þri 02. ágúst 2022 21:09
Brynjar Ingi Erluson
Ásgeir yfirgaf völlinn á hækjum - „Þetta er bara partur af fótbolta því miður"
Ásgeir Sigurgeirsson í leik með KA
Ásgeir Sigurgeirsson í leik með KA
Mynd: Fótbolti.net - Sævar Geir Sigurjónsson
Ásgeir Sigurgeirsson, fyrirliði KA, yfirgaf Greifavöll á hækjum eftir 1-0 tap liðsins fyrir KR í Bestu deildinni í kvöld.

Lestu um leikinn: KA 0 -  1 KR

KA-maðurinn fór meiddur af velli á 11. mínútu eftir hornspyrnu og miðað við viðbrögð hans virtist þetta af alvarlegum toga.

Ásgeir hélt um hnéð og var síðan studdur af velli og kom Hallgrímur Mar Steingrímsson inn í hans stað.

Eftir leik sást Ásgeir yfirgefa völlinn á hækjum og gæti það gefið vísbendingu um að hann gæti verið frá í einhvern tíma.

Tæp fjögur ár eru síðan Ásgeir sleit krossband í leik gegn Val en það tók hann tæpa níu mánuði að snúa aftur á völlinn eftir þau meiðsli.

„Maður er alltaf hræddur þegar þetta er hné, þetta er bara partur af fótbolta því miður," sagði Arnar Grétarsson í viðtali við Fótbolta.net í kvöld.

Ásgeir hefur skorað eitt mark og lagt upp tvö í tíu leikjum í Bestu deildinni í sumar en KA situr í 3. sæti deildarinnar með 27 stig þegar fimmtán leikir eru búnir af mótinu.
Athugasemdir
banner
banner
banner