Allegri orðaður við Man Utd - Modric að framlengja við Real Madrid
   mán 06. maí 2024 09:00
Brynjar Ingi Erluson
Roma mun ekki kaupa Sanches frá PSG
Renato Sanches
Renato Sanches
Mynd: EPA
Sanches var valinn besti ungi leikmaðurinn á EM 2016
Sanches var valinn besti ungi leikmaðurinn á EM 2016
Mynd: Getty Images
Portúgalski miðjumaðurinn Renato Sanches verður ekki áfram í herbúðum Roma eftir þessa leiktíð en félagið tók ákvörðun um að nýta ekki kaupréttinn á honum.

Átta ár eru liðin frá því Sanches var valinn besti ungi leikmaður Evrópumótsins í Frakklandi.

Portúgalinn var þá á mála hjá Benfica en var keyptur til Bayern München eftir mótið.

Sanches var talinn sá allra efnilegasti í Evrópu og var búist við miklu frá honum en hann náði sér aldrei á strik hjá Bayern og var á endanum seldur til Lille.

Þar náði hann að koma ferlinum aftur í gang. Hann varð franskur deildarmeistari tímabilið 2021-2022, sem kom mörgum í opna skjöldu, því Paris Saint-Germain var með lang dýrasta og besta leikmannahópinn í deildinni, en Lille var einfaldlega betra á vellinum og þar var Sanches þeirra mikilvægasti maður.

Um sumarið ákvað PSG að kaupa Sanches í von um að hann myndi færa þeim sömu lukku en það gerði hann ekki. Hann lék með liðinu á síðustu leiktíð og var síðan lánaður til Roma fyrir þetta tímabil.

Sanches hefur aðeins spilað 261 mínútu í 12 leikjum með Roma en meiðsli hafa haldið honum frá vellinum hluta tímabilsins.

Jose Mourinho, sem var þjálfari hans fyrri hluta tímabilsins, gagnrýndi Sanches fyrir að vera alltaf meiddur.

Mourinho er ekki allra og hefur oft á ferlinum tekið slagi við leikmenn. Í leik gegn Bologna í desember setti hann Sanches inn á völlinn en tók þá furðulegu ákvörðun að taka hann af velli átján mínútum síðar og yrti ekki einu sinni á hann er hann gekk af velli.

Mourinho bað Sanches afsökunar á skiptingunni en ákvað síðan að hafa landa sinn ekki í hóp í næsta leik í 2-0 sigri á Napoli.

Fabrizio Romano segir að Roma ætli ekki að nýta kaupréttinn og mun hann því snúa aftur til PSG í sumar. Franska félagið ætlar að losa sig við hann, en það er vonandi að hann nái að koma sér á strik aftur, enda aðeins 26 ára gamall.
Athugasemdir
banner
banner