Real Madrid sýnir Mac Allister áhuga - Greenwood eftirsóttur - Mourinho til Tyrklands? - Slot vill fá Silva
banner
   fös 26. janúar 2024 16:30
Elvar Geir Magnússon
Líkir Hákoni við Courtois - „Enski boltinn hentar honum vel“
Hákon var formlega kynntur sem leikmaður Brentford í dag.
Hákon var formlega kynntur sem leikmaður Brentford í dag.
Mynd: Brentford
Hákon í landsleik með Íslandi.
Hákon í landsleik með Íslandi.
Mynd: Jónína Guðbjörg Guðbjartsdóttir
Courtois er markvörður Real Madrid.
Courtois er markvörður Real Madrid.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Sænski íþróttafréttamaðurinn Adam Fröberg hjá Fotbollskanalen tjáir sig um Hákon Rafn Valdimarsson í viðtali við heimasíðu Brentford. Íslenski landsliðsmarkvörðurinn er kominn til enska úrvalsdeildarfélagsins frá Elfsborg í Svíþjóð.

Hákon var markvörður ársins í sænska boltanum á síðasta ári, hélt oftar hreinu en nokkur annar í deildinni og var með hæstu hlutfallsmarkvörsluna. Hjá Brentford mun hann berjast við Mark Flekken og Thomas Strakosha um byrjunarliðssæti.

„Fyrst var ég nokkuð hissa þegar sagt var að Brentford væri að fá hann, búið var að greina frá því að hann væri nálægt því að fara til Aston Villa. Ég tel að þetta sé gott skref fyrir hann og að enska úrvalsdeildin henti honum vel. Hann er með mikla áru, líkamlega sterkur og lætur í sér heyra auk þess að vera góður í fótunum,“ segir Fröberg.

„Þetta er stórt skref, það er ekki oft sem leikmaður úr sænska boltanum, hvað þá markvörður, fer beint í ensku úrvasdeildina. Þegar hann er búinn að aðlagast held ég að þetta sé mjög gott skref fyrir hann."

Fröberg segir Hákon afskaplega góðan í loftinu og ríkjandi í eigin vítateig. Þá hjálpi hann varnarlínunni fyrir framan sig með því að vera stjórnandi og láta í sér heyra.

„Stundum reyndi ekki mikið á lágvaxnari varnarmenn Elfsborg í teignum því Hákon hirti allt saman. Hann er mjög heilsteyptur markvörður. Hann er mjög mikill atvinnumaður og hugsar mjög vel um sig svo hann er í góðu standi," segir Fröberg.

Hann segir að Hákon hafi ekki spilað leik síðan í nóvember, þegar sænsku deildinni lauk, en það er reyndar ekki rétt því Hákon lék tvo vináttulandsleiki með Ísland fyrr í þessum mánuði.

Fröberg telur Brentford hafa gert góð kaup og hann gæti orðið byrjunarliðsmaður fyrir félagið í framtíðinni. En ef hann getur líkt Hákoni við einhvern markvörð?

„Þetta er erfið spurning. Þrátt fyrir að það sé mikill munur á getu þeirra sem stendur þá er hann svipaður Thibault Courtois."

Hefur hann það sem þarf til að verða úrvalsdeildarmarkvörður?

„Ég tel það klárlega. Ef fréttirnar eru réttar þá verður hann dýrasti leikmaður sem seldur hefur verið frá Svíþjóð og það segir sitt um gæði hans."


Athugasemdir
banner
banner
banner