
Snoop Dogg er mjög hrifinn af íþróttum og er þekktur fyrir að mæta á körfuboltaleiki hjá Los Angeles Lakers, auk þess að vera iðinn við að kíkja á kappleiki í NHL og NFL deildunum meðal annars.
Félagaskiptasérfræðingurinn Fabrizio Romano greinir frá því að Bandaríkjamaðurinn fjölhæfi Snoop Dogg, sem er þekktastur fyrir tónlistarferilinn sinn, sé að bætast við eigendahóp velska fótboltafélagsins Swansea City.
Swansea leikur í Championship deildinni og kynnti í vor að króatíska goðsögnin Luka Modric hefði bæst við eigendahóp félagsins með kaupum á hlut í því.
Snoop Dogg er heimsfrægur og með rétt tæplega 200 milljónir fylgjenda á samfélagsmiðlum. Þar af eru tæplega 90 milljónir sem fylgja honum á Instagram.
Andy Coleman, Brett Cravatt og Jason Cohen, meirihlutaeigendur í Swansea, hafa verið að laða nýja fjárfesta að. Þeir eru spenntir fyrir að fá frægt fólk til liðs við sig í tilraun til að auka umfjöllun um liðið og stækka áhorfendahópinn.
Þeir vonast til að geta fjárfest í byrjunarliðinu með peningum sem fást frá fjárfestum í tilraun til að komast aftur upp í ensku úrvalsdeildina eftir langa fjarveru. Swansea lék síðast í deild þeirra bestu tímabilið 2017-18 og féll eftir að Gylfi Þór Sigurðsson var seldur til Everton.
Athugasemdir