Olise, Branthwaite, Gutierrez, Guimaraes, Zubimendi og fleiri góðir í slúðurpakka dagsins
banner
   fös 06. maí 2011 08:00
Fótbolti.net
Spá þjálfara og fyrirliða í 2.deild karla: 9. sæti
Mynd: Sunnlenska.is - Guðmundur Karl
Mynd: Fotbolti.net-Davíð Óskarsson
Mynd: Sunnlenska.is - Guðmundur Karl
Mynd: Fotbolti.net-Davíð Óskarsson
Mynd: Fótbolti.net - Elvar Geir Magnússon
Fótbolti.net ætlar að fjalla vel um aðra deildina í sumar eins og undanfarin ár og við ætlum að hita vel upp með því að birta spá fyrirliða og þjálfara í deildinni fram að móti.

Við fengum alla fyrirliða og þjálfara til að spá og fengu liðin því stig frá 1-11 eftir því en ekki var hægt að spá fyrir sínu eigin liði. Í níunda sæti í þessari spá var Hamar sem fékk 100 stig af 242 mögulegum. Kíkjum á umfjöllun okkar um Hamar.



9. Hamar
Búningar: Blá treyja, bláar buxur, bláir sokkar.
Heimasíða: http://www.hamarsport.is
Lokastaða í fyrra: 8.sæti í 2.deild

Hamar úr Hveragerð hefur bætt árangur sinn í annarri deildinni frá ári til árs síðan liðið komst upp úr þriðju deildinni árið 2007. Í fyrra náði liðið að kveðja falldrauginn fyrr en árið 2008 og 2009 og niðurstaðan varð áttunda sæti í annarri deild sem er besti árangur liðsins frá upphafi. Hamarsmenn hafa undanfarin þrjú ár verið spáð falli en liðið hefur alltaf blásið þær hrakspár niður. Hamarsmenn hafa öll þessi þrjú tímabil ekki byrjað alltof vel en þeir hafa síðan komið öflugir upp síðari hluta sumars þegar búið er að slípa liðið betur saman.

Hamarsliðið hefur undanfarin ár að langmestu leyti verið byggt upp á ungum leikmönnum af höfuðborgarsvæðinu, leikmönnum sem eru á fyrsta, öðru eða þriðja ári í meistaraflokki. Engin breyting er þar á í ár og sem fyrr er Jón Aðalsteinn Kristjánsson við stjórnvölinn en hann er á sínu þriðja ári með Hamar. Breiddin hjá Hamarsmönnum er meiri núna en undanfarin ár en í vetur hefur félagið krækt í níu leikmenn sem eru allir fæddir 1987 eða síðar.

Á meðal leikmannanna sem hafa bæst í hópinn er varnarmaðurinn Björn Orri Hermannsson sem hefur leikið með bæði með Fylki og Fram í efstu deild. Björn Orri spilaði ekkert í fyrra vegna meiðsla en hann gæti styrkt Hamarsliðið mikið ef hann verður heill. Ellert Finnbogi Eiríksson úr Val og Hrafnkell Freyr Ágústsson úr Breiðabliki hafa einnig bæst við vörnina síðan í fyrra og því gætu Hvergerðingar stillt upp nánast nýrri vörn í ár.

Af öðrum leikmönnum sem hafa komið til Hamars í vetur má nefna Björn Ívar Björnsson sem kemur frá KV. Björn Ívar mun styrkja lið Hamars fram á við en liðið skoraði ekki nægilega mörg mörk í fyrra til að komast í efri hluta deildarinnar. Hamar skoraði 26 mörk í 22 leikjum í annarri deildinni og þar af var Axel Ingi Magnússon með tólf af þessum mörkum. Hamar þarf fleiri mörk í sumar til að ná lengra og fleiri leikmenn þurfa að pota inn mörkum.

Hamarsliðið er mjög baráttuglatt lið og þar hika menn ekki við að berjast fyrir málstaðinn. Ekkert lið í deildinni getur átt von á auðveldum leik á Grýluvelli í sumar og Hamarsmenn stefna hærra en spáin segir til um. Eftir að hafa styrkt hópinn í vetur er ljóst að í Hveragerði sætta menn sig ekki við níunda sæti og stefnan er að halda áfram að gera betur en á síðasta ári.

Styrkleikar: Breiddin er góð í hópnum eftir liðsstyrkinn sem hefur komið í vetur. Ungur og samheldinn hópur þar sem stemningin er mikil. Hafa marga sterka miðjumenn.

Veikleikar: Ungur leikmannahópur en enginn leikmaður í hópnum er eldri en 25 ára og því vantar reynslu. Skoruðu lítið í fyrra og þurfa að fá fleiri mörk í sumar til að komast lengra.

Lykilmenn: Axel Ingi Magnússon, Ágúst Örlaugur Magnússon, Björn Ívar Björnsson

Þrír fyrstu leikir sumarsins: Reynir (Heima), Árborg (Úti), KF (Heima)
Þjálfari: Jón Aðalsteinn Kristjánsson (Fæddur 1977):
Jón Aðalsteinn Kristjánsson þjálfar Hamar þriðja árið í röð. Jón Aðalsteinn byrjaði nokkuð ungur að þjálfa ÍH í þriðju deildinni. Árið 2006 var hann aðstoðarþjálfari hjá Aftureldingu auk þess sem hann þjálfaði annan flokk félagsins. Í kjölfarið stýrði hann Skallagrími í eitt ár áður en hann þjálfaði annan flokk Fram við góðan orðstír árið 2008. Eftir það tók hann síðan við Hamri.


Komnir:
Arnþór Ingi Kristinsson frá ÍA
Björn Ívar Björnsson frá KV
Björn Orri Hermannsson frá Fram
Einar Már Þórisson frá KR
Ellert Finnbogi Eiríksson frá Val
Hrafnkell Freyr Ágústsson frá Breiðabliki
Pétur Kjartan Kristinsson frá Fjarðabyggð
Sigurður Þór Reynisson frá Noregi
Viktor Ingi Kristjánsson frá Létti

Farnir:
Arnar Þórarinsson í Berserki
Kristinn Steinar Kristinsson í Þrótt
Leifur Bjarki Erlendsson til Danmerkur


Spá fyrirliða og þjálfara:
1. ?
2. ?
3. ?
4. ?
5. ?
6. ?
7. ?
8. ?
9. Hamar 100 stig
10. Dalvík/Reynir 99 stig
11. ÍH 38 stig
12. Árborg 37 stig
banner
banner