Anthony Gordon var líflegur í 3-2 tapi Newcastle United gegn Manchester United á Old Trafford fyrr í kvöld.
Gordon skoraði jöfnunarmark Newcastle í leiknum og átti líklega að fá vítaspyrnu þegar Sofyan Amrabat sparkaði hann niður innan vítateigs á 38. mínútu.
15.05.2024 22:14
Sjáðu atvikið: Átti Newcastle að fá vítaspyrnu á Old Trafford?
Gordon gaf kost á sér í viðtal að leikslokum og kvartaði meðal annars undan dómgæslunni.
„Við höfum verið lélegir varnarlega á útivöllum og það er eitthvað sem við þurfum að laga, en mér fannst við spila fínan leik í kvöld. Við sköpuðum mikið af færum en nýttum þau ekki. Við getum engum kennt um nema sjálfum okkur," sagði Gordon eftir lokaflautið. „Þetta var ekki dagurinn okkar."
Amrabat sparkaði nokkuð fast í ökklann á Gordon sem var á fleygiferð, en engin vítaspyrna dæmd vegna þess að Casemiro vann boltann með góðri tæklingu.
„Mér er mjög illt í ökklanum, ég veit ekki hversu slæmur hann verður á morgun. Ég er búinn að sjá þetta atvik aftur og þetta er augljós vítaspyrna. Mér finnst ekkert að því að dómarinn taki ranga ákvörðun á vellinum en ég skil ekki tilganginn með VAR.
„Hann fer með fótinn niður hásinina mína og ýtir í bakið á mér um leið. Ég vissi strax að þetta yrði vítaspyrna og þess vegna bað ég ekki einu sinni um hana. Ég ætlaði bara að bíða eftir að VAR myndi skoða þetta og dæma víti.
„Hver er tilgangurinn með VAR? Það þarf annað hvort að gera VAR-kerfið betra eða henda því. Þetta er ekki flóknara heldur en það.
„Ég er persónulega hrifinn af hugmyndinni á bakvið VAR og ég veit að þetta ætti að virka, en það eru gerð alltof mörg mannleg mistök."
Athugasemdir