Napoli í viðræðum um Garnacho - Villa hafnaði tilboði West Ham í Duran - Vlahovic orðaður við Chelsea
   þri 12. maí 2015 12:00
Elvar Geir Magnússon
Pepsi-deildin
Bestur í 2. umferð: Mínar fyrirmyndir sóttar til Barcelona
Þorri Geir Rúnarsson (Stjarnan)
Þorri í leiknum á Hásteinsvelli.
Þorri í leiknum á Hásteinsvelli.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Þorri skoraði sitt fyrsta mark í Pepsi-deildinni.
Þorri skoraði sitt fyrsta mark í Pepsi-deildinni.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Þorri Geir Rúnarsson skoraði annað mark Íslandsmeistara Stjörnunnar í 2-0 útisigri gegn ÍBV í Pepsi-deildinni á sunnudag. Þessi ungi og öflugi miðjumaður fékk verðskuldað lof fyrir sína frammistöðu og er leikmaður 2. umferðar.

Smelltu hér til að sjá úrvalslið umferðarinnar

„Það er algjör snilld að koma til Eyja og taka þrjú stig, það er alltaf erfitt að koma þarna. Það var virkilega gaman að skora sitt fyrsta mark í Pepsi-deildinni. Þetta var virkilega stór ís sem var brotinn. Það er ekki beint mitt hlutverk að skora mörk en það skemmir ekki fyrir. Þessir bestu miðjumenn eru alltaf með mörk á ferilskránni. Maður reynir að pota einhverjum inn," segir Þorri.

Ætti að vera Frank Lampard
Þegar hann er spurður út í leikmannafyrirmyndir sínar segist hann horfa til Barcelona.

„Miðað við markið þá ætti það að vera Frank Lampard en mínar helstu fyrirmyndir eru sóttar til Barcelona. Xavi og Iniesta eru í algjöru uppáhaldi," segir Þorri en mark hans í Vestmannaeyjum skoraði hann með skoti sem breytti um stefnu.

„Við höfum byrjað þetta mót frekar vel og erum mjög sáttir við byrjunina. Það er sjálfstraust í liðinu og allir til í verkefnið. Þetta lítur bara mjög vel út. Það er virkilega mikil breidd í þessu liði og mikil samkeppni. Ég tala nú ekki um þegar Presturinn, Jói Lax og Atli Jó fara að detta inn. Þá er þetta bara algjört stríð og það er virkilega gott."

Hálfgert stríð
Þorri kom inn í Stjörnuliðið í fyrra þegar Michael Præst fyrirliði meiddist illa. Hann sló heldur betur í gegn. Það styttist í að Præst snúi aftur og eðlilegt að spyrja Þorra hvort hann ætli nokkuð að hleypa fyrirliðanum aftur í stöðuna sem varnarmiðjumaður?

„Maður verður að reyna sitt besta í að halda sinni stöðu. Það verður örugglega einhver samkeppni og hálfgert stríð en allt í góðu gert. Rúnar þjálfari verður bara að ákveða það þegar þar að kemur," segir Þorri.

Fiðringur fyrir hvern leik
Þrátt fyrir að hafa ekki verið lengi í meistaraflokki hefur Þorri spilað ansi stóra leiki fyrir framan fjölda áhorfenda. Þar á meðal gegn Inter og svo úrslitaleikinn um Íslandsmeistaratitilinn. Stóísk ró og yfirvegun einkennir leikstíl Þorra. Verður hann aldrei stressaður?

„Ég fæ fiðring fyrir hvern leik. Síðasta tímabil hefur hjálpað mér mikið varðandi andlegan undirbúning. Ég var fljótur að venjast því mér var hent fljótlega í djúpu laugina á síðasta tímabili. Það voru margir helvíti stórir leikir sem vöndu mann við frekar fljótt. Maður er farinn að venjast því að spila stóra leiki."

Surprise í kvöld
Næsti leikur Stjörnunnar er gegn nýliðum Leiknis á sunnudagskvöld.

„Ég hlakka til að fá Sindra Björnsson og félaga í heimsókn. Það er alltaf gaman að hitta Sindra, skemmtilegur náungi. Þetta verður drulluerfiður leikur. Það er mikil stemning í hópnum hjá Leikni og þeir líta vel út, eru agaðir og skipulagði. Við verðum að finna leiðir við þvi."

Þorri fær pizzuveislu frá Domino's sem leikmaður umferðarinnar og segir það koma sér vel í próflestrinum sem er núna í gangi hjá honum. „Ætli maður detti ekki í Surprise í kvöld," segir Þorri Geir Rúnarsson að lokum.

Fyrri leikmenn umferðarinnar:
1. umferð: Hilmar Árni Halldórsson (Leiknir)
Athugasemdir
banner
banner
banner