Mbeumo, Wirtz, Diomande, Quenda, Nypan, Van Nistelrooy, Cherki og fleiri góðir í slúðri dagsins
   fös 08. maí 2015 12:30
Arnar Daði Arnarsson
Pepsi-deildin
Bestur í 1. umferð: Frábært að fá drauminn uppfylltan
Hilmar Árni Halldórsson (Leiknir)
Hilmar Árni er leikmaður 1. umferðar að mati Fótbolta.net.
Hilmar Árni er leikmaður 1. umferðar að mati Fótbolta.net.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Leiknismenn höfðu ástæða til að fagna eftir sigurinn á Val.
Leiknismenn höfðu ástæða til að fagna eftir sigurinn á Val.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Það var góð stemning hjá Leiknisfólki í stúkunni.
Það var góð stemning hjá Leiknisfólki í stúkunni.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
„Ég er nokkuð ánægður með minn leik. Ég er partur af góðu liði og það var liðsheildin sem skilaði þessum sigri á Val," segir Hilmar Árni Halldórsson miðjumaður Leiknis en hann er leikmaður 1. umferðar í Pepsi-deildinni að mati Fótbolta.net.

„Við mættum til leiks mjög skipulagðir og vorum vel undirbúnir. Freysi og Davíð Snorri voru búnir að kortleggja Valsarana vel fyrir leikinn og undirbúa okkur vel," segir Hilmar Árni en Leiknismenn unnu Val 3-0 í sínum fyrsta leik í efstu deild frá upphafi.

„Þetta hefur verið draumur frá því maður var lítill polli í yngri flokkum Leiknis. Það var því frábært að fá að þennan draum uppfylltan."

„Við hittum á góðan leik og eins og ég segi vorum við vel undirbúnir. Það skiptir miklu máli. Við börðumst vel fyrir hvorn annan og það gekk upp það sem við lögðum upp með."

Yndisleg sending
Hilmar Árni skoraði þriðja mark Leiknis og gulltryggði þar með sigurinn. Markið kom eftir snarpri og hnitmiðri skyndisókn Leiknis.

Ólafur Hrannar Kristjánsson átti frábæra sendingu innfyrir vörn Vals þar sem Hilmar Árni var mættur og kláraði færið vel.

„Þetta var yndisleg sending frá Ólafi Hrannari. Ég þurfti nánast ekki að gera neitt nema að leggja boltann í netið. Ég viðurkenni það alveg, að þetta var erfið sending en Óli gerði þetta frábærlega."

Hilmar var valinn besti leikmaður 1. deildar í fyrra þegar Leiknir vann deildina.

Skagamenn gefa ekkert eftir
Leiknisliðið var vel stutt af stuðningsmönnum sínum sem fjölmenntu á Hlíðarenda. Hilmar Árni vonast eftir jafn góðum stuðningi á næsta leik liðsins.

„Ég var þvílíkt ánægður með stuðninginn sem við fengum á Vodafone-vellinum. Það var geðveikt að heyra í stuðningsmönnunum í 90 mínútur. Maður fann fyrir miklum stuðningi allan tímann," segir Hilmar.

Það verður nýliðaslagur næsta mánudag, þegar Leiknir og ÍA mætast á Ghetto-ground.

„Þetta verður erfiður leikur. Það má búast við hörkuleik og Skagamenn munu ekki gefa neitt eftir. Freyr og Davíð Snorri eru frábærir í að undirbúa liðið fyrir hvern leik og við verðum klárir í leikinn á mánudaginn, það er engin spurning," segir Hilmar Árni sem fær pizzu-veislu frá Domino´s frá Fótbolta.net fyrir að vera valinn leikmaður umferðarinnar.

„Það er frábært. Það þarf að vanda valið, þessi ákvörðun verður ekki tekin sísvona," segir Hilmar Árni aðspurður út í, hvað hann ætli að fá sér á Domino's.
Athugasemdir
banner
banner