans í ísraelsku deildinni. Er Viðar sáttur með frammistöðu sína á tímabilinu?

„Ég er þokkalega ánægður þó maður sé aldrei alveg sáttur. Það byrjaði mjög vel hjá mér að mínu mati en svo kom smá lægð og bæði ég og liðið spiluðum ekki nógu vel. Undanfarið hafa hlutirnir hins vegar verið að smella hjá mér og liðinu líka," sagði Viðar.

Maccabi Tel Aviv er í öðru sæti í ísraelsku deildinni, sjö stigum á eftir toppliði Hapoel Be'er Sheva. Shota Arveladze, þjálfari Maccabi Tel Aviv, var rekinn á dögunum en Jordi Cruyff, yfirmaður fótboltamála, stýrir liðinu tímabundið þessa dagana.
Athugasemdir
banner
banner
banner