Man Utd gæti átt von á tilboði frá Napoli í Alejandro Garnacho - Bayern München vill Mainoo - Man City til í að hleypa Walker frítt
   fim 23. mars 2017 21:40
Magnús Már Einarsson
Arnar Grétars: Skelfilegt fyrir knattspyrnuna
Arnar Grétarsson.
Arnar Grétarsson.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Varamenn Blika á bekknum í kvöld.
Varamenn Blika á bekknum í kvöld.
Mynd: Twitter - Breiðablik
„Mér finnst þetta skelfilegt fyrir knattspyrnuna. Við og Fram erum að leita að góðum leikjum við góðar aðstæður," sagði Arnar Grétarsson, þjálfari Breiðabliks, við Fótbolta.net eftir að leikur liðsins gegn Fram í Lengjubikarnum var flautaður af á 70. mínútu í kvöld.

Bæði félög óskuðu eftir því í vikunni að færa leikinn inn í Fífuna og spila þar. KSÍ hafnaði þeirri beiðni.

„Bæði félög börðust fyrir því að fá leikinn inn. Þetta átti að vera sjónvarpsleikur en Stöð 2 hætti við að sýna hann út af veðrinu og af því að aðstæður voru ekki góðar," sagði Arnar en hann skildi vel ákvörðun Gunnars Jarls Jónssonar dómara að flauta leikinn af.

„Þetta var enginn fótbolti. Það var erfitt að standa. Það var svo brjáluð snjókoma. Það var eina í stöðunni að flauta af."

„Það er líka meiðslahætta í þessu. Framarar hafa verið að missa menn í meiðsli og Ási (Ásmundur Arnarsson, þjálfari Fram) vildi ekki spila í þessum kulda. Hann vildi fara inn. Það væri ekki gott ef Fram eða við myndum missa 1-2 menn í meiðsli út af vitleysu. Þetta er ekki gott fyrir knattspyrnuna."


Á dögunum lýsti Ólafur Jóhannesson, þjálfari Vals, yfir óánægu sinni þegar KSÍ leyfði Val og HK ekki að færa leik úr Kórnum á Valsvöll með tveggja daga fyrirvara. Ólafur Jóhannesson, sagði ástæðuna vera þá að búið er að setja stuðla á leikinn á erlendum veðmálasíðum.

Aðspurður hvort erlendar veðmálasíður eigi einhvern þátt í þeirri ákvörðun að ekki er leyfilegt að skipta um leikstað með stuttum fyrirvara sagði Birkir Sveinsson, mótastjóri KSÍ á dögunum: „Það gerir það að því leyti að við megum ekki hringla með trúverðugleika á íslenskri knattspyrnu með því að víxla á heimaleik með svona stuttum fyrirvara."

Vill sjá KSÍ vinna fyrir félögin
Arnar segir að KSÍ verði að leyfa færslu á leikjum með styttri fyrirvara þegar veðrið spilar inn í eins og í dag.

„Það virðist spila eitthvað hlutverk með veðmálasíður að það sé ekki gott að færa leiki. Ég skil að það sé ekki hægt að hringla með þetta í Pepsi-deildinni eða bikarnum en núna erum við í mars á Íslandi og það er geðbilað veður. Þá finnst mér að KSÍ þurfi að vinna fyrir félögin."

„Þeir buðu Fram að spila leikinn í Egilshöll ef það væri hægt að fara þangað en það var ekki hægt. Maður spyr sig af hverju Egilshöll, en ekki Fífan?" sagði Arnar.

Breiðablik var 1-0 yfir þegar flautað var af á 70. mínútu í kvöld en ekki er ljóst hvort leikurinn verði kláraður eða hvort úrslitin verði látin standa.

Sjá einnig:
Myndbönd: Leikur Fram og Breiðabliks flautaður af
Athugasemdir
banner
banner