Man Utd líklegast að fá Olise - Man Utd til í að hlusta á tilboð í Rashford - Juve leiðir kapphlaupið um Greenwood
   fim 01. mars 2018 16:43
Elvar Geir Magnússon
Heimild: Akraborgin 
Hrannar Björn: Kjaftæði að við höfum verið með veðmálasvindl
Hrannar var fyrirliði Völsungs 2013.
Hrannar var fyrirliði Völsungs 2013.
Mynd: Rafnar Orri Gunnarsson
Ólafur Jóhannesson.
Ólafur Jóhannesson.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Ólafur Jóhannesson sagði í hlaðvarpsþættinum Návígi sem birtur var hér á Fótbolta.net í dag að samið hafi verið um úrslitin í leik Víkings R. og Völsungs í 1. deildinni árið 2013.

Sjá einnig:
Óli Jó: Samið um úrslit hjá Víkingi R. og Völsungi

Víkingar unnu 16-0 og þessi stórsigur gerði það að verkum að liðið komst upp úr deild með betri markatölu en Haukar. Ólafur var þá þjálfari Haukaliðsins.

Hrannar Björn Steingrímsson, núverandi leikmaður KA, var fyrirliði Völsungs í umræddum leik og sagði í viðtali á X977 nú síðdegis að félagar sínir hafi haft samband við sig eftir að viðtalið við Ólaf birtist.

„Þeir segja að Ólafur sé að saka okkur bræður eða Völsunga um veðmálasvindl. Eftir að hafa rætt við nokkra af mínum góðu félögum er þetta grafalvarlegt ef svo má að orði komast. Ég held að flestir skilji þetta þannig og ég er þar á meðal," segir Hrannar en hann og bróðir hans, Guðmundur Óli Steingrímsson, fengu báðir rauða spjaldið í lok fyrri hálfleiks.

„Það er hárrétt hjá þér að það á aldrei undir neinum kringumstæðum að sjást í fótbolta að lið í næst efstu deild tapi 16-0, sama hvaða lið það er og á móti hverjum. Þetta eru glórulaus úrslit. En félagið og liðið voru á glórulausum stað á þessum tíma, það var búið að reka félagið í þrot á miðju sumri."

„Það gerist um mitt sumar að félagið er nánast gjaldþrota. Útlendingar fóru og þjálfarinn líka, það voru bara heimamenn eftir. Hópurinn seinni hluta tímabils hefði verið nálægt því að falla úr 3. deild, liðið var það slakt og í molum. Einhverjir voru gripnir inn því það voru ekki menn til staðar, til dæmis spiluðu fimm markverðir fyrir okkur á tímabilinu. Það er bara kjaftæði að við höfum verið með veðmálasvindl," segir Hrannar í viðtalinu við Akraborgina.

Völsungur vann ekki leik þetta sumarið, gerði tvö jafntefli og endaði með markatöluna 15-85 í 22 leikjum. Hrannar segir að hann hafi ekki fengið viljandi rautt í leiknum gegn Víkingum.

„Ég var fyrirliði á þessum tíma og þegar liðið tapar 16-0 í næst efstu deild í fótbolta og þú færð rautt spjald þá líður manni viðbjóðslega. Svo er heyrt í manni eftir leik og ég látinn vita að við verðum sakaðir um veðmálasvindl. Þá fyrst gerði ég mér grein fyrir að menn fóru að tala um þetta. Umræðan var samt ekki hávær en menn hafa verið duglegir að minna mig á þennan leik, félagar mínir þá í gríni. Það var ekki neitt veðmálatengt í gangi hjá einum einasta leikmanni í Völsungsliðinu. Ég get fullyrt það."

Smelltu hér til að hlusta á viðtalið við Óla Jó í Návígi
Athugasemdir
banner
banner
banner