Rashford gæti farið frá Man Utd í janúar - Davies hefur áhuga á að fara til Liverpool - Fer Kobel til Chelsea?
   mið 16. maí 2018 12:43
Elvar Geir Magnússon
Rúnar Kristins: Vonbrigði að fá ekki Guðjón en ekkert sem við getum sagt
Rúnar Kristinsson, þjálfari KR.
Rúnar Kristinsson, þjálfari KR.
Mynd: Fótbolti.net - Tomasz Kolodziejski
Skúli Jón spilar ekki fyrr en eftir HM hlé.
Skúli Jón spilar ekki fyrr en eftir HM hlé.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
KR-ingar eru að búa sig undir stórleik gegn Breiðabliki í 4. umferð Pepsi-deildarinnar annað kvöld. Þetta verður fyrsti heimaleikur KR-inga á þessu tímabili.

„Það er frábært að fá loks heimaleik, það er gott að geta aftur átt möguleika á að spila heima. Verst að veðrið er aðeins að stríða okkur og spáin fyrir morgundaginn ekki sérstök," segir Rúnar Kristinsson, þjálfari KR, við Fótbolta.net en spáð er roki og rigningu.

Hvernig er ástandið annars á vellinum?

„Völlurinn er svona „la la", hann er allt í lagi en ekki fullkomlega sléttur. Hann á enn eitthvað í það að vera eins og hann er bestur á sumrin."

KR er með fjögur stig en Breiðablik er eina liðið sem er með fullt hús, níu stig að loknum fyrstu umferðunum.

„Þeir eru með hörkugott lið og hafa verið frábærir í upphafi sumars. Þetta verður hörkuleikur og alvöru barátta," segir Rúnar.

Skúli búinn að vera okkar besti maður
Varnarmaðurinn Skúli Jón Friðgeirsson þurfti að fara í aðgerð eftir að hafa meiðst gegn Grindavík og verður ekki með næstu vikurnar.

„Það er gríðarlegt skarð í þennan leikmannahóp. Skúli er búinn að vera okkar besti maður í fyrstu þremur leikjunum. Hann er einn sá reynslumesti í okkar liði og mikið af spilinu fer í gegnum hann."

„Sem betur fer eigum við marga góða miðverði og varnarmenn í okkar röðum. Nú er bara barátta hjá þeim að taka stöðuna hans Skúla og skila henni vel af sér. Skúli er væntanlega frá fram yfir HM pásuna í júlí. Ég hef samt marga kosti," segir Rúnar.

Arnór Sveinn Aðalsteinsson, Gunnar Þór Gunnarsson og Aron Bjarki Jósepsson byrjuðu allir á bekknum gegn Grindavík en þeir geta spilað í hjarta varnarinnar.

„Fyrir utan Skúla eru allir heilir og menn í góðu standi."

Óska Guðjóni góðs gengis
KR reyndi að fá Guðjón Pétur Lýðsson á gluggadeginum í gær en tilboðinu var ekki tekið og hann verður áfram í Val.

„Það eru alltaf vonbrigði ef þú reynir að fá leikmann en færð hann ekki. Við vildum fá hann en málin þróuðust svona og það er ekki hægt að segja neitt við því. Ég óska honum bara góðs gengis og nú er bara að einbeita sér að því sem við erum með," segir Rúnar.

Hann segir að Tansaníumaðurinn Adolf Bitegeko ætti að fá leikheimild á næstu dögum. Þessi 19 ára miðjumaður er að klára pappírsmál sín og fær nokkra daga til þess þrátt fyrir að glugginn sé lokaður.

fimmtudagur 17. maí
18:00 Fylkir-ÍBV (Egilshöll)
18:00 FH-KA (Kaplakrikavöllur)
19:15 Keflavík-Fjölnir (Nettóvöllurinn)
19:15 KR-Breiðablik (Alvogenvöllurinn)

föstudagur 18. maí
19:15 Valur-Stjarnan (Origo völlurinn)
19:15 Víkingur R.-Grindavík (Víkingsvöllur)
Stöðutaflan
  L U J T ms: mf: mun Stig
0 0 0 0 0 0 0 0 0
Athugasemdir
banner
banner