Smith Rowe og Nelson á förum - Chelsea náði samkomulagi við Aston Villa - Úrvalsdeildarfélög keppast um Abraham - Arsenal vill Nico Williams -...
   fös 17. maí 2024 21:36
Brynjar Ingi Erluson
Mjólkurbikarinn: Framarar unnu baráttuglaða Hafnfirðinga - Valur áfram eftir sigur í Mosó
Viktor Bjarki Daðason skoraði tvö fyrir Fram
Viktor Bjarki Daðason skoraði tvö fyrir Fram
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Már Ægisson gerði eitt í Úlfarsárdalnum
Már Ægisson gerði eitt í Úlfarsárdalnum
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Birkir Már lagði upp öll mörk Vals
Birkir Már lagði upp öll mörk Vals
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Adam Ægir Pálsson skoraði stórbrotið mark
Adam Ægir Pálsson skoraði stórbrotið mark
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Fram og Valur eru komin áfram í 8-liða úrslit Mjólkurbikars karla eftir góða sigra í kvöld.

Fram tryggði sig í kvöld inn í 8-liða úrslit Mjólkurbikars karla með 3-0 sigri á ÍH á Lambhagavellinum í Úlfarsárdal.

ÍH, sem spilar í 3. deild, var betri aðilinn í byrjun leiks. Gestirnir voru baráttuglaðir og náðu að skapa sér nokkur ágætis færi. Stefán Þór Hannesson hafði nóg að gera í markinu hjá Fram.

Brynjar Jónasson átti skalla rétt fram hjá í byrjun leiks áður en Framarar svöruðu með tveimur góðum færum.

Ragnar Darri Daðason átti því næst hörkufæri eftir að Brynjar skallaði boltann niður á hann en Stefán varði vel. Tveimur mínútum síðar var það Kristófer Dan Þórðarson sem komst í úrvalsfæri inn á teig en aftur varði Stefán.

Þremur mínútum síðar vildu ÍH-menn fá vítaspyrnu er Dagur Óli Grétarsson féll í teignum, en fengu ekki. Fram svaraði strax með marki frá Viktori Bjarka Daðasyni.

Haraldur Einar Ásgrímsson kom með boltann inn í teiginn og fóru Viktor og Guðmundur Magnússon í boltann. Viktor fagnaði markinu og var það tilkynnt í hátalarakerfinu að hann ætti það.

Framarar voru með öll völd eftir markið en náðu ekki að bæta við forystuna áður en flautað var til loka fyrri hálfleiks.

Már Ægisson var hins vegar ekki lengi að tvöfalda hana í þeim síðari.

Það var klaufagangur hjá ÍH í því marki. Fram fékk aukaspyrnu á miðjum velli og ákváðu gestirnir að reyna að spila sóknarmenn Framara rangstæða með því að hlaupa út, en þeir gerðu það allir nema Andri Jónasson.

Hann reyndi að hreinsa frá en skallaði í staðinn boltann fyrir á Má sem lyfti boltanum yfir Atla Gunnar Guðmundsson og í netið.

Varamaðurinn Brynjar Ásgeir Guðmundsson var hársbreidd frá því að koma ÍH aftur inn í leikinn á 57. mínútu en tókst á einhvern ótrúlegan hátt að skalla boltann framhjá úr dauðafæri.

Framarar náðu í þriðja markið á þriðju mínútu í uppbótartíma er Viktor Bjarki gerði sitt annað mark, með skalla eftir fyrirgjöf Alex Freys Elíssonar.

Skemmtilegur leikur og geta bæði lið verið nokkuð sátt með frammistöðuna. Það verður hins vegar Fram sem er komið í 8-liða úrslit bikarsins en ÍH er úr leik.

Valur áfram eftir sigur á Aftureldingu

Valur lagði Aftureldingu að velli, 3-1, á Malbikstöðinni að Varmá í kvöld.

Jónatan Ingi Jónsson kom Val á bragðið á 8. mínútu. Birkir Már Sævarsson keyrði upp hægri vænginn, kom boltanum á fjær þar sem Jónatan mætti á ferðinni og hamraði boltanum í markið.

Gestirnir svöruðu tæpum fimmtán mínútum síðar. Hrannar Snær Magnússon fékk boltann vinstra megin við teiginn, tók nokkrar gabbhreyfingar áður en hann lagði boltann fyrir markið og á Andra Frey Jónasson sem skoraði af stuttu færi.

Aron Jóhannsson kom Val aftur í forystu á 32. mínútu. Aftur var það Birkir Már sem flaug upp hægri vænginn, kom með sendinguna inn á Aron sem lét vaða á markið, en boltinn fór af varnarmanni og aftur til hans áður en hann þrumaði boltanum í netið.

Þegar tæpur hálftími var eftir skoraði Adam Ægir Pálsson stórkostlegt mark, sem virkaði eins og fyrirgjöf. Birkir Már var við endalínu á vallarhelmingi Aftureldingar, sendi boltann út á Adam sem stóð við hornið á vítateignum. Hann ætlaði að hlaða í fyrirgjöf en boltinn tók svakalega sveiflu í loftinu og hafnaði efst í hægra horninu. Glæsilegt mark, hvort sem hann var að reyna þetta eða ekki.

Afturelding reyndi að klóra sig aftur inn í leikinn en fór illa með nokkur góð færi. Valur tókst að sigla þessu heim og liðið komið áfram í 8-liða úrslit.


Úrslit og markaskorarar:

Fram 3 - 0 ÍH
1-0 Viktor Bjarki Daðason ('23 )
2-0 Már Ægisson ('48 )
3-0 Viktor Bjarki Daðason ('93 )
Lestu um leikinn

Afturelding 1 - 3 Valur
0-1 Jónatan Ingi Jónsson ('8 )
1-1 Andri Freyr Jónasson ('21 )
1-2 Aron Jóhannsson ('32 )
1-3 Adam Ægir Pálsson ('65 )
Lestu um leikinn
Athugasemdir
banner
banner