Chelsea blandar sér í baráttu við Arsenal um Isak - Real Madrid hyggst lána eftirsóttan Guler - Mourinho ekki að reyna við Ronaldo
   fim 05. maí 2011 08:00
Fótbolti.net
Spá þjálfara og fyrirliða í 2.deild karla: 10. sæti
Mynd: Bjarni Gunnarsson
Mynd: Bjarni Gunnarsson
Mynd: Dalvík/Reynir
Mynd: Bjarni Gunnarsson
Mynd: Bjarni Gunnarsson
Fótbolti.net ætlar að fjalla vel um aðra deildina í sumar eins og undanfarin ár og við ætlum að hita vel upp með því að birta spá fyrirliða og þjálfara í deildinni fram að móti.

Við fengum alla fyrirliða og þjálfara til að spá og fengu liðin því stig frá 1-11 eftir því en ekki var hægt að spá fyrir sínu eigin liði. Í tíunda sæti í þessari spá var Dalvík/Reynir sem fékk 99 stig af 242 mögulegum. Kíkjum á umfjöllun okkar um Dalvík/Reyni.



10. Dalvík/Reynir
Búningar: Blá treyja, bláir buxur, bláir sokkar.
Heimasíða: dalvik-reynir.is
Lokastaða í fyrra: 2.sæti í 3.deild

Eftir nokkurra ára bið náði Dalvík/Reynir loks að komast upp úr þriðju deildinni í fyrra. Félagið hafði ætlað sér stóra hluti í nokkur ár en ekki gengið vel að fylgja því eftir þar til að ætlunarverkið tókst í fyrra. Atli Már Rúnarsson tók við Dalvík/Reyni fyrir síðasta tímabil og þessi reyndi markvörður stýrði liðinu upp um deild auk þess að standa sjálfur vaktina í búrinu. Skemmtileg stemning myndaðist í kringum liðið í fyrra og stuðningsmannafélagið Brúinn lét vel í sér heyra á hliðarlínuna á heimaleikjum sem og útileikjum.

Heimavöllurinn er einmitt sterkt vígi hjá Dalvík/Reyni en í fyrra tapaði liðið ekki leik þar. Liðið sigraði allan leikina sína heima nema undanúrslitaleikinn gegn KB. Þar varð niðurstaðan 2-2 jafntefli en það nægði Dalvík/Reyni eftir sigur í fyrri leiknum. Óhætt er að segja að fögnuðurinn eftir leikinn hafi verið ósvikinn enda hafði Dalvík/Reynir leikið í þriðju deild frá því að félögin sameinuðust árið 2006.

Samkvæmt spánni munu nýliðarnir enda í tíunda sæti í ár og það getur talist eðlilegt miðað við að margir leikmenn liðsins hafa ekki reynslu af því að spila ofar en í þriðju deildinni. Það á þó alls ekki við um alla leikmenn en auk Atla þjálfara hafa Hermann Albertsson og Jóhann Hreiðarsson talsverða reynslu úr efstu deild og mikið mun mæða á þeim í sumar. Elvar Lúðvík Guðjónsson, fyrrum fyrirliði ÍR, kom einnig til liðsins í vetur og hann kemur líka með reynslu inn í liðið.

Í síðustu viku fékk Dalvík/Reynir síðan varnarmanninn Svein Óla Birgisson á láni frá Þór og þá Orra Gústafsson og Víking Hauksson á láni frá KA. Þessir leikmenn styrkja liðið og auka breiddina til muna. Orri mun væntanlega fá það hlutverk að fylla skarðið sem gamli refurinn Ragnar Hauksson skildi eftir sig. Ragnar kom til Dalvíkur/Reynis í júlí og var drjúgur síðari hluta sumars áður en hann fór aftur í KF. Þrátt fyrir að leika einungis hálft tímabil var Ragnar markahæsti leikmaður Dalvíkur/Reynis í fyrra ásamt Hermanni og ljóst er að liðið þarf að fá mörk úr öðrum áttum í sumar til að fylla hans skarð.

Gengi Dalvíkur/Reynis í vetur var upp og ofan en þar spilaði inn í að mikil meiðsli voru í hópnum auk þess sem að hópurinn var ekki allur kominn saman, nýir leikmenn hafa verið að bætast í hópinn undanfarna daga og þá vantaði einhverja leikmenn sem hafa verið á höfuðborgarsvæðinu í vetur. Atli Már fær núna það verkefni að púsla saman liðinu fyrir mót og reyna að tryggja það að Dalvík/Reynir verði áfram í annarri deildinni sumarið 2012.

Styrkleikar: Sterkur heimavöllur sem skilaði miklu í fyrra. Stemningin er góð í kringum liðið og Stuðningsmannafélagið Brúinn spilar stóran þátt þar. Hafa nokkra reynda leikmenn sem þekkja það vel að spila í efri deildum.

Veikleikar: Eru að púsla saman liðinu á síðustu stundu og það gæti tekið tíma til að fá leikmenn til að ná saman. Nokkrir leikmenn eru að stíga sín fyrstu skref utan þriðju deildar. Breiddin í hópnum var lítil í vetur en hefur þó aukist með komu lánsmanna.

Lykilmenn: Hermann Albertsson, Jóhann Hreiðarsson og Sveinn Óli Birgisson.

Þrír fyrstu leikir sumarsins: ÍH (Ú), Reynir S. (Ú), Árborg (H)
Þjálfari: Atli Már Rúnarsson (1971):
Atli Már er á sínu öðru tímabili sem þjálfari hjá Dalvík/Reyni. Atli stóð í áraraðir í marki Þórs áður en hann tók við þjálfun Magna frá Grenivík árið 2006. Atli kom Magnamönnum í aðra deild og náði fínum árangri með liðið þar áður en hann fór aftur til Þórs árið 2009. Atli Már tók síðan við sem spilandi þjálfari hjá Dalvík/Reyni haustið 2009.


Komnir:
Baldvin Freyr Sigurjónsson tók skóna af hillunni
Elvar Lúðvík Guðjónsson frá ÍR
Logi Ásbjörnsson frá Þór
Orri Gústafsson frá KA
Stefán Daði Bjarnason frá Þór
Stefán Ingi Gunnarsson frá KB
Sveinn Óli Birgisson frá Þór
Víkingur Hauksson frá KA

Farnir:
Ingvar Már Gíslason hættur
Ragnar Hauksson KF
Steinn Símonarsson hættur


Spá fyrirliða og þjálfara:
1. ?
2. ?
3. ?
4. ?
5. ?
6. ?
7. ?
8. ?
9. ?
10. Dalvík/Reynir 99 stig
11. ÍH 38 stig
12. Árborg 37 stig
banner