Fótbolti.net ætlar að fjalla vel um aðra deildina í sumar eins og undanfarin ár og við ætlum að hita vel upp með því að birta spá fyrirliða og þjálfara í deildinni fram að móti.
Við fengum alla fyrirliða og þjálfara til að spá og fengu liðin því stig frá 1-11 eftir því en ekki var hægt að spá fyrir sínu eigin liði. Í ellefta sæti í þessari spá var ÍH sem fékk 38 stig af 242 mögulegum eða stigi meira en Árborg. Kíkjum á umfjöllun okkar um ÍH.
Við fengum alla fyrirliða og þjálfara til að spá og fengu liðin því stig frá 1-11 eftir því en ekki var hægt að spá fyrir sínu eigin liði. Í ellefta sæti í þessari spá var ÍH sem fékk 38 stig af 242 mögulegum eða stigi meira en Árborg. Kíkjum á umfjöllun okkar um ÍH.
11. ÍH
Búningar: Hvít treyja, hvítar buxur, hvítir sokkar.
Heimasíða:
Lokastaða í fyrra: 10.sæti í 2.deild
Stöðugleiki er orð sem mun seint vera notað um leikmannahóp ÍH. Breytingarnar á leikmannahópi liðsins á milli ára og jafnvel á milli leikja eru miklar og í raun jafn óútreiknanlegar og íslenska veðrið. Engin breyting er þar á í ár en vel yfir tíu leikmenn eru farnir og annar eins hópur hefur komið í staðinn. Guðmundur Magnússon er þjálfari liðsins en hann stýrði ÍH einnig í síðustu leikjunum í fyrra eftir að Brynjar Þór Gestsson hélt til Bandaríkjanna.
Guðmundur náði að bjarga ÍH frá falli í fyrra en liðið endaði einu stigi á undan Víðismönnum. Samkvæmt spá fyrirliða og forráðamanna mun ÍH hins vegar kveðja aðra deildina í haust eftir fimm ára dvöl. ÍH er spáð næstneðsta sæti og það kemur ekki mikið á óvart ef árangur liðsins á undirbúningstímabilinu er skoðaður. Liðið fékk 22 mörk á sig í fimm leikjum í Lengjubikarnum og tvívegis náðu andstæðingar liðsins að skora átta sinnum í sama leiknum.
ÍH sigraði hins vegar Árborg í síðasta leiknum í Lengjubikarnum og leikur liðsins hefur farið batnandi síðustu vikurnar fyrir mót en Hafnfirðingar hafa þá unnið nokkra æfingaleiki. Nokkrir leikmenn komu til félagsins í apríl og þeir styrkja hópinn sem var oft þunnskipaður framan af vetri. Til að mynda var liðið ekki með neinn varamann í einum leik í Lengjubikarnum og það segir sig sjálft að slíkt kann ekki góðri lukku að stýra.
Mikið mun mæða á Birgi Rafni Birgissyni og Herði Ingþóri Harðarsyni en þeir eru langreyndustu leikmenn liðsins. Reyndir menn eins og Davíð Ellertsson, Edilon Hreinsson og Guðjón Frímann Þórunnarson verða ekki með ÍH í sumar og það er skarð sem gæti verið erfitt að fylla. Fyrir utan Birgi Rafn og Hörð Ingþór eru flestir leikmenn ÍH í kringum tvítugsaldurinn en þar af eru margir leikmenn sem voru að ganga upp úr öðrum flokki og komu frá FH og Haukum í vetur. ÍH er aftur á móti ekki í samstarfi við Hauka eins og undanfarin ár og því munu leikmenn úr öðrum flokki þaðan ekki hafa kost á að leika einnig með ÍH í 2.deildinni líkt og áður.
ÍH hefur oftar en ekki verið spáð döpru gengi í annarri deildinni en liðið hefur alltaf hingað til náð að blása á hrakspár og halda sér í deildinni. Hvort leikmönnum liðsins tekst það í sumar verður tíminn að leiða í ljós en búast má við að það sé langt sumar framundan hjá Hafnfirðingum.
Styrkleikar: Ungir, efnilegir og hungraðir leikmenn sem vilja sanna sig í meistaraflokki. Eru með leikna menn inn á milli. Þá gæti heimavöllurinn hjálpað ÍH en liðið er það eina sem leikur alla heimaleiki sína á gervigrasi í sumar og í fyrra náði liðið í 14 af 20 stigum sínum á Ásvöllum.
Veikleikar: Leikmannahópurinn er ungur og óreyndur og spurning er hvernig leikmenn bregðast við mótlætinu ef byrjunin verður ekki góð en margir leikmenn eru að spila sitt fyrsta ár í meistaraflokki. Varnarleikurinn og markvarsla gæti orðið veikleiki hjá ÍH í sumar eins og sást í Lengjubikarnum þar sem liðið fékk ófá mörk á sig.
Lykilmenn: Birgir Rafn Birgisson, Hörður Ingþór Harðarson, Vignir Bollason
Þrír fyrstu leikir sumarsins: Dalvík/Reynir (H), Völsungur (H), Fjarðabyggð (Ú)
Þjálfari: Guðmundur Magnússon (Fæddur 1975):
Guðmundur er nokkuð reyndur þjálfari þrátt fyrir að vera einungis 36 ára gamall. Guðmundur stýrði meðal annars kvennaliði Breiðabliks árið 2006 og síðar kvennaliði Hauka. Hann þjálfaði Huginn sumarið 2007 en hann lék einnig með liðinu í nokkur ár. Guðmundur var fyrirliði Hamranna/Vina þegar liðið fór upp úr þriðju deildinni 2008 og þjálfaði lið ÍH/HV ári síðar ásamt Mikael Nikulássyni. Hann tók síðan við liði ÍH undir lok síðasta sumars.
Komnir:
Ásgeir Gunnarsson frá FH
Birgir Hákon Jóhannsson frá Huginn
Guðmundur Arnar Sigurðsson frá Aftureldingu
Guðmundur Jónsson frá Huginn
Gunnar Páll Pálsson frá FH
Hilmar Ástþórsson frá FH
Runólfur Þórhallsson frá KV
Sigurður Heiðar Höskuldsson frá Ými
Stefán Þór Jónsson frá FH
Tihomir Drobnjak frá Gróttu
Vignir Þór Bollason frá Hetti
Örn Rúnar Magnússon frá FH
Farnir:
Alexander Freyr Sindrason í Hauka
Andri Björn Sigurðsson í ÍR
Atli Þór Jóhannsson í Víði Garði
Chris Vorenkamp í ÍR
Davíð Ellertsson hættur
Edilon Hreinsson hættur
Enok Eiðsson í Hauka
Guðjón Frímann Þórunnarson í Markaregn
Hrannar Karlsson í ÍR
Ísak Örn Einarsson í Hauka
Jón Kolbeinn Guðjónsson í Huginn
Marteinn Gauti Andrason í Hauka
Sindri Örn Steinarsson í Hauka
Spá fyrirliða og þjálfara:
1. ?
2. ?
3. ?
4. ?
5. ?
6. ?
7. ?
8. ?
9. ?
10. ?
11. ÍH 38 stig
12. Árborg 37 stig